Vantar eitthvað í skilning okkar á alheiminum?

Vísindin eru mögnuð og hafa rutt úr vegi ýmsum bábiljum. Enn er þó margt óvitað og uppgötvanir gerðar, sem snúa hinu viðtekna á hvolf.

Frá því að James Webb-geimsjónaukinn var tekinn í notkun árið 2022 hafa fundist bjartari og þróaðri sólkerfi en vitað var og mun fleiri en vísindamenn áttu von á.

Á fimmtudag var greint frá því að súrefni hefði greinst í fjarlægasta sólkerfi, sem enn hefur fundist, og eru vísindamenn steini lostnir.

Þetta uppgötvaðist við skoðun gagna frá 2024 frá James Webb-sjónaukanum um sólkerfi, sem nefnt hefur verið JADES-GS-z14-0. Það merkilega við þetta er að þótt upplýsingarnar hafi fengist í fyrra eru þær 13,4 milljarða ára gamlar. Það er sá tími sem það tók ljósið frá þessu fjarlæga sólkerfi að ferðast til jarðar.

Svo vill til að fyrir 13,4 milljörðum ára var alheimurinn frekar nýr; aðeins 300 milljón ára gamall. Þessi tími hefur verið kallaður hin „kosmíska dögun“. Þá hafi stjörnur verið ungar og þar hafi verið að finna létt frumefni á borð við vetni og helíum, en ekki þyngri eins og súrefni.

Einn vísindamaður lýsti því þannig í samtali við fréttaveituna AFP að þetta væri eins og finna ungling þar sem aðeins hefðu átt að vera kornabörn. Annar sagðist gáttaður á þessum óvæntu niðurstöðum og bætti við að gögn um að finna megi „sólkerfi sem þegar er þroskað í barnungum alheimi veki spurningar um hvenær og hvernig sólkerfi mynduðust“.

Í frétt AFP er gengið svo langt að varpa fram þeirri spurningu hvort eitthvert grundvallaratriði vanti í skilning okkar á alheiminum.

Það væri ekki í fyrsta skipti.