Fossá í Hvalfirði.
Fossá í Hvalfirði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nú verður fróðlegt að sjá hvernig Trump gengur með að ljúka Úkraínustríðinu. Því hafði hann lofað í síðustu kosningum að hann myndi gera. Það hefur þó vissulega dregist, enda varla við mann að eiga þar sem Pútín forseti Rússlands er.

Það hafa borist fremur dapurlegar fréttir úr ríkisstjórn Íslands upp á síðkastið. Efst á blaði hafa þar verið málefni „barnamálaráðherrans“ og bæði gömul mál og ný, sem hún kemur ítrekað illa frá, enda eru þau óneitanlega harla einkennileg fyrir ráðherrann, sem ber nú það embættisheiti sem nefnt var, í ríkisstjórninni. Það er hægur leikur fyrir áhorfendur sem eitthvað þekkja til að kveða upp dóm um þennan ráðherra, og þá ekki endilega af mikilli sanngirni.

Upphaf þessa er vissulega langt undan en alþekkt er að þegar einstaklingar hefjast hratt og með lítilli skoðun upp í virðuleg og ábyrgðarþung störf er ekki horft mjög til þess hvort grunnur viðkomandi og á stundum fortíð hans standist skoðun, en slíkt kemur ekki til ef „Sigga og Jón“ eiga í hlut. Slíkt er alkunna, og iðulega stundum ósanngjarnt.

En nú var það svo að ráðherrann fv. sem á í hlut kom sér rækilega í fréttir nokkrum vikum fyrr, og þá vegna persónulegs málareksturs fyrir dómstólum. Ráðherrann var þar sem einstaklingur á ferð og bar þar enga embættislega ábyrgð. Hann fór að eigin mati halloka frá dómsmálunum að þessu sinni, og stóðst ekki mátið og lét þung orð falla um íslenska dómstóla af þessu tilefni, sem hefðu illa risið undir sinni miklu ábyrgð. Sjálfsagt er það mannlegt og því fremur algengt að þeir sem tapa málum persónulega fyrir dómstólum kunna þeim sem dæma, einir eða í hóp, litlar þakkir fyrir, enda er það mjög algengt að viðkomandi hafi verið orðinn mjög sannfærður, áður en dómur var upp kveðinn, að málstaður hans hafi verið mjög sterkur. Ekki er heldur með öllu útilokað að þeir sem hafa haldið á málinu fyrir viðkomandi hafi stundum ýtt undir slíkar tilfinningar, þótt auðvitað sé ekkert um slíkt vitað í þessu einstaka tilviki.

Lítil þúfa velti

Málið sem var þar á ferð var ekki í sjálfu sér til þess fallið að draga að sér athygli, en af því að þar fór ráðherra varð nálgunin önnur, og orð ráðherrans um dómstólana voru ekki endilega heppileg, einkum þegar ætíð var vitnað til þess að sá sem hefði tapað sínu persónulega máli hefði verið starfandi ráðherra, sem gat ekki stillt sig um að hnýta í dóminn vegna þessara úrslita, þótt málið hafi ekki verið stórt, og því ekki líklegt til að vekja forvitni, nema af því einu að einn af ráðherrum landsins átti í hlut. Og vel má vera að vegna þess að þetta mál fékk aukna umræðu, og ráðherra átti í hlut, sem gat ekki stillt sig um að senda dómstólunum kveðju, hafi önnur mál og erfiðari vaknað og „fjandinn verið laus“.

Umræðan breyttist

Og þar með breyttist öll umræða, og varð fljótt stjórnlaus, þótt gömul væri að mestu. Og af einhverjum ástæðum bárust svo böndin að forsætisráðherra landsins, sem gefið var til kynna að vitað hefði um málið mun fyrr en fjölmiðlar landsins. Sagt var frá því að einstaklingur „utan úr bæ“ hefði ítrekað reynt að fá samtal við forsætisráðherrann vegna þessa máls, þótt ekki sé ljóst að viðkomandi hafi látið fylgja um hvað erindi hans snerist. Þar með „lá fyrir“ að forsætisráðherrann hefði ítrekað hafnað beiðninni um að veita viðtal. Sjálfsagt geta ýmsir, svo sem vant er, orðið fljótir til að gera alvarlegar aðfinnslur um slælega framgöngu forsætisráðherrans vegna þessa, en fjarri er þó að það verði fullyrt að ráðherrann hafi í einhverju brugðist embættisstarfi sínu. Þeir sem þekkja sæmilega til vita að fjarri því er að sjálfsagt sé í öllum tilvikum rétt og skilyrðislaust að forsætisráðherrann veiti öllum þeim viðtal sem um slíkt biðja. Líklegt er að venjur um slíkt breytist með tíð og tíma, en hætt er við að forsætisráðherrann sem í hlut ætti myndi fljótt missa öll tök á starfi sínu ef slíkt væri ófrávíkjanleg regla.

Sá sem þetta skrifar þekkir svo sem ekki lengur til þess hvers konar vinnubrögð tíðkast nú í slíkum efnum. Mörg erindi voru áður afgreidd með símtali og þá var ákveðið hvort viðkomandi kæmi í samtal eða ekki. Embættismenn og aðstoðarmenn fóru þá yfir og leituðust við að grynnka bunkann af slíkum beiðnum. Þá var gjarnan athugað hvort erindið væri þannig vaxið að rétt væri að beina því til viðkomandi fagráðherra, enda ef viðkomandi fengi samstundis viðtal við forsætisráðherrann myndi hann í því samtali iðulega benda á að rétt væri að tiltekinn fagráðherra myndi skoða málið og eftir atvikum ræða í framhaldinu við borgarann.

Ekki verður séð af opinberum málavöxtum að forsætisráðherrann hafi brugðist í einhverjum efnum í þessu tiltekna máli. Enda verður ekki annað séð en að hraði afgreiðslu forsætisráðherrans hafi verið eins og eðlilegt var og við mátti búast. Hitt er annað mál að sífellt virðist verða ljósara, það sem sýndist þó fljótt, að Flokkur fólksins hafi verið fjarri því að vera orðinn tækur til setu í ríkisstjórn sem tæki sig alvarlega. Það er í sjálfu sér enginn áfellisdómur. Flokkur fólksins lét forðum töluvert til sín taka á þingi og gerði þar gagn, en það hefur bersýnilega ekki sýnt sig að hann hafi lokið „sveinsprófinu“ um að vera hæfur til að axla ábyrgð í ríkisstjórn Íslands, og er þetta því miður að verða sífellt erfiðara fyrir ríkisstjórnina að búa við. En þó er ekki víst að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi þá burði sem þarf til að bjarga ríkisstjórninni, áður en það verður orðið of seint.

Horft er í vestur

Nefnt hefur verið á þessum vettvangi að undarlegt sé að sjá að þrálátt hatur demókrata á Donald Trump stendur ekki lengur eitt. Demókratar héldu að þeir gætu unnið Trump með því að uppnefna hann sem Adolf Hitler, Göbbels, Göring eða Himmler, eða þá alla saman. Í síðustu kosningum, sem Trump gerði þann óskunda að vinna með töluverðum yfirburðum, hafði það meðal annars gerst að fjöldi af forstjórum stórfyrirtækja og banka hafði verið með mikil ónot í frambjóðandann Trump árið 2020, sem Trump tapaði, þótt ekki hafi miklu munað.

Trump fullyrti að ríkulegt svindl hefði fleytt Joe Biden til sigurs svo að hann sleppti því að mæta í innsetningarathöfnina. Hillary Clinton, sem Trump vann 2016, fullyrti með sama hætti og Trump síðar að Trump hefði unnið sig með svindli og hvatti frú Clinton fyrrverandi forseta til að mæta ekki í innsetningarathöfnina þá. En sú hvatning fékk ekki hljómgrunn. Elon Musk, sem sagt er ítrekað að sé ríkasti maður Bandaríkjanna, studdi í þeim kosningum Joe Biden á móti Trump. Það gerðu mjög margir af „næstríkustu“ mönnum þessa ríka lands. Biden vann (og auðvitað með svindli, að mati Trumps). En Elon Musk lét ekki duga í síðustu kosningum stuðning sinn við Trump, en varð mjög handgenginn hinum nýja forseta og tók að sér mörg óvinsæl verk launalaust. Þegar Musk studdi Biden var hann ekki lagður í einelti. En fjórum árum síðar, þegar hann studdi Trump, fékk hann óblíðar móttökur, svo ekki sé meira sagt og nú er sama sagan!

Þegar geimfarar, sem áttu að vera í tveggja vikna dvöl, lokuðust inni í geimnum mánuðum saman, og enduðu með því að vera þar í tæpt ár, bauðst Elon Musk til að senda eina af sínum flaugum til að sækja þá. En því hafnaði Joe Biden forseti, enda óttaðist hann að Musk myndi slá sér of mikið upp ef honum tækist að bjarga geimförunum innilokuðu heim. Forsetinn vildi frekar þrengja að geimförunum en að sjá Musk slá sér upp ef honum tækist að bjarga geimförunum til jarðar. Þegar Trump var kominn í Hvíta húsið bað hann Musk um að bjarga geimförunum. Það gerði hann með glæsibrag. Það er því fróðlegt að sjá hvaða móttökur Musk hefur fengið síðan af hálfu demókrata. Þær sem hann fékk annars vegar þegar hann studdi Biden forseta og hins vegar þegar hann studdi Trump fjórum árum síðar! Nú fara brennuvargar um og leitast við að brenna Tesla-bíla í stórum stíl og hvar sem þeir finna bifreiðasölu, sem bjóða slíka bíla, til að refsa Elon Musk. Er þetta allt óneitanlega með nokkrum ólíkindum.

Nú verður fróðlegt að sjá hvernig Trump gengur með að ljúka Úkraínustríðinu. Því hafði hann lofað í síðustu kosningum að hann myndi gera. Það hefur þó vissulega dregist nokkuð, enda varla við mann að eiga, þar sem Pútín forseti Rússlands er. Pútín mun beita öllu sínu afli til að þrengja mjög að Úkraínu, sem hann hefur svo sannarlega látið fá allt óþvegið. Trump telur sig vera í sérstöku sambandi við forseta Rússlands, en hætt er við að sú staða hans sé nokkuð ýkt.

Eftir þriggja ára stríð eða svo hefur Rússland fengið rúmlega 20% af landi Úkraínu, og vill sjálfsagt meir. Og Donald Trump hefur rekið augun í það að evrópsku löndin sem létu verulega fjármuni renna til Úkraínu hafi hins vegar tekið veð í öllum þeim fjármunum, en það hafi Joe Biden látið ógert. Þannig að það er af mörgum talið líklegt að Trump leitist við að ná til Bandaríkjanna einhverju af verðmætum Úkraínu, sem þar séu geymd í jörðu.

Trump gengst upp í því að vera mikill samningasnillingur, en þó er líklegast að Úkraína eigi ekki miklar varnir ef Trump gerir alvöru úr því að sækjast eftir fyrrgreindum verðmætum. Eitt helsta baráttumál stjórnmála í Kænugarði er að fá loforð um að Úkraína megi vænta þess fyrr en síðar að fá boð um að verða aðildarríki Nató. En það var það fyrsta sem Pútín ítrekaði við Trump að mætti aldrei verða. Ef slíkt loforð yrði gefið héldi stríðið einfaldlega áfram, enda mættu menn muna að það var einmitt sú hætta sem ýtti undir stríðið í upphafi. Vandinn er auðvitað sá að þótt augljóst sé að Úkraína hafi barist af miklu hugrekki við ofureflið er hætt við að vesturveldin muni líta svo á að Rússland sé einfaldlega sigurvegarinn í þessum leik. Og óhjákvæmilegt sé að í þessu uppgjöri stríðsins muni Rússar óhjákvæmilega fá að njóta þess.