Meistarar Eyjanna Hallgrímur Steinsson, stjórnarmaður í TV, afhendir Sigurjóni Þorkelssyni sigurlaunin að loknu Skákþinginu 2025.
Meistarar Eyjanna Hallgrímur Steinsson, stjórnarmaður í TV, afhendir Sigurjóni Þorkelssyni sigurlaunin að loknu Skákþinginu 2025. — Ljósmynd/Sæmundur Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hver skyldi hafa unnið flest skákþing hér innanlands allt frá þeim tíma er kappskákin varð alvörukeppnisgrein í byrjun 20. aldar? Telja má öruggt að Eyjamaðurinn Sigurjón Þorkelsson eigi það sérstaka met en á dögunum bar hann sigur úr býtum á…

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Hver skyldi hafa unnið flest skákþing hér innanlands allt frá þeim tíma er kappskákin varð alvörukeppnisgrein í byrjun 20. aldar? Telja má öruggt að Eyjamaðurinn Sigurjón Þorkelsson eigi það sérstaka met en á dögunum bar hann sigur úr býtum á Skákþingi Vestmannaeyja í sautjánda skipti.

Sigurjón hlaut 8½ vinning af 9 mögulegum og varð ½ vinningi fyrir ofan næsta mann, hinn 17 ára gamla Sæþór Inga Sæmundarson. Sigurjón hefur teflt fyrir TV á Íslandsmótum skákfélaga, tekið þátt í Reykjavíkurskákmótinu og ýmsum erlendum keppnum. Hefur reynst harður í horn að taka í keppni við bestu skákmenn þjóðarinnar. Það fékk Íslandsmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson að reyna á goslokamótinu 2023 en þar marði hann jafntefli gegn Sigurjóni eftir mikla baráttu.

Á Skákþingi Akureyrar sem lauk í febrúar varði Markús Orri Óskarsson titil sinn frá því í fyrra, hlaut 6 vinninga af 7 mögulegum en næstir komu Tobias Matharel og Stefán G. Jónsson báðir með 4½ vinning. Hinn 15 ára gamli Markús Orri er tvímælalaust eitt mesta efni sem komið hefur fram í skákinni nyrðra.

Björn Þorfinnsson sigraði á afmælismóti Goðans

Björn Þorfinnsson og enski stórmeistarinn Simon Williams urðu jafnir og efstir á 20 ára afmælismóti Goðans sem lauk um síðustu helgi í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þeir hlutu báðir 5 vinninga af 6 mögulegum. Eftir stigaútreikning hafði Björn betur og telst því sigurvegari afmælismótsins. Í lokaumferðinni þurfti hann að verjast hörðum atlögum síns elskulega bróður Braga en náði jafntefli. Í 3.-4. sæti komu Bragi Þorfinnsson og Dagur Ragnarsson með 4½ vinning. Þátttakendur voru 36 talsins.

Það ríkti góð stemning á afmælismótinu og margar skemmtilegar skákir tefldar. Eina viðureign úr lokaumferðinni er vart hægt að kalla annað en tragikómedíu á skákborði. Gauti Páll Jónsson missti þráðinn eftir glæsilega taflmennsku gegn Degi Ragnarssyni og fórnaði yfir sig:

20 ára afmælismót Goðans, 6. umferð:

Gauti Páll Jónsson – Dagur Ragnarsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 e6 4. 0-0 a6 5. d4 cxd4 6. Rxd4 Dc7 7. Rxc6 bxc6 8. De2 Bd6?!

Dagur er tiltölulega fljótur að rata í alls kyns vandræði. Hér er öruggast að leika 8. … Re7 ásamt – Rg6.

9. f4 Bc5+ 10. Kh1 Bb7 11. Rc3 d6 12. f5! e5 13. f6! gxf6

13. … Rxf6 má svara með 14. Bh6! Hg8 15. Bxg7 Hxg7 16. Hxf6 ásamt – Haf1 o.s.frv.

14. Dg4 Re7

15. Bxf7+!

Þessi fórn stenst en er þó sennilega óþörf en hér er Gauta Páli rétt lýst. Eftir 15. Hxf6 d5 16. Bd3 er svarta staðan gjörsamlega óteflandi.

15. … Kxf7 16. Bg5 Ke8 17. Hxf6 d5 18. Haf1 h5 19. De6 Bc8 20. Df7+ Kd8 21. Ra4 Bd6

22. Hxd6+??

Hvítur átti fjölmarga leiki sem leiða til vinnings – en þessi er ekki einn þeirra. Eftir 22. Rb6! hefði Dagur getað gefist upp. Hótunin er m.a. 23. Df8+! og mátar.

22. … Dxd6 23. Hf6 Db4 24. Rc5?

Enn ein fórnin sem byggist á hugmyndinni 24. … Dxc5 25. Hxc6.

24. … Hh7!

Dagur lumaði á þessum snjalla varnarleik og snýr taflinu við.

25. Df8+ Kc7 26. Rd3 Dxe4 27. Hf7 Hxf7 28. Dxf7 Bd7 29. Dxe7 He8 30. Dc5 Dd4 31. Da5+ Db6 32. Dc3 d4 33. De1 Db5 34. a4 Dxa4 35. Rxe5 Kc8 36. h4 Dxc2 37. Da5 De2 38. Rf3 Bh3

- og hvítur gafst upp.