Flautuleikarinn Björg Brjánsdóttir og Ingibjörg Elsa Turchi bassaleikari og tónskáld halda tónleika á morgun, sunnudaginn 23. mars, kl. 20 í Hafnarborg.
Í tilkynningu kemur fram að flutt verði ný verk sem séu afrakstur frjós samstarfs þeirra á milli en tónleikarnir eru hluti af Hljóðön, samtímatónleikaröð Hafnarborgar.
Þá bera tónleikarnir yfirskriftina „Blöndun/Fusione“ sem er fengin úr einleiksverki fyrir bassaflautu sem Ingibjörg Elsa Turchi skrifaði sérstaklega fyrir Björgu Brjánsdóttur á sínum tíma og markaði upphafið að samstarfi þeirra á milli. „Titillinn ber jafnframt samstarfinu sterkt vitni þar sem tónlistarlegur bakgrunnur þeirra beggja þekur víðfeðmt svæði tónlistar. Hafa þær á síðustu misserum unnið saman að nýjum verkum sem frumflutt verða af höfundum á tónleikunum í bland við þessa upphafsvörðu samstarfsins,“ segir jafnframt í tilkynningunni.