„Ég held að það gæti gerst,“ svaraði Brian May, gítarleikari Queen, spurður að því í tímaritinu Mojo á dögunum hvort hin ólseiga og goðsagnakennda breska rokksveit ætti eftir að senda frá sér nýtt efni. „Við Roger [Taylor trommuleikari] erum alltaf að semja, fá hugmyndir og sýsla í hljóðverum okkar. Ég gæti þess vegna verið með drög að Queen-lagi hér fyrir framan mig núna. Spurningin er bara hvort hugmyndin nær að þroskast. Hvort fræið nær að blómstra.“
Taylor talaði með sama hætti í viðtali í tímaritinu Uncut nýlega. „Við Brian vorum að spjalla saman um daginn og erum sammála um að við séum komnir með eitthvað af fínu efni. Af hverju ekki? Við getum enn spilað, enn sungið. Þannig að ég sé engin ljón á veginum.“
Brian May er 77 ára og Roger Taylor 75. Menn á besta aldri.