Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Fjöldi gervilistamanna er orðinn svo mikill á Spotify að ekki er lengur hægt að loka augunum fyrir alvöru málsins. Þetta er mat Guðrúnar Bjarkar Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Stefs, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar.
Líkt og kom fram í Morgunblaðinu á fimmtudag hefur streymisveitan Spotify í auknum mæli síðustu ár látið framleiða tónlist fyrir ýmsa vinsæla lagalista. Með því hefur þekktum listamönnum verið smám saman úthýst á þeim lagalistum og nýliðar koma að luktum dyrum. Á sama tíma hirðir Spotify sjálft æ stærri hluta kökunnar af höfundarréttargreiðslum fyrir tónlistarstreymið. Hins vegar reynir fyrirtækið að fela þessa viðskiptahætti og vill telja notendum trú um að raunverulegir listamenn séu að baki. Búnir eru til prófílar fyrir þá og meðal annars látið sem sumir þeirra séu íslenskir.
Segir að um menningarnám sé að ræða
Þetta er grafalvarleg staða að mati Guðrúnar Bjarkar en þar á bæ hefur málið verið til skoðunar um hríð. Segir Guðrún að Stef sé í einstakri stöðu í heiminum til að geta fullvissað sig um að þeir gervilistamenn sem nota íslensk nöfn ásamt íslenskum titlum á lög sín séu sannarlega ekki til. Með aðgangi að þjóðskrá og þekkingu á tónlistargeiranum hér sé hægur vandi að kanna þetta. Eftir að hafa safnað saman gögnum var systursamtökum Stefs á Norðurlöndunum gert viðvart. Þá voru upplýsingar sömuleiðis sendar til Evrópusamtaka GESAC að hennar sögn en þar hefur uppbygging streymismarkaðarins verið til skoðunar.
„Við teljum að með þessu séu erlendir óprúttnir aðilar að nýta sér sterkt vörumerki íslenskrar tónlistar og í raun sé um menningarnám að ræða,“ segir Guðrún Björk.
Enginn þekkir listamennina
Stef hefur tekið saman lista yfir „íslenska“ flytjendur á Spotify sem nær öruggt má telja að séu draugar eða gervilistamenn. Þótt vitaskuld sé ekki hægt að staðhæfa með fullri vissu að svo sé eiga þessir flytjendur það sameiginlegt að litlar upplýsingar er að finna um útgefanda þeirra á veitunni, þeir eiga fá lög en þau hafa engu að síður ratað á ritstýrða lagalista. Ómögulegt hefur reynst að finna viðkomandi flytjendur í öðrum kerfum og þeir sem bera full nöfn eru ekki í þjóðskrá. Mest um vert er þó að ef spurst er fyrir í bransanum hér heima kannast enginn við neinn þessara „listamanna“. Og það segir eiginlega allt sem segja þarf.
Meðal þeirra drauga sem eru á lista Stef eru Bjarni Erlingurson sem hefur sent frá sér fimm lög. Hið vinsælasta er Rowan's Lullaby með 15 milljón streymi. Flóki á þrjú lög og nokkrar milljónir spilana. Annar draugur kallast The Last Archiver og hann er með þrjú lög sem bera íslensk heiti; Ratljóst, Fjöll og Mývatn.
Bára og Petra mjög vinsælar
Bára Bjarkardóttir, sem finnst ekki í þjóðskrá, á lagið Echoes of a Fjord, listamaðurinn Draumur á þrjú lög og hefur fengið milljónir spilana og listamaðurinn Hugleiðsla hefur notið mikilla vinsælda með lög sín Sofið vel, Friður og Dreymdi.
Þá eru ótaldir listamenn eins og Snorri Sturlu, Eyvindur (lög á borð við Vor, Æsku og Öldur) og Elvar Arngrímsson sem á fjögur lög. Stóri smellurinn hans er lagið Hugsanir sem hefur verið streymt 21 milljón sinnum.
Að síðustu ber svo að geta Petru „okkar“ Birgisdóttur. Hún er stórtæk. Lag hennar Mývatn er með fjórar milljónir spilana, lagið Akureyri með sjö milljónir og Súlur með 16 milljónir spilana. Geri aðrir betur.