Ása Karen Jónsdóttir sýnir verk á sýningunni Á milli hins kunnuglega í Gallerí Kontór á Hverfisgötu.
„Þetta eru að stærstum hluta verk á pappír, gerð með vatnslitum, olíu og þurrpastellitum. Svo er eitt strigaverk sem fékk að vera með, en ég geri slík verk sjaldnar. Þótt ég sé venjulega mjög þolinmóð þá brýst óþolinmæði út þegar ég vinn. Þá finnst mér ég þurfa að koma hugmyndum strax frá mér og þá er gott að vinna á pappír,“ segir Ása Karen.
„Forsaga verkanna er sú að ég var að hlusta á hlaðvarp um ADHD og samfélagsmiðla og þar kom fram að áreitið væri orðið svo mikið að við værum hætt að sjá það sem væri í kringum okkur. Þetta varð kveikjan að verkunum. Ég er að velta fyrir mér samfélagsmiðlum og áhrifum þeirra á okkur. Við erum stöðugt í símanum og þar af leiðandi oft að missa af einhverju í hinu daglega lífi sem ætti að skipta okkur meira máli.
Ég held að verkin endurspegli áhuga minn á tímanum, mannlegri hegðun og sálarlífi fólks.
Ég velti litum mikið fyrir mér og þarna breytti ég aðeins út af fyrri litanotkun, leyfði til dæmis fjólubláum lit að læðast inn í verkin, en það er litur sem ég myndi venjulega ekki nota.“
Ása Karen segir verkin vera opin til túlkunar. „Ég vil frekar vekja spurningar en segja áhorfendum hvernig þeir eigi að túlka verkin. Bandaríski listamaðurinn Robert Irwin er einn af mínum uppáhaldslistamönnum. Ég var að horfa á mynd um hann sem heitir A Desert of Pure Feeling. Í lok myndarinnar var fólk að ræða á milli sín hvernig það skynjaði verk hans og allir gerðu það á ólíkan hátt. Hann sagði: Einmitt svona er listin. Ég tengi mikið við þau orð hans. Ég er ekki hér til að segja áhorfendum hvað þeim eigi að finnast heldur er ég að opna fyrir túlkun.“
Ása Karen fæddist árið 1990 og flutti fjórtán ára gömul til í London. Hún lauk BA-prófi í textílhönnun frá London College of Fashion 2013 og MA-prófi í myndlist frá Royal College of Art árið 2022.
„Þegar ég var að læra textílhönnun var ég endalaust að teikna í skissubækur og pæla í litum. Kennararnir sögðu mér að teikningarnar væru meira í ætt við myndlist en hönnun. Þegar ég var lítil var ég alltaf að mála og í skólanum áttaði ég mig á, síðust allra, að ég ætti heima í myndlistinni.
Í Royal College of Art er mikið lagt upp úr gagnrýnni hugsun og námið var mjög sjálfstætt. Þarna var ekki mikið verið að að stýra mér.“
Ása Karen hefur á ferlinum unnið með textíl, ljósmyndir, vídeó og innsetningar en í seinni tíð hefur málverkið verið mest áberandi. Fyrir tveimur árum flutti hún til Íslands. „Þegar ég flutti aftur heim þá var ég búin að búa lengur í Bretlandi en á Íslandi. Ég er ekki Breti en samt að sumu leyti útlendingur á Íslandi. Ég hef mikið pælt í því hlutskipti að vera á milli og það sést örugglega eitthvað í verkunum.
Ég veit ekki hvort ég er alkomin til Íslands. Ég er alltaf eins og á milli landa. Mér finnst mjög gott að vera á Íslandi og á sumrin ferðast ég mikið um landið en hjarta mitt er líka í London.“