Sviðsljós
Atli Vigfússon
Laxamýri
Það er margt sem gleður augað í Helguskúr á Húsavík enda líta þar margir inn í forvitni sinni til þess að sjá þær sjóminjar sem þar eru. Starfsemi í Helguskúr hefur alla tíð verið tengd sjávarútvegi þar sem húsið hefur verið notað undir beitningu, fiskverkun og geymslu veiðarfæra. Í dag er þar að finna vísi að sjávarútvegssafni enda var aldrei neinu hent sem nothæft var. Fyrir utan þetta er húsið eins konar samkomuhús eldri smábátasjómanna á Húsavík.
Helgi sjómaður
Ekki er hægt að tala um Helguskúr án þess að minnast á Helga Héðinsson sjómann sem átti skúrinn í áratugi og lífið þar var alla tíð tengt persónu hans. Hann lést nýlega á Húsavík í hárri elli og hafði stundað sjómennsku fram á tíræðisaldur. Fermingarsumarið réði hann sig til sjós. Var hann þá á trilluhorni og gerði að aflanum ásamt því að stokka og beita. Þegar hann var 16 ára réði hann sig á skip, veiddi síld, fór á snupru og síðan reknet um haustið. Eftir það fór hann á vetrarvertíð þá 17 ára gamall. Hann sótti sjó fyrir sunnan í mörg ár en flutti svo norður aftur árið 1957. Á Húsavík stundaði hann sjóinn af kappi alla sína tíð og segja má að í Helguskúr sé allt hans ævistarf varðveitt.
Upphaf Helguskúrs má kenna við bátinn Helgu TH 7 sem var 55 tonna trébátur með 265 hestafla Alpa-vél. Um þennan bát var stofnað fyrirtækið Hreifi hf. árið 1955. Það var að mestu í eigu Héðins Maríussonar og fimm sona hans. Helgi var einn þeirra. Fyrst var báturinn Helga gerð út á vetrarvertíðum frá Sandgerði og á síld á sumrin. Svo var hún á línu frá Húsavík á haustin.
Árið 1958 byggði fyrirtækið Hreifi hf. aðstöðu á hafnarstéttinni sem var tveggja hæða asbestklætt timburhús þar sem hluti aflans var verkaður í salt og skreið. Þetta var Helguskúr og stendur hann enn í dag og er í upprunalegri mynd að segja má. Löngu seinna eignaðist Helgi einn þetta hús en það var árið 1991. Þarna hafði hann alla tíð aðstöðu til þess að vinna afla sinn hvort sem var þorskur, ýsa, selur, hákarl, lax, silungur, grásleppa, rauðmagi, fugl eða eitthvað annað sem hann veiddi.
Lifandi safn
Helguskúr er á miðhafnarsvæðinu á Húsavík og var alla tíð miðja fjölskyldu Helga Héðinssonar. Þarna er safn af sjóminjum sem óvíða er að finna annars staðar. Í skúrnum myndaðist samfélag sem hefur haldist óslitið í áratugi og sumir segja að Helguskúr sé hluti af ímynd Húsavíkur. Í það minnsta stór hluti af sögu bæjarins. Margir kalla það félagslegt, menningarlegt og sögulegt gildi og segja að byggingin sé hjarta samfélags smábátasjómanna í bænum.
Sumir álíta að nú sé lag og að hægt sé að hafa þarna lifandi safn þar sem gamlir munir tengdir sjómennsku fái líf og t.d. geti verið þarna kaffihús í mjög sérstöku umhverfi sjómennskunnar. Eitt er víst að á ferðmannatímanum líta margir þarna inn og á bæjarhátíðinni Mærudögum er fullt út úr dyrum og fjölskylda Helga er þar með veitingar.
Helguskúr á að víkja
En skoðanir á því hver sé framtíð Helguskúrs hafa ekki verið á einn veg. Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings birti Helga bréf fyrir tæplega einu og hálfu ári þar sem honum var tilkynnt sú ákvörðun ráðsins að fasteign hans, Helguskúr á Hafnarstétt 15 á Húsavík, skyldi fjarlægð af lóðinni. Var þar m.a. vikið að framkvæmdum á aðliggjandi lóð sem miðuðu við að húsið myndi víkja til samræmis við ákvæði deiliskiplags. Um þetta urðu deilur og mótmælti Helgi þessari ákvörðun og setti fram kröfu um endurupptöku og afturköllun á ákvörðun skipulags- og framkvæmdaráðs.
Fjölskylda Helga studdi hann dyggilega og margir eru ekki sáttir við þessa kröfu um að húsið víki. Í dag er staðan orðin sú að Norðurþing hefur keypt húsið og er það nú í höndum sveitarfélagsins hvernig Helguskúr verður fjarlægður. Sumir spyrja sig að því hvort hætt verður við þá ákvörðun eða hvort henni verður fylgt eftir. Aðrir velta fyrir sér hvað verði þá um allar sjóminjarnar.
Margir vilja vernda húsið
Í húsakönnun sem Minjastofnun vann árið 2012 fyrir sveitarfélagið Norðurþing kom fram að Helguskúr væri hluti af húsaröð við Hafnarstétt. Þar var lagt til að húsið yrði verndað vegna umhverfislegrar sérstöðu þess. Þá hefur Gafl, félag um þingeyskan byggingararf, lagt til að Helguskúr verði áfram í sínum stað. Og margir Þingeyingar eru á sama máli. Eitt er víst að ef Helguskúr verður rifinn, þá verður enginn Helguskúr til og mikil menningarverðmæti munu glatast.