Staðfest Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms í líkamsárásarmáli.
Staðfest Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms í líkamsárásarmáli. — Morgunblaðið/Eggert
Landsréttur staðfesti í gær fjögurra ára dóm yfir Snæþóri Helga Bjarnasyni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart fyrrverandi kærustu sinni er hann veittist að henni með kaldrifjuðum hætti í Kópavogsdal í ágúst 2023

Landsréttur staðfesti í gær fjögurra ára dóm yfir Snæþóri Helga Bjarnasyni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart fyrrverandi kærustu sinni er hann veittist að henni með kaldrifjuðum hætti í Kópavogsdal í ágúst 2023. Einnig var hann sakfelldur fyrir aðra sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart sömu konu í júní 2022.

Snæþór áfrýjaði dómi héraðsdóms en neitaði sök í ofbeldisliðum ákærunnar og sagðist meðal annars ekki hafa verið á staðnum er árásin í Kópavogsdal var gerð. Saksóknari hafði farið fram á að Snæþór yrði sakfelldur fyrir tilraun til manndráps í þeirri árás, en hann hafði ítrekað sparkað í kærustu sína og þá sérstaklega í höfuðið, reynt að kyrkja konuna og haldið henni með kyrkingartaki þar sem hún var með höfuðið undir vatni í nærliggjandi læk.

Athygli vakti í fyrra þegar Snæþór var látinn laus úr haldi þrátt fyrir að hafa hlotið fjögurra ára dóm í héraði, þar sem hann hafði áfrýjað dóminum til Landsréttar. Vísað var til þess að til að geta hneppt menn í varðhald til lengri tíma þyrfti að liggja fyrir brot sem meira en 10 ára fangelsi gæti legið við. Það ætti ekki við í þessu máli, þar sem hann hefði aðeins verið sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás en ekki tilraun til manndráps.

Staðfestir Landsréttur því dóm héraðsdóms og hlaut Snæþór fjögurra ára dóm, auk þess að vera gert að greiða konunni 2,5 milljónir og tæplega 8 milljónir í sakarkostnað fyrir báðum dómsstigum.