Carbfix, dótturfélag OR, hefur hætt við áform sín um uppbyggingu niðurdælingarstöðvar fyrir koldíoxíð í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal. Sigla átti með koldíoxíð í fljótandi formi til landsins og dæla því ofan í jörðina í Straumsvík.
Í tilkynningu á vef fyrirtækisins segir að ekki hafi náðst samhljómur milli fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og Carbfix um framgang uppbyggingarinnar. Mun fyrirtækið í staðinn einbeita sér að öðrum verkefnum sem tengjast bindingu gróðurhúsalofttegunda frá innlendum stóriðjufyrirtækjum, en fyrirtækið er með samninga við bæði Elkem á Grundartanga og Rio Tinto í Straumsvík. Þá á að þróa áfram möguleg verkefni í Þorlákshöfn og á Bakka við Húsavík.
„Við tökum með okkur lærdóm frá þessu verkefni og höldum ótrauð áfram. Markmið Carbfix er áfram að útvíkka starfsemi sína og vera hluti af lausninni,“ er haft eftir Eddu Sif Pind forstjóra félagsins.