Óvenjuleg tíðindi berast af stjórnmálasviðinu víðar en hér á landi. Sums staðar eru þau sem betur fer uppbyggilegri er hér og má nefna Þýskaland í því sambandi, en þar eru að verða stjórnarskipti þar sem Kristilegir demókratar, sigurvegarar nýafstaðinna kosninga, eru taldir munu taka við stjórnarforystu, en Sósíaldemókratar, núverandi forystuafl í ríkisstjórn, eru taldir verða meðstjórnendur.
Það óvenjulega í Þýskalandi er að í vikunni kláraði þýski löggjafinn, bæði hefðbundna þingið, Bundestag, og þing landanna sextán, Bundesrat, breytingu á stjórnarskránni, en þó ekki nýkjörna þingið heldur það gamla. Þingið sem í raun hefur runnið sitt skeið var látið starfa áfram, og mun sitja þar til hið nýja tekur við í næstu viku, og var látið afgreiða stjórnarskrárbreytingu sem felur í sér afnám skuldsetningarþaks ríkisins í þágu hervæðingar og endurnýjunar innviða.
Þetta hefur ekki gerst áður en sýnir að Þjóðverjar, eða í það minnsta ráðandi stjórnmálaöfl Þýskalands, töldu að nú væri svo komið að uppbygging hersins þyldi enga bið. Um þetta voru verðandi stjórnarflokkar sammála og enn fremur Græningjar, sem væntanlega eru á leið úr ríkisstjórn.
Skuldsetning ríkisins hefur verið eitur í beinum þýskra stjórnmálamanna, sem von er, og í þeim efnum hefur Þýskaland gengið töluvert lengra en önnur ríki evrunnar. En neyð brýtur lög, ef svo má segja, og forystumönnum þýskra stjórnmála er loks orðið ljóst, rúmum þremur árum eftir innrás Rússlands í Úkraínu, að lengur verði ekki beðið eftir uppbyggingu þýska hersins.
Ekki skal gert lítið úr því hve þýðingarmikið það er að Þjóðverjar hafi loks risið á fætur eftir langan og væran blund á þessu sviði. En framhjá því verður þó ekki litið að sú uppbygging sem Friedrich Merz kanslaraefni og aðrir forystumenn stjórnmálanna tala nú um mun taka tíma og reyna mjög á. Innspýtingin er af þeirri stærðargráðu að ætla má að hún geti haft áhrif á hagvöxt, fjármálamarkaði og verðbólgu og á þann hátt er ekki útilokað að áhrifanna muni gæta að einhverju leyti hér á landi einnig.
Áhrifin verða þó vonandi fyrst og fremst skýr skilaboð austur til Moskvu og inn fyrir Kremlarmúra um að ekki megi lengur treysta á að ríki Evrópu séu gagnslaus í vörnum álfunnar. Berist þau skilaboð alla leið má segja að Merz og félagar fái nokkuð fyrir þessa miklu og óvenjulegu fyrirhuguðu skuldsetningu.