Sýningar þeirra Emilie Palle Holm, Brotinn vefur, og Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur, Í fullri fjöru, verða opnaðar í dag, laugardaginn 22. mars, kl. 15 í Listasafninu á Akureyri. Segir í tilkynningu að á opnuninni verði boðið upp á listamannaspjall með Emilie kl. 15.45 og leiðsögn með Helgu Páleyju kl. 16.15.
Helga Páley Friðþjófsdóttir lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands 2011 og er starfandi myndlistarmaður í Reykjavík. Eftir útskrift hefur hún haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis en verk hennar eru í eigu listasafna og einkaaðila víðs vegar í Evrópu. Þá hefur teikningin lengi verið Helgu Páleyju hugleikin og skipað stóran sess í hennar listsköpun. Með teikningunni fálmar hún sig áfram með forvitnina að vopni og kortleggur sinn hugarheim. Hún gefur honum tíma til að gerjast þangað til hlutirnir verða skýrari og sögur fæðast, sem færast með ýmsum leiðum yfir á strigann.