Landnám Pétur Thomsen segir verðlaunin mikilvæga viðurkenningu fyrir margra ára ferli þróunar og sköpunar.
Landnám Pétur Thomsen segir verðlaunin mikilvæga viðurkenningu fyrir margra ára ferli þróunar og sköpunar. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Já, þetta kom á óvart. Ég átti ekki von á að vinna,“ segir Pétur Thomsen ljósmyndari og myndlistarmaður en hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin í flokknum myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg

Viðtal

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

„Já, þetta kom á óvart. Ég átti ekki von á að vinna,“ segir Pétur Thomsen ljósmyndari og myndlistarmaður en hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin í flokknum myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg. Verðlaunin voru afhent í áttunda sinn í Iðnó á fimmtudag en í dómnefnd voru Ásdís Spanó, Guðrún Erla Geirsdóttir, Ingólfur Arnarsson, Margrét Áskelsdóttir og Sigþóra Óðins.

„Þetta er mikilvæg viðurkenning á því sem ég hef verið að vinna að undanfarin ár. Þessi sýning sem verðlaunað er fyrir var ákveðinn hápunktur á margra ára ferli í minni þróun og listsköpun og því sérstaklega skemmtilegt að henni sé veitt athygli,“ segir Pétur.

Stærsta verkefni samtímans

Athygli vekur að í ár er verðlaunað fyrir ljósmyndasýningu og í því ljósi má velta fyrir sér stöðu ljósmyndunar innan myndlistarinnar.

„Ég held að þetta sé ágætis viðurkenning fyrir það sem hefur verið í gangi síðustu ár í ljósmyndaheiminum á Íslandi. Það eru nokkuð margir myndlistarmenn sem vinna með ljósmyndun og eru alltaf að fá meiri og meiri viðurkenningu fyrir það innan myndlistarheimsins. Ég er ljósmyndari en kynni mig alltaf sem myndlistarmann því það er þannig sem ég vinn. Ég vinn ekki sem hefðbundinn ljósmyndari heldur er ég að vinna með ljósmyndamiðil í myndlistarumhverfi. Ísland er enn töluvert eftir á samanborið við nágrannalöndin varðandi viðurkenningu ljósmyndunar sem listmiðils og þessi verðlaun hljóta að vera ákveðin lyftistöng.“

Pétur segist ætla að halda áfram að beina sjónum að náttúrunni í list sinni. „Síðan ég útskrifaðist hef ég meira og minna unnið með tengsl mannsins við náttúruna og breytingar á henni. Þetta er eitt stærsta verkefni samtímans og það kallaði á mig að leggja mitt af mörkum,“ segir Pétur en þess má geta að rýnir Morgunblaðsins gaf sýningu Péturs, Landnám, fullt hús stiga.

Skeytingarleysi í umgengni

Í umsögn dómnefndar segir að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning og í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. „Sýningin Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur tekur fyrir sambýli manns og náttúru frá sjónarhóli ójafnvægis og áverka á jörðinni eftir umgang og framkvæmdir. Í verkunum má sjá rask á náttúrunni, líkt og sár eða rof í jarðvegi og merki um skeytingarleysi í umgengni mannfólks, sem listamaðurinn staldrar við og varpar ljósi á. Í aðalsal Hafnarborgar voru sýndar innrammaðar ljósmyndir án glers sem minntu á málverk á striga. Sumar voru í yfirstærð en einnig mátti finna verk sem voru samsett úr mörgum ljósmyndum og mynduðu eina heild. Framsetningin kallar á nærveru áhorfandans og íhugun með listamanninum um þann boðskap sem hann vill færa fram: áminningu um áhrif mannsins á umhverfi sitt sem hefur leitt af sér hlýnun jarðar og náttúruvá. Sýningin í heild orkar sem eins konar ákall, svo óhjákvæmilegt er að spegla áhrif eigin tilvistar og tilveru á lifandi heim.“

Aðrar viðurkenningar

Helena Margrét Jónsdóttir hlaut hvatningarverðlaunin og Erró hlaut heiðursviðurkenningu. Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir áhugaverðasta endurlitið hlaut Gerðarsafn fyrir sýninguna Hamskipti - Listsköpun Gerðar Helgadóttur í sýningarstjórn Cecilie Gaihede. Sýning Textílfélagsins 50/100/55 í Hlöðuloftinu, Korpúlfsstöðum fékk viðurkenningu fyrir samsýningu ársins en sýningarstjórn var í höndum Ægis Zita. Agnieszka Sosnowska og bók hennar FÖR fékk viðurkenningu fyrir útgefið efni.

Heiðursviðurkenning myndlistarráðs 2024

Erró heiðraður fyrir einstakt framlag til myndlistar

Erró, öðru nafni Guðmundur Guðmundsson, hlaut heiðursviðurkenningu myndlistarráðs fyrir höfundarverk sitt á ferli sem spannar rúmlega sex áratugi og er sagt einstakt í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að verk Errós séu þekkt fyrir myndauðgi og hann hafi einstakt auga fyrir samsetningum, en hafnar hugmyndinni um listamanninn sem snilling og frumskapanda. „Upprunaleg róttækni hans felst í viljanum til að taka myndlistina niður af stalli hálistarinnar með notkun á alþýðlegu myndmáli. Hann var ungur maður sinnar samtíðar og hefur haldið áfram að endurnýja sig allt til þessa dags. […] Málverk Errós afmá alla tilfinningu fyrir tíma og rúmi en eru á sama tíma spegill samtímans og sögunnar, ekki síst listasögunnar, þar sem verk fortíðarinnar eru dregin fram og sett í nýtt samhengi.“

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir