Hvað eiga rokkhljómsveitirnar The Bangles og The Runaways sameiginlegt? Fyrir utan hið augljósa, þær voru báðar einvörðungu skipaðar konum. Jú, sami bassaleikari átti aðild að hvorri tveggja, Michael Steele. „Hvaða Michael?“ spyrjið þið nú. Erum við ekki að tala um stúlknasveitir? Jú, við erum að því. Michael Steele er kona og hefur verið frá því að hún leit fyrst dagsins ljós. Við erum sumsé ekki að tala um kynleiðréttingu, eins og ábyggilega hefur flögrað að einhverjum. Þegar hún var vatni ausin heima í Pasadena, Kaliforníu, hlaut Michael Steele reyndar nafnið Susan Thomas en þótti það af einhverjum ástæðum ekki boðlegt þegar hún hóf rokkferilinn í sjöunni. Eða kannski vildi hún bara ekki að fólk þekkti hennar rétta nafn? Hver veit?
Hún kallaði sig reyndar Micki Steele upphaflega og undir því nafni lék hún með The Runaways. Það var umboðsmaðurinn og furðufuglinn Kim Fowley (karlmaður, vel að merkja) sem setti það band saman fyrir réttri hálfri öld, 1975, á þeim forsendum að það vantaði alfarið rokkband sem eingöngu væri skipað stúlkum. Upphaflega var um tríó að ræða, okkar kona söng og lék á bassa, Joan Jett lék á gítar og söng og Sandy West barði húðir. Enda þótt hún væri bara tvítug, fædd 1955, var Steele langelst í The Runaways; Jett var 17 ára og West 16.
Enda rakst „gamla“ konan illa í bandinu og sagði skilið við það áður en árið var úti. Talað var um listrænan ágreining í því sambandi en fyrir liggur að Steele kallaði fyrsta smell The Runaways, Cherry Bomb, „heimskulegan“. Seinna ljóstraði hún því hins vegar upp sjálf að Fowley hefði gert hosur sínar grænar fyrir henni og þegar staðið hefði á gagnkvæmum áhuga hefði hann viljað losna við hana. Henni fylgdu ískaldar kveðjur þess efnis að hún yrði aldrei rokkstjarna. „Þú hefur klúðrað þínu eina tækifæri!“
Það fór nú aldeilis á annan veg. Næstu árin fór Steele að vísu ekki með himinskautum, það er hvað vinsældir varðar, en lék með hinum ýmsu böndum, svo sem Elton Duck, Slow Children og Snakefinger, og lagði rækt við bassann sinn. Það skilaði henni árið 1983 inn í The Bangles, sem átti eftir að njóta mikillar lýðhylli næstu árin. Það ágæta band hafði þá starfað í tvö ár en Steele leysti af hólmi upprunalega bassistann, Annette Zilinskas. Enn var hún „gamla brýnið“ en Peterson-systurnar, Vicki og Debbi, eru fæddar 1958 og 1961 og Susanna Hoffs 1959.
The Bangles þekkjum við auðvitað af smellum á borð við Walk Like an Egyptian, Manic Monday og Eternal Flame.
The Bangles er eitt af The Recycler-böndunum frá Los Angeles, ásamt Dead Kennedys, Guns N‘ Roses, Metallica, Mötley Crüe og Hole. Og hvað á ég við með því? Jú, böndin voru stofnuð eftir að auglýsing var birt í téðu blaði.
Í tilviki The Bangles var það Hoffs sem átti auglýsinguna og aðeins Zilinskas svaraði. Kona að nafni Lynn Elkind var hins vegar líka með auglýsingu í blaðinu og Hoffs sló á þráðinn til hennar. Það var þó ekki Elkind sem svaraði í símann, heldur meðleigjandi hennar, Vicki Peterson. Þær smullu strax saman og úr varð að Vicki og Debbi systir hennar stofnuðu The Bangles með Hoffs og Zilinskas en aumingja Elkind sat eftir með sárt ennið. Ekki fylgir sögunni hvort hún fékk auglýsinguna endurgreidda.
The Bangles liðaðist í sundur 1989 en stelpurnar komu aftur saman tæpum áratug síðar. Steele var með allt til 2005 að hún sagði skilið við bandið. Hún er nú sögð sest í helgan stein. Hinir og þessir túruðu með The Bangles eftir það en Zilinskas hefur verið formlegur meðlimur í bandinu frá 2018. Já, einmitt. The Bangles er enn á lífi.
Bara annar tvíburinn
Sama verður ekki sagt um The Runaways. Ekkert hefur til þess spurst síðan 1979. Þá var reyndar mikil þeysireið að baki en Peggy Foster og síðan Jackie Fox leystu Steele af hólmi á bassanum og bætt var við öðrum gítarista, Litu Ford. The Runaways var svo fullskipað þegar söngkonan Cherie Currie slóst í hópinn, þá 15 ára. Bandið sumsé toppaði áður en flestir meðlimanna urðu tvítugir. Ég get sagt ykkur það.
Kim Fowley stóð frammi fyrir stórri ákvörðun þegar hann réði Cherie Currie, enda átti hún tvíburasystur, Marie, sem var nákvæmlega eins og langaði líka að fronta rokkband. Það þótti umbanum hins vegar of mikil áhætta, eineggja tvíburar í framlínunni gætu vanstillt brennipunktinn. Marie blessunin varð því bara að vinna áfram á skyndibitastað.
Cherie Currie hætti í The Runaways 1977 eftir tvær breiðskífur. Engin kom í staðinn, þannig að Jett sá um sönginn á hinum plötunum tveimur sem bandið sendi frá sér. Þá var Vicki Blue tekin við bassanum af Fox.
Lita Ford og sérstaklega Joan Jett gerðu gott mót sem sólóartistar í áttunni eftir þessi bernskubrek og eru enn að. Sandy West lést árið 2006.
Cherie Curry hóf líka sólóferil og sendi frá sér sína fyrstu plötu 1978. Marie systir hennar tók þar einn dúett með henni og söng bakraddir. Þegar Marie steig á svið með systur sinni á tónleikum ætlaði allt um koll að keyra, sem varð til þess að næsta plata kom út undir merkjum þeirra beggja, Cherie & Marie Currie. Hét hún því skemmtilega nafni Messin‘ with the Boys. „Jæja, tvær ljóskur eru betri en ein,“ á Cherie að hafa sagt.
Hvorug seldist platan í bílförmum og lítið fór fyrir systrunum á tónlistarsviðinu lengi á eftir. Þá mun Cherie hafa dregið sína djöfla, dóp og annað miður skemmtilegt. Hún hefur þó náð vopnum sínum í seinni tíð og frá 2015 hafa komið frá henni þrjár breiðskífur. Hún hefur líka spreytt sig á leiklist, meðal annars léku systurnar saman í gamanmyndinni The Rosebud Beach Hotel árið 1984.
Marie sagði snemma skilið við músíkina og sneri sér að öðru. Hún sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu árið 2014. Hún var um tíma gift Steve Lukather, gítarleikara Toto, og á með honum tvö börn.
Fyrir ættfróða má geta þess að eldri systir tvíburanna er leikkonan Sondra Currie.