Á sólríkum sumardegi 1992 stíflaðist miðborg Reykjavíkur óvænt og hvorki lögregla, sjúkrabílar né slökkvilið komust milli bæjarhluta, því að áhrifa gætti frá flugvellinum í suðri að Kleppsvegi í norðri. Talið var að á bilinu 40 til 60 þúsund manns hefðu lagt leið sína niður á höfn.
Hvað var eiginlega á seyði? Voru Strákarnir okkar að koma heim með gullið eða skáld með Nóbelinn? Höfðum við jafnvel unnið Júróvisjón? Nei, Jón Axel Ólafsson og Gunnlaugur Helgason, umsjónarmenn útvarpsþáttarins Tveir með öllu á Bylgjunni, voru á leið saman í teygjustökk sem þá var nýtt af nálinni á Íslandi.
„Einhvern veginn kom sú hugmynd upp að fara í stökkið og senda beint frá því í leiðinni, það er að segja að við færum tveir, fastir saman. Kýlt var á það og málið undirbúið, dagur valinn og allt sett á fullt að kynna,“ rifjar Jón Axel upp.
Þeir Gulli voru bundnir saman ásamt hljóðnemum og sendibúnaði og hent fram af brúninni yfir sjó, þar sem varðskipin alla jafna lágu við bryggju. „Til hægri horfðum við á hafnarbakkann fullan af fólki og til vinstri beið Akraborgin eftir að leggja að enda vorum við í plássinu hennar,“ segir Gulli.
Stökkið gekk vel, þeir félagar sneru aftur með alla limi heila og viðstöddum var vel skemmt, alltént flestum. „Eftir stökkið fengum við þau skilaboð að lögreglan vildi ná tali af okkur,“ segir Jón Axel, eilítið skömmustulegur. „Engum hafði dottið í hug að láta lögregluna vita og hún var ekki hress.“
Það var með teygjustökkið eins og annað; fengju aðstandendur þáttarins Tveir með öllu góða hugmynd var henni bara hrint í framkvæmd. „Það mætti vera meiri svona metnaður í útvarpi í dag, það er til að gera öðruvísi hluti og skemmtilega,“ segir Jón Axel. „Með þessum þætti var brotið blað í íslensku útvarpi og menn sáu að hægt væri í senn að skemmta fólki, hreyfa við því og virkja það. Tveir með öllu var svona Hemmi Gunn útvarpsins.“
Kynntust níu ára gamlir
Jón Axel og Gulli kynntust þegar sá síðarnefndi flutti níu ára gamall úr Laugarnesinu í Fossvoginn sumarið 1972. Um haustið lentu þeir svo saman í bekk í Fossvogsskóla. „Ég var í Sævarlandinu en Jón í Snælandinu og við fórum snemma að leika okkur saman, ásamt fleiri strákum, og urðum vinir, þó ekki fyrr en ég var búinn að fótbrjóta hann,“ segir Gulli sposkur en rekur þá sögu ekki frekar. „Við innsigluðum síðan þann vinskap þegar við kveiktum í hverfinu.“
– Ha?
„Það var sem sagt sinubruni í Mörkinni sem breiddi hratt úr sér, það skíðlogaði í Fossvoginum – enda á milli!“
Báðir soguðust þeir ungir inn í skemmtanabransann; Gulli varð rótari hjá Pétri W. Kristjánssyni, Eiríki Haukssyni og félögum í Start og Jón Axel plötusnúður í Klúbbnum, Hollywood, Sigtúni og fleiri stöðum. Þeir voru bara 16 ára og ekki gjaldgengir á veitingastaðina en Gulli dó þó ekki ráðalaus. „Ég var alltaf að fara með plötur til Jóns og komst þannig inn og var svo bara um kyrrt. Lengi fram eftir.“
Útvarpsferill Jóns Axels hófst á Rás 1, þar sem hann tók ásamt Pétri Steini Jónssyni við þættinum Popphólfið, sem fylgdi á eftir Syrpunum með Þorgeiri Ástvaldssyni og Páli Þorsteinssyni. Þegar Rás 2 hóf útsendingar síðla árs 1983 færði hann sig þangað yfir. Gulli slóst í hópinn ári síðar.
„Ég hafði tekið sveinspróf í húsasmíði 1981 en þótti kúl að vera í útvarpi og sótti um á Rás 2. Ég kom reglulega með sendingar í Efstaleitið og notaði þá tækifærið til að heilsa upp á Þorgeir Ástvaldsson, sem var forstöðumaður rásarinnar, og spurði hvort eitthvað væri að frétta af umsókninni minni. Nei, svaraði Þorgeir lengi vel, en á endanum gafst hann upp og réð mig,“ segir Gulli.
Þegar Bylgjan hóf göngu sína sumarið 1986 varð Páll Þorsteinsson dagskrárstjóri og Jón Axel fór yfir á fyrsta degi. Gulli fór svo utan til Bandaríkjanna sem lærlingur á hinum ýmsu útvarpsstöðvum snemma árs 1987, kynnti sér vinnubrögðin og drakk í sig stemmninguna. Þar kynntist hann hollensku fyrirtæki sem framleiddi útvarpsstef með amerískum áhrifum sungin af Hollendingum. Seinna áttu þeir eftir að syngja stefin fyrir næstu útvarpsstöð sem þeir Jón Axel unnu á, Stjörnunni – á íslensku. Nutu við það verk fulltingis Jóhanns Helgasonar.
Stjarnan er sennilega sú útvarpsstöð sem hefur notið hvað mestrar hylli en átti snemma undir högg að sækja frá Bylgjunni og samkeppnin var hörð. Þegar líða fór að lokum kom „við höfðum engu að tapa-tímabilið“ í lífi þeirra stráka. „Hvað sagði Óli kokkur Reynis?“ spyr Gulli og svarar sjálfur. „Ljósapera skín alltaf skærast rétt áður en hún springur!“
Það slökknaði á Stjörnunni í ágúst 1989 og þá voru Jón Axel og Gulli, að eigin sögn, stimplaðir „sprungnir vindlar og útbrunnir útvarpsmenn“. Langt fyrir þrítugt.
Oftast mættir
Gulli fór út sem umboðsmaður Siggu Beinteins og Grétars Örvars í Júróvisjón vorið 1990 og þegar hann sneri aftur var hann ráðinn til starfa á nýrri útvarpsstöð, FM957, sem þá var í eigu Hreiðars og Erlu í Smiðjukaffi. Og hver ætli hafi staðið að þeirri ráðningu? Jú, Jón Axel. „Ég hafði ráðið mig í ráðgjöf fyrir FM og liður í því var að fá Gulla inn. Við byrjuðum saman með morgunþátt milli klukkan 7 og 9 – sem var helvíti á jörð!“
– Nú?
„Við þurftum að vakna svo ofboðslega snemma, við vorum 26 ára gamlir og að vakna kl 6 á morgnana var bara erfitt á þessum aldri!“ segir Jón Axel og hrýs greinilega enn hugur við tilhugsuninni.
Slagorð þáttarins ku hafa verið: Oftast mættir áður en þátturinn byrjar!
„Ég veit ekki hver seldi okkur þessa hugmynd,“ dæsir Gulli.
Í einhverri endurskipulagningunni var ákveðið að færa þáttinn og hafa hann frekar milli 9 og 12, þeim félögum til mikils yndis. Þarna urðu Tveir með öllu til en mamma Gulla kom með nefnið í hálfkæringi í einhverri grillveislunni. „Þarna fær þátturinn nafn og útlit og í framhaldi af því kynningu. Ég kallaði myndina af okkur alltaf „rich man, poor man“, en Jón var alltaf svo flottur í tauinu en ég bara fátækur leikari,“ segir Gulli kíminn.
Jón Axel segir Sverri Hreiðarsson útvarpsstjóra FM hafa stutt vel við bakið á þeim og gert þeim möglegt að skapa vörumerkið Tveir með öllu.
