Meðal þess fjölmarga sem rýrt hefur trúverðugleika Flokks fólksins þannig að ekkert er eftir er svik flokksins í Evrópumálum. Frambjóðendur flokksins stilltu sér fyrir kosningar upp sem einum eindregnustu andstæðingum aðildar að Evrópusambandinu en stukku svo hiklaust um borð í Evrópuhraðlest Viðreisnar og Samfylkingar þegar færi gafst.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, á Alþingi út í fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í ESB og hvort Inga styddi að henni yrði flýtt.
Formaður flokks fólksins sagði skringilegan misskilning í gangi, í þjóðaratkvæðagreiðslunni væri ekki verið að greiða atkvæði um inngöngu í ESB heldur um það hvort hefja ætti „aðildarviðræður“.
Þennan blekkingarleik leiðrétti Ingibjörg og benti á að oft væri „látið líta svo út eins og viðræður við ESB séu bara ákveðin skoðunarferð, að við séum að kíkja í pakkann. En staðreyndin er sú að aðildarviðræður eru aðlögunarferli“.
Heldur Flokkur fólksins að hann verði trúverðugri við að reyna að blekkja kjósendur eftir að hafa svikið þá?