Úr bæjarlífinu
Birna G. Konráðsdóttir
Borgarfirði
Leikdeild Umf. Stafholtstungna sýnir um þessar myndir fjölskylduleikritið Hans klaufa eftir leikhópinn Lottu. Sýningar eru í félagsheimilinu Þinghamri á Varmalandi og eru fyrirhugaðar alla vega út mars. Leikritið er fyrir alla fjölskylduna og tekur rúmlega klukkustund í sýningu.
Leikhópurinn Lotta notfærir sér í þessari útfærslu nokkur fleiri þekkt ævintýri, eins og Öskubusku og prinsessuna og froskinn. Úr verður glæný saga sem hentar bæði börnum og fullorðnum. Eins og vanalega, þegar um áhugamannaleikhús er að ræða, sinnir fólk leiklistargyðjunni í frítíma sínum. Hér hefur einstaklega vel tekist til og óhætt að mæla með sýningunni fyrir alla aldurshópa. Leikstjóri er Gunnar Gunnsteinsson og miða má nálgast á tix.is.
Krabbameinsfélag Borgarfjarðar hefur hvatt til skemmtilegra gönguferða nú í mars sem kallaðar eru Bláar göngur. Þær eru að sjálfsögðu hugsaðar til heilsubótar en ekki síst að minna á nauðsyn þess að karlmenn hugi að skimun fyrir krabbameini. Fólk er einnig hvatt til að fanga tímann á meðan gengið er með jákvæðu hugarfari. Meðal annars má nýta tímann til að senda hlýjar hugsanir til þeirra sem hafa greinst eða eru að glíma við krabbamein á meðan fólk röltir eina bláa göngu, því flestir þekkja einhvern sem hefur fengið þennan óboðna gest í heimsókn.
Félagið hefur merkt inn þrjár 500 metra gönguleiðir til að minna á málefnið. Merkingarnar standa út marsmánuð og eru á Seleyri við Borgarfjarðarbrú, í Reykholti í Snorragarði og á Hvanneyri við Skemmuna.
Eins og flestir vita er mottumars tileinkaður körlunum okkar allra, bræðrum, sonum, feðrum og öfum. Félagsmenn segja það tilvalið að skreppa og ganga bláa mottugöngu, eftir getu og löngun, hlusta á náttúruna og hugleiða lífið og tilveruna um leið. Formaður félagsins er Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir.
Landbúnaðarsafn Íslands var með fyrsta viðburð ársins í Skemmunni á Hvanneyri 12. mars sl. Bjarni Guðmundsson prófessor emeritus reið á vaðið með frásögnum af mölun á korni og minjum tengdum því. Hann fjallaði meðal annars um mölun á matkorni fyrr á tíð og hvernig það varð í raun liður í endurreisnartilraunum þjóðarinnar á átjándu öld. Jafnframt hvernig mölun varð fyrsti vísir að vatnsaflsvirkjunum hérlendis. Og greindi einnig frá aðkomu borgfirskra hagleiksmanna í tækniþróun mölunar í aðdraganda nútímans.
Til gamans má geta þess að á Hvanneyri er hóll sem heitir Mylluhóll og gegndi hlutverki í þessari þróun. Þegar G.S. MacKensie, skoskur náttúrufræðingur, kom að Hvanneyri sumarið 1810 sá hann vindmyllu á staðnum sem nýtt var til mölunar korns. Hann taldi mylluna vera þá einu sem til væri í landinu. Talið er líklegt að nafnið sé frá þeim tíma, án þess að önnur vissa sé fyrir því.
Í Safnahúsi Borgarfjarðar hefur verið mikið líf og fjör það sem af er ári. Fyrir síðasta öskudag var skiptimarkaður á búningum. Hægt var að koma með búninga sem þráðu nýja eigendur og finna aðra í staðinn.
Svakalega sögusmiðjuan var haldin á safninu laugardaginn 8. mars sl. og hún var ekki fyrir fullorðna heldur börn á aldrinum 9-12 ára sem langaði að búa til spennandi sögur. Leiðbeinendur smiðjunnar voru þær Blær og Eva Rún og var mikið fjör.
Sýningin Ferming var opnuð í safnahúsinu í gær, 21. mars. Hún er unnin í samvinnu við Borgarneskirkju. Þar eru munir, myndir og fleira tengt fermingum til sýnis ásamt viðtölum við fólk sem lýsir sinni fermingu.
Sögufélag Borgarfjarðar verður með aðalfund sinn 27. mars nk. Félagið er merkilegt fyrir margar sakir og kannski einstakt á landsvísu. Það var stofnað árið 1963 og tilgangur þess á þeim tíma var m.a. að stuðla að skrásetningu og útgáfu æviskráa allra karla og kvenna sem hafa átt heima í Borgarfjarðarhéraði. Trútt tilgangi sínum gaf félagið út Borgfirskar æviskrár í 13 bindum. Það gaf jafnframt út íbúatal reglulega fram til ársins 2012. Það ár kom út íbúatal fyrir árið 2011 og var útgáfu þar með hætt. Persónuverndarlög gerðu slíka útgáfu orðið erfiða.
Félagið hefur gefið út Borgfirðingabók frá árinu 1981 en á árunum 1981-1985 komu út fjórir árgangar Borgfirðingabókar í þremur bókum. Síðan varð hlé til ársins 2004 en útgáfa hefur verið samfelld síðan.
Í samræmi við hið nýja hlutverk félagsins var samþykktum þess einnig breytt á aðalfundi í mars 2023. Þar stendur nú: „Tilgangur félagsins er að efla þekkingu á mannlífi og sögu svæðisins og stuðla að varðveislu þeirra þátta.“
Mörgum er hlýtt til félagsins og þykir ánægjulegt að það hafi ekki lognast út af heldur náð að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í samfélaginu og þar með sjá til þess að enn sé tilgangur fyrir starfsemi þess, sem ekki er sjálfgefið.