Fyrirmyndin að þættinum var léttleikandi bandarískt útvarp, þar sem galsi og gleði var í fyrirrúmi. Jón Axel og Gulli voru bara þeir sjálfir en brugðu sér ekki í hlutverk eins og Radíusbræður og Tvíhöfði áttu síðar eftir að gera. „Við spiluðum þetta bara eftir eyranu og spruttum út úr skápnum með okkur sjálfa,“ segir Gulli og Jón Axel bætir við: „Við litum fyrst og fremst á okkur sem skemmtikrafta og ýttum allri alvöru til hliðar. Uppskriftin var bara gleði og skemmtileg músík.“
Vorið 1992 færðist Tveir með öllu yfir á Bylgjuna. Jón Axel var þá farinn að vinna fyrir Íslenska útvarpsfélagið, sem rak Bylgjuna, að ýmsum verkefnum sem snéru að útvarpi og sjónvarpi en Gulli hafði um veturinn verið í leiklistarnámi í Los Angeles og vantaði sumarvinnu. „Þess vegna byrjuðum við aftur,“ segir Jón Axel. „Við vorum samt ekki vissir um að þátturinn hentaði Bylgjunni þar sem hann var í hressari kantinum og okkur fannst hann vera heldur villtur fyrir settlega stöð. Steingrímur Ólafsson, fréttamaður og vinur okkar, sannfærði okkur hins vegar um að þetta myndi ganga.“
Valinn maður í hverju rúmi
Magnús E. Kristjánsson, markaðs- og sölustjóri, sá að hægt væri að vinna bæði Bylgjunni og Stöð 2 mikinn markaðslegan árangur með því að leggja allt í að gera þáttinn „stóran“ og vinsælan. Það má eiginlega segja að hann sé guðfaðir þáttarins því hann lét skapa umgjörð og ásýnd fyrir verkefnið auk þess að mikið var lagt í auglýsingar og samþættingu miðla Íslenska útvarpsfélagsins. Gerðar voru sjónvarpsauglýsingar, blaðaauglýsingar og samstarfssamningar við stórfyrirtæki, af stærðargráðu sem ekki hafði sést áður. Helstu kostendur voru Coca-Cola, SS, Nói Síríus og Póstur og sími. Greiddu þeir fyrir að tengjast þættinum áður óþekktar upphæðir.
Þá var ákveðið að þátturinn ætti að hafa útsendingarstjóra og var Bjarni Haukur Þórsson, stundum kenndur við Hellisbúann, ráðinn til að annast framleiðslu og útsendingarstjórn. Auk hans voru Helgi Rúnar Óskarsson, sem í dag er eigandi 66°Norður, og Björn Þórir Sigurðsson til aðstoðar í sérstökum tilfellum. Síðar tók Edduverðlaunahafinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Magnús Viðar Sigurðsson, nú forstjóri og framleiðandi hjá Reykjavík Studios, að sér að vera útsendingarstjóri og framleiðandi þáttarins. „Það voru engir tíkallar sem komu að þessari framleiðslu,“ segir Jón Axel.
Og þetta virkaði, mælingar sýndu strax að hlustun á þáttinn var mjög mikil. „Við fundum um leið að eitthvað lá í loftinu,“ segir Jón Axel.
Strax á fyrstu vikunum barst Tveim með öllu óvæntur liðsauki – Jóhannes á fóðurbílnum. „Hann hafði reglulega hringt inn í útvarp og beðið um óskalög en enginn fattað að setja hann í loftið,“ segir Gulli. Þeir gerðu það hins vegar og Jóhannes varð landsfrægur á einni nóttu fyrir hressleika og villtan og bráðsmitandi hlátur.
Með þeim innslögum var leikið lagið Jóhannes í kross sem margir héldu að samið hefði verið um fóðurbílstjórann. Svo var þó ekki. Lagið var sótt í smiðju Spaugstofunnar. Þeir segja Jóhannes snemma hafa farið að skipta þáttinn máli enda voru vinsældir hans miklar og ósviknar. Fóðurblandan lét merkja honum bílinn og þegar efnt var til kjörs á kynþokkafyllsta karli landsins bar Jóhannes sigur úr býtum. Að launum hlaut hann út að borða með kynþokkafyllstu konunni í hliðstæðu kjöri, Lindu Pétursdóttur. Tveir með öllu fylgdu að sjálfsögðu með.
Einn af föstu liðunum í Tveir með öllu var að hringja í vini og vandamenn og vekja þá. Þetta vakti lukku og þróaðist fljótt yfir í símahrekki. „Til að byrja með gerðum við þessa hrekki sjálfir en gátum ekki feikað það lengi eftir að við komum yfir á Bylgjuna; allir voru að hlusta,“ segir Gulli. „Þá reyndum við að gera þetta eftir hádegi og ekki í beinni en það gekk ekki nema í tíu daga áður en upp komst um okkur. Fólk þekkti raddirnar um leið.“
Þá benti Helgi Rúnar Óskarsson, sem vann við þáttinn, á vinkonu systur sinnar sem hann sagði að væri fædd hrekkjusvín. Carola Kohler Hængsdóttir hét hún og sló umsvifalaust í gegn. Var klæðskerasniðin í hlutverkið.
Þátturinn skipulagði hringferð um landið og setti upp skemmtanir. Mikið var unnið með Stjórninni þetta sumar og Sálinni hans Jóns míns. „Alls staðar varð uppselt á örfáum mínútum og hvert einasta sveitaball var troðið. Dansstaðir uppseldir, þannig að menn höfðu aldrei séð neitt slíkt,“ segir Jón Axel.
Mikið var sent út frá landsbyggðinni og stundum heilu vikurnar með tilheyrandi umstangi. Þátturinn setti upp hátíðir á stöðum sem sendakerfi Bylgjunnar náði ekki til, t.d. á Höfn í Hornafirði. „Þangað var flogið í fjögurra sæta vél eftir mikið skrall á Selfossi og við vorum með sendi með okkur. Settum hann upp og útvörpuðum heilan laugardag. Þá varð til hugmyndin að því sem síðar varð Humarhátíð á Höfn. Fleiri slíkar hátíðir urðu til í framhaldi af heimsóknum þáttarins,“ segir Jón Axel en þar sem þátturinn var með útsendingar úti um allt land var hann með þyrlu til afnota sem einfaldaði allt. „Við notuðum hana svolítið eins og leigubíl, löngu áður en bankastrákarnir urðu eitthvað kúl.“
Þátturinn hafði líka sérstakan bíl til umráða en mikill búnaður var nauðsynlegur þegar sent var út frá landsbyggðinni – stundum hálft tonn af dóti. Sent út frá mörgum skrítnum stöðum, t.d. Mýrdalsjökli. Sett upp loftnet á jöklinum og merki sent til Vestmannaeyja og þaðan til Reykjavíkur. Heilmikið mál.
Hafði mikil áhrif
Yfirferðin var mikil. Í eitt skipti voru Tveir með öllu að skemmta á Egilsstöðum og fóru ekki í koju fyrr en kl. 3 um nóttina. Kvöddu þá meðal annarra Magnús íþróttaálf Scheving. Þegar Magnús reis úr rekkju kl. 9 morguninn eftir kveikti hann á Bylgjunni og þar var Gulli Helga mættur að kynna hafnardaga í Hafnarfirði. Hafði þá flogið suður eldsnemma um morguninn. Magnús trúði ekki sínum eigin eyrum.
Þetta landshornaflakk þeirra tveggja varð upptakturinn að því sem síðar varð Bylgjulestin.
Vinsældir Tveir með öllu náðu hámarki föstudaginn fyrir verslunarmannahelgina 1992. „Eftir ellefufréttir komum við inn, spiluðum eitt lag, einn símahrekk og kvöddum. Allt hitt var auglýsingar,“ segir Gulli sem sjálfur hafði umsjón með takkaborðinu. „Það voru heilu stæðurnar af auglýsingaspólum og stundum gleymdi ég hvaða bunka ég var búinn að spila og hvaða ekki,“ bætir hann við hlæjandi og stendur upp og lyftir höndum til að gefa mér tilfinningu fyrir umfangi stæðnanna.
„Það er óhætt að segja að það sem kom okkur mest á óvart í þessu ævintýri öllu var hversu mikil áhrif þátturinn hafði,“ segir Jón Axel. „Við sáum það ekki fyrir. Hlustendahópurinn var líka alveg ótrúlega breiður, allt frá sex ára upp í áttrætt. Við fengum viðbrögð úr öllum áttum. Okkur leið satt best að segja eins og rokkstjörnum.“
Í dag yrðu slíkar vinsældir og meðbyr ugglaust nýtt enn betur, til dæmis með því að troðfylla Laugardalshöllina, líkt og IceGuys-flokkurinn gerði í fyrra.
Sitthvað var þó gert. Í fyrsta skipti var farið að selja varning sem merktur var útvarpsþætti. „Fljótur var til samstarfs vinur okkar Bjarni sem kenndur var við Bol í Kópavogi sem framleiddi og prentaði á auglýsingavörur. Hann kom af fullum krafti í verkefnið og lagði til alla boli, húfur og grillsvuntur frítt og var öll upphæðin sem kom af sölunni sett í sjóð,“ segir Jón Axel.
Sjóðurinn Blind börn á Íslandi var einnig stofnaður í samvinnu við Halldór Rafnar, formann Blindrafélagsins. Var sjóðnum skipuð stjórn og skipulagsskrá og honum sett ströng skilyrði hvað varðar rekstur og úthlutun styrkja. Sjóðurinn er ennþá starfandi. Jón Axel sat í stjórn fyrstu 10 árin svo tók Gulli við í rúmlega 10 ár og núna er dóttir Jóns Axels í stjórn hans ásamt fulltrúa Blindrafélagsins og fulltrúa foreldra blindra barna. Veitt er úr sjóðnum tvisvar ári og hefur hann vaxið og dafnað.
Þá skal nefna brandarabók Tveir með öllu. Bókin var prentuð í 200.000 eintökum (ekki prentvilla) og var eina prentverkið á Íslandi sem var stærra en Símaskráin á þessum tíma. Hún fékkst gefins í verslunum Eymundsson.
Ekki Sunnudagsmoggatækt
Eins gaman og þetta var útheimti Tveir með öllu gríðarlega vinnu; Jón Axel og Gulli voru alla jafna fyrstir inn á Bylgjuna á morgnana og seinastir heim á kvöldin, að ekki sé minnst á alla helgarvinnuna. Jón Axel hafði það hlutverk að skipuleggja meðan Gulli var í upptökum með Carolu eftir hádegið.
Báðir voru þeir í samböndum og komnir með börn. Það reyndi á. „Fyrir utan alla vinnuna var svolítið skrall á okkur,“ viðurkennir Jón Axel en Gulli er fljótur að bæta við: „Sem er ekki Sunnudagsmoggatækt!“
Þeir hlæja.
„Það var ofboðslegur þrýstingur og æsingur,“ heldur Jón Axel áfram, „og auðvelt að missa fókusinn og jafnvel fæturna.“
Hann var að innrétta einbýlishús þetta sumar en hafði auðvitað engan tíma, þannig að mest mæddi á konunni hans. Á móti kom að starfið gaf vel. „Frægt var þegar frétt birtist í blöðunum þess efnis að Tveir með öllu væru með milljón á mánuði hvor sem á þeim tíma var meira en Styrmir og Matthías á Mogganum,“ segir Jón Axel sposkur. „Þetta fór ekki vel í fréttastofu Stöðvar 2 en Elín Hirst fréttastjóri varði okkur og sagði: „Ég veit svo sem ekkert um það en ef þetta er satt er það þá ekki bara allt í lagi?““
Eitt skiptið ákvað fréttastofa Stöðvar 2 að hrekkja hrekkjalómana sjálfa. Þeir voru þá í beinni útsendingu úr Sjallanum á Akureyri, þegar nokkrar fáklæddar yngismeyjar birtust skyndilega á sviðinu og byrjuðu að láta vel að þeim og reyna að færa þá úr að ofan. Allt var tekið upp og sýnt í fréttatímanum um kvöldið.
„Það voru ekki komnir farsímar þarna,“ segir Gulli, „en við vorum með símboða og þeir byrjuðu að suða án afláts á sama augnablikinu um kvöldið. Það voru konurnar okkar. Þær komu báðar fljúgandi norður morguninn eftir.“
– Lifðu samböndin allt þetta af?
„Það gáfu sig öll bönd, við skulum bara orða þetta þannig,“ svarar Jón Axel. „Kannski ekki út af þættinum en hann hjálpaði klárlega ekki til. Tveir með öllu hafði ekki jákvæð áhrif á hið rólega og þroskaða fjölskyldulíf.“
– Hvernig fór það í ykkur að verða svona ofboðslega þekktir?
„Ég pældi aldrei neitt í því,“ svarar Gulli. „Bílarnir okkar voru aldrei rispaðir. Annars átti ég svo sem bara druslu, þannig að það hefði ekki skipt miklu máli.“
Um haustið hélt Gulli aftur utan til Los Angeles og Tveir með öllu lagðist í dvala. Um vorið kom hann aftur heim og þá var þráðurinn tekinn upp. Aftur var fjör og gaman en ekki alveg sami slagkrafturinn og sumarið áður. Nýjabrumið var farið af. Eftir það sumar hætti Jón Axel sem þáttarstjórnandi en Gulli tók sumarið 1994 með Carolu. „Ég hafði einfaldlega ekki löngun til að vera lengur í útvarpi, var kominn meira í svona stjórnunarvinnu,“ segir Jón Axel en seinna varð hann til dæmis dagskrárstjóri hjá Íslenska útvarpsfélaginu. „Ég er að upplagi frekar feiminn.“
Gulla fannst þetta sóun og hvatti hann vin sinn til að endurskoða ákvörðun sína en Jóni Axel varð ekki haggað. „Ég hélt áfram sumarið 1994 en það var ekki eins og að vera með Jóni. Eftir það var þessu ævintýri alfarið lokið.“
Fékk nóg af dægurþrasinu
Gulli átti síðar eftir að vinna aftur í útvarpi, meðal annars sem umsjónarmaður Bítisins á Bylgjunni ásamt Heimi Karlssyni frá 2013-2023. Hann segir það hafa verið skemmtilegan tíma en saknar þess ekki. „Ég sakna fólksins, ekki síst Heimis, það var frábært að vinna með honum. En ég fékk nóg af dægurþrasinu; var farið að líða eins og Bill Murray í Groundhog Day. Þess vegna hætti ég. Kannski er ég aðeins of mikill skemmtikraftur fyrir svona alvarlegan þátt.“
Gulli hefur þó ekki sagt skilið við fjölmiðla en hann hefur áfram umsjón með hinum vinsæla þætti Gulli byggir á Stöð 2.
