Suðurnes Grindavík og Njarðvík eigast við í kvennaflokki.
Suðurnes Grindavík og Njarðvík eigast við í kvennaflokki. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bikarveislan heldur áfram í dag þegar úrslitaleikir bikarkeppni karla og kvenna í körfuknattleik fara fram í Smáranum í Kópavogi. Karla megin fer fram sannkallaður Reykjavíkur- og erkifjendaslagur þegar KR og Valur eigast við klukkan 16.30

Bikarúrslit

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Bikarveislan heldur áfram í dag þegar úrslitaleikir bikarkeppni karla og kvenna í körfuknattleik fara fram í Smáranum í Kópavogi. Karla megin fer fram sannkallaður Reykjavíkur- og erkifjendaslagur þegar KR og Valur eigast við klukkan 16.30. Kvenna megin fer svo fram Suðurnesjaslagur Njarðvíkur og Grindavíkur fyrr um daginn, klukkan 13.30.

KR, sem er nýliði í úrvalsdeild karla, tryggði sér sætið í úrslitaleiknum með fræknum 94:91-sigri á Stjörnunni á miðvikudag. Sigurinn þótti ansi óvæntur þar sem Stjarnan er í öðru sæti deildarinnar og KR í því áttunda.

Valur vann þá öruggan sigur á Keflavík, 91:67, og er fyrir fram sigurstranglegri aðilinn í úrslitaleik karla. Íslandsmeisturunum hefur nefnilega stöðugt vaxið ásmegin eftir afar erfiða byrjun á tímabilinu.

Valur vann báða leikina gegn KR í deildinni á tímabilinu og eiga Vesturbæingar því harma að hefna. Ekki það að leikmenn liðanna þurfi einhverja aukalega hvatningu. Að spila gegn erkifjendunum, hvað þá í úrslitaleik, blæs þeim sjálfkrafa byr í brjóst.

Skilur Valsvörnin á milli?

Oft er talað um að varnir vinni titla. Fáir ef einhverjir standa Valsmönnum á sporði í varnarleik. Þorvaldur Orri Árnason var með 100 prósent skotnýtningu hjá KR er hann skoraði 22 stig gegn Stjörnunni í undanúrslitum og Lettinn Linards Jaunzems lætur til sín taka í grennd við körfuna. Mest mun þó eflaust mæða á Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni, sem er með flestar stoðsendingar að meðaltali í leik í deildinni, níu, við að reyna að finna glufur á varnarmúr Vals.

Taiwo Badmus er stigahæstur allra í deildinni á tímabilinu með 24 stig að meðaltali í leik. Jafnvel þótt svo ólíklega vilji til að hann nái sér ekki á strik býr Valur að mikilli breidd þar sem Kristinn Pálsson, Joshua Jefferson, Kristófer Acox og Kári Jónsson eru allir líklegir til þess að láta að sér kveða.

Koma böndum á Dinkins

Í Suðurnesjaslagnum kvenna megin er Njarðvík töluvert sigurstranglegri aðilinn, ekki síst þegar litið er til stöðu liðanna í úrvalsdeildinni. Þar er Njarðvík í öðru sæti með 16 sigra og Grindavík í því næstneðsta með sjö sigra.

Njarðvík vann nauman sigur á Hamri/Þór, 84:81, í undanúrslitum á meðan Grindavík vann óvænt glæsilegan sigur á Þór frá Akureyri, 92:80. Leikir vinnast nefnilega ekki á pappírum. Leikir liðanna í deildinni á tímabilinu voru þá fremur jafnir þótt Njarðvík hafi unnið þá báða, með sex stigum í báðum tilvikum.

Hamar/Þór er á svipuðum slóðum og Grindavík í deildinni og frammistaða beggja liða í undanúrslitum ætti að segja Grindvíkingum að ekkert sé að óttast þótt líklegt sé að við ramman reip verði að draga.

Brittany Dinkins hjá Njarðvík hefur verið á meðal bestu leikmanna tímabilsins enda með 29 stig að meðaltali í leik. Ljóst er að Grindavík verður að finna leiðir til að stöðva Dinkins, sem er gjörn á að taka Njarðvíkurliðið á herðar sér þegar þess er þörf. 35 stig í undanúrslitaleiknum bera því vitni.

Eins og Benedikt Guðmundsson sagði við Morgunblaðið á þriðjudag er hann rýndi í undanúrslitin þarf Grindavík að reiða sig áfram á íslenska kjarnann sinn. Hulda Björk Ólafsdóttir, Ísabella Ósk Sigurðardóttir og Ólöf Rún Óladóttir stigu allar upp þegar með þurfti og hrifu þá aðra leikmenn með sér. Ena Viso, sem var látin fara frá Njarðvík í janúar, er þá eflaust í hefndarhug.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson