Hellulagt Starfið er margt og kjaramálin eru ævinlega í sviðsljósinu.
Hellulagt Starfið er margt og kjaramálin eru ævinlega í sviðsljósinu. — Morgunblaið/Eyþór
Kauptaxtar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hækka um 0,58% frá 1. apríl næstkomandi. Ástæða hækkunarinnar er sú að kauptaxtaauki, sem samið var um í kjarasamningunum, verður virkjaður þá. Það er gert vegna þess að launavísitala á almennum…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Kauptaxtar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hækka um 0,58% frá 1. apríl næstkomandi. Ástæða hækkunarinnar er sú að kauptaxtaauki, sem samið var um í kjarasamningunum, verður virkjaður þá. Það er gert vegna þess að launavísitala á almennum markaði hefur hækkað umfram umsamdar taxtahækkanir í kjarasamningnum. Að þessu er vikið í tilkynningu frá Eflingu – stéttarfélagi.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir fyrir um ári. Í þeim er ákvæði þess efnis að nefnd, skipuð fulltrúum ASÍ og SA, úrskurði í mars ár hvert um sérstakan kauptaxtaauka. Forsendurnar þar eru þær að sýni vísitala að laun hafi hækkað umfram hækkun lægstu kauptaxta skuli verkafólki bætt það upp. Nú hafi slíkt gerst og því sé fyrrnefnt ákvæði virkað. Allir lágmarkstaxtar samninga sem nú eru gildir hækka því um rúmlega hálft prósentustig.

Meginmarkmið stöðugleikasamninganna sem undirritaðir voru í fyrra var að ná niður verðbólgu og að vextir yrðu lækkaðir. Hvort tveggja hefur raungerst á sama tíma og kaupmáttur launa hefur aukist. Forsendur eru fyrir framhaldi þar á, þótt blikur séu á lofti á alþjóðavettvangi. Forsendunefndin hvetur stjórnvöld, Seðlabankann og fyrirtæki til að vinna áfram að markmiðum samninganna en einnig er brýnt að ríki og sveitarfélög gæti hófs í hækkunum gjalda og stuðli að uppbyggingu íbúða, segir Efling.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson