Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
Hann er ritari og fer með flokksstarfið. Hún er varaformaður. Þetta er fólkið um borð í Kútter Framsókn sem berst nú í brimgarðinum og þarf að ná krafti í seglin því hann er sá flokkur sem á kannski flesta sveitarstjórnarmenn á Íslandi.“…

Hann er ritari og fer með flokksstarfið. Hún er varaformaður. Þetta er fólkið um borð í Kútter Framsókn sem berst nú í brimgarðinum og þarf að ná krafti í seglin því hann er sá flokkur sem á kannski flesta sveitarstjórnarmenn á Íslandi.“

Þessum orðum fer Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, um þau Ásmund Einar Daðason og Lilju Dögg Alfreðsdóttur sem bæði féllu af þingi í alþingiskosningum 30. nóvember síðastliðinn.

Framsóknarflokkurinn heldur miðstjórnarfund á Hótel KEA nú um helgina og kom Guðni við í Spursmálum á leið sinni norður þar sem hann hyggst blása flokksfélögum sínum baráttuanda í brjóst.

Segir Guðni að Framsóknarflokkurinn, sem er allra flokka elstur á Íslandi, 109 ára, standi frammi fyrir stórum spurningum. Ögurstund sé runnin upp í lífi hans. Ekki sé sjálfgefið að hann nái vopnum sínum að nýju.

Segir hann að einn helsti vandinn sé sá að fólk skynji ekki stefnu hans. Mjög sé þröngt á þingi á miðju stjórnmálanna þar sem flestir flokkar hafa komið sér fyrir, af þeim sem á annað borð náðu inn á þing í síðustu kosningum.

Guðni vill stofna til endurreisnarnefndar sem fari ofan í saumana á því sem farið hafi úrskeiðis síðustu ár en komi um leið með tillögur að því hvernig megi sækja fram á nýjan leik.

Leiðtogarnir stráféllu

Í viðtalinu segir Guðni að Sigurður Ingi hafi ekki haft annan kost en að taka slaginn fyrir flokk sinn áfram eftir að forystufólk hans hafi stráfallið í nýliðnum kosningum. Engum öðrum hafi í raun verið til að dreifa til þess að taka það starf áfram. Hins vegar sé óvíst með að Sigurður Ingi hafi í hyggju að leiða flokkinn í næstu þingkosningum að fjórum árum liðnum.

Kveikjan að viðtalinu í Spursmálum var grein sem Guðni ritaði í Morgunblaðið 13. mars síðastliðinn þar sem hann vakti athygli á bágri stöðu flokksins og þeirri staðreynd að formaðurinn núverandi hafi lítið gert frá kosningum til þess að koma hlutum í betri farveg. Segist Guðni hafa fengið mikil viðbrögð við greininni. Fjölmargir hafi haft samband, margir undir jákvæðum formerkjum en aðrir verið hissa og spurt á hvaða vegferð hinn gamli formaður sé í raun.