Jón Axel sneri einnig aftur í útvarp árið 2018. „Ég var að vinna fyrir Árvakur sem rekur útvarpsstöðina K100 og beitti mér fyrir því að fá Loga Bergmann til starfa. Hann byrjaði í morgunþættinum en það átti ekki við hann að vakna svona snemma, þannig að hann færðist yfir í síðdegisútvarpið. Þá sögðu menn við mig: Jón, þú verður bara að taka morgunþáttinn að þér sjálfur!“
Það þýddi að Gulli og Jón Axel voru um tíma í beinni samkeppni á morgnana, hvor á sinni stöðinni. „Við á K100 vorum miklu skemmtilegri,“ fullyrðir Jón Axel. „Samt var meira hlustað á okkur,” segir Gulli.
Nú er hann í síðdegisþættinum Skemmtilegri leiðin heim ásamt Ásgeiri Páli Ágústssyni og Regínu Ósk. „Þetta hefur verið mjög gaman enda ekki annað hægt þegar maður vinnur með svona skemmtilegu fólki. Þetta er andrúmsloft sem á vel við mig.“
Ömmurnar yrðu glaðar
– Er einhver von til þess að þið eigið eftir að vinna aftur saman í útvarpi?
„Tja, það hefur enginn komið með fullar lúkur af peningum,“ svarar Jón Axel sposkur. „Frá mínum bæjardyrum séð vantar svolítinn brag á rekstur fjölmiðla í dag. Það pakka allir bara í vörn og skeyta ekki um sóknarleik. Það var meira fjör að vinna á fjölmiðlum hér áður og Tveir með öllu kunnu miklu betur við sig í sókn en vörn.“
Gulli kinkar kolli en bætir við: „Kannski var það vegna þess að við vorum yngri? Það voru allir undir þrítugu á Bylgjunni á þessum tíma en meðalaldurinn er mun hærri núna. Svo ég svari spurningunni þá væri ég alveg til í að skoða þetta með endurkomuna. Það yrði þó aldrei Tveir með öllu, það er búið, frekar bara Jón og Gulli og á allt öðrum forsendum.“
Hann horfir á við sinn sem bregst við: „Tja, ömmur landsins yrðu alla vega mjög glaðar ef við kæmum aftur.“
Við höfum setið saman í klukkustund eða svo og ekki fer milli mála að það er enn sterk kemistría milli þeirra. „Ég held að það sé ekkert leiðinlegt að hafa okkur í matarboðum, tæmingarnar eru ennþá til staðar,“ segir Gulli. „Við unnum alltaf sem einn maður í útvarpi; ég þurfti aldrei að horfa á Jón, vissi alltaf hvenær ég átti að taka við og hvað ég átti að segja. Ég fann þetta pínu með Heimi líka. Fyrirgefðu, Jón minn!“
Jón Axel rekur upp stór augu: „Hvað, hélstu fram hjá mér?“
Þeir skellihlæja.
„Annars vorum við fyrsta tvíeykið í útvarpi. Simmi og Jói, Auddi og Sveppi, þetta eru allt afrit af okkur,“ bætir Jón Axel við og þeir skellihlæja aftur.
„Annars er þetta bara ákveðinn galdur sem verður til milli manna, eins og í hljómsveit.“
– Þannig að …
„Jú, jú, Jón, myndum við ekki skoða góð tilboð?“ spyr Gulli.
Ekki stendur á svari: „Að sjálfsögðu.“