Í Alicante
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Ísland mætir Kósovó í seinni leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildar karla í fótbolta á Estadio Nueva Condomina-vellinum í Murcia á Spáni á morgun, sunnudag, klukkan 17.
Er um heimaleik Íslands að ræða en leikurinn var færður til Murcia, þar sem ekki var hægt að leika á Íslandi vegna vallarmála. Reiknað er með um 1.000 Íslendingum á leikinn en völlurinn tekur rúmlega 30.000 áhorfendur.
Kósovó vann fyrri leik liðanna á fimmtudagskvöld, 2:1, og verður Ísland því að vinna upp eins marks forskot til að halda sæti sínu í B-deildinni og koma í veg fyrir fall niður í C-deildina.
Seinni ekki góður
„Mér fannst fyrri hálfleikurinn góður en seinni hálfleikurinn ekki nógu góður,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson um leikinn á fimmtudag, í samtali við Morgunblaðið.
Ísak lagði upp mark Íslands á Orra Stein Óskarsson í Pristínu í Kósovó, með glæsilegri sendingu. Íslenska liðið lék nokkuð vel í fyrri hálfleik en Kósovó var sterkari aðilinn í seinni hálfleik, sem nægði til sigurs.
„Við gerðum margt mjög vel í fyrri hálfleik og mér fannst ótrúlega gaman að spila hann. Þeir breyta í seinni hálfleik, fara maður á mann og við náðum ekki að leysa það. Seinni hálfleikurinn var basl, þótt við höfum fengið færi til að jafna þetta,“ útskýrði Ísak.
Leikurinn var sá fyrsti undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar hjá liðinu og Ísak er afar hrifinn af þjálfaraaðferðum sveitunga síns frá Akranesi.
„Auðvitað tekur þetta tíma hjá nýjum þjálfara og kemur ekki allt í tveimur æfingum. Við fengum ekki margar æfingar með Arnari fyrir leikinn. Fótboltinn hans er mjög skemmtilegur og ég lít á fótbolta á sama hátt og hann. Mér leið því vel inni á vellinum og sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Ísak.
Tökum fyrri hálfleikinn með
Ísak er bjartsýnn á að frammistaðan sem íslenska liðið bauð upp á í fyrri hálfleik í leiknum í Pristínu dugi til sigurs í Murcia á morgun.
„Við þurfum að taka fyrri hálfleikinn með okkur úr þessum leik og reyna að spila þannig í 90 mínútur. Þeir koma örugglega aftur maður á mann í seinni leiknum. Við þurfum að finna lausnir við því. Við förum yfir leikinn og finnum lausnir, því þeir voru betri í seinni hálfleik,“ sagði hann.
Ísak fékk langþráð tækifæri í byrjunarliðinu með landsliðinu á miðjunni en hann spilaði oft á kantinum áður en Arnar Gunnlaugsson tók við.
„Það gekk vel hjá mér að finna Albert, Andra og Orra fram á við í fyrri hálfleik. Ég var þakklátur að fá að byrja og fannst ég gera vel,“ sagði Ísak.
Heilsan er góð
Ljóst er að leikmannahópur Íslands verður öðruvísi í seinni leiknum. Eins og fjallað er um hér fyrir neðan er Jóhann Berg Guðmundsson kominn inn í hópinn en hann missti af fyrri leiknum vegna meiðsla.
Þá er Valgeir Lunddal Friðriksson klár í slaginn en Valgeir var ekki með í Pristínu, þar sem hann hefur verið tæpur vegna meiðsla.
„Heilsan er góð,“ sagði Valgeir við Morgunblaðið á Spáni í gær. „Ég er tilbúinn í næsta leik og hefði verið klár í fyrri leikinn ef eitthvað hefði komið upp á,“ bætti hann við.
„Ég spilaði leik úti fyrir þremur vikum og byrjaði að finna til aftan í læri. Við tókum þá ákvörðun að kúpla mig aðeins út og reyna að ná mér 100%, sem hefur tekist.“
Varnarmaðurinn er því klár í að spila allan leikinn á morgun, þrátt fyrir að hafa ekki spilað í um þrjár vikur.
„Við höfum æft af krafti síðustu daga og ég var með á öllum æfingum, en tók því rólega í lok æfinganna til öryggis. Ég er orðinn ferskur í dag,“ sagði Valgeir.
Rétt eins og Ísak var Valgeir ánægður með fyrri hálfleikinn á fimmtudagskvöld en seinni hálfleikurinn var ekki eins góður. Þrátt fyrir eins marks tap í fyrri leiknum er varnarmaðurinn bjartsýnn fyrir seinni leikinn.
„Þetta var kaflaskiptur leikur. Við byrjuðum vel en svo varð þetta aðeins erfiðara. Við þurfum að tengja tvo hálfleiki saman á morgun. Vonandi náum við því og fögnum sigri í þessu einvígi.
Það voru allir fúlir eftir fyrri leikinn en við getum gert þeim erfitt fyrir. Við förum með fullt sjálfstraust í seinni leikinn,“ sagði hann.
Lært mikið nýtt
Valgeir er ánægður með innkomu Arnars Gunnlaugssonar en eins og áður hefur komið fram stýrði Arnar sínum fyrsta landsleik gegn Kósovó. Bakvörðurinn er því spenntur fyrir komandi tímum.
„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt hingað til hjá Arnari. Við höfum lært mikið nýtt og hann er að koma með nýjar áherslur sem eru áhugaverðar og skemmtilegar,“ sagði Valgeir Lunddal.