Kristín er heimshornaflakkari sem hefur búið og starfað víða um heim allt frá því hún kláraði menntaskóla. Eftir tólf ár í Singapúr hyggst hún flytja frá Asíu til Evrópu.
Kristín er heimshornaflakkari sem hefur búið og starfað víða um heim allt frá því hún kláraði menntaskóla. Eftir tólf ár í Singapúr hyggst hún flytja frá Asíu til Evrópu. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landið er á stærð við Langjökul en hér búa sex milljónir manna. Hér er sama hitastigið allt árið, um þrjátíu gráður, og þrúgandi raki.

Nokkuð langt er á milli þeirra ólíku staða Reykja í Hrútafirði og Singapúr í Suðaustur-Asíu. Kristín Þorsteinsdóttir þekkir báða þessa staði vel; alin upp í íslenskri sveit en býr nú og starfar í Singapúr, ein fimm Íslendinga sem þar búa. Kristín var heima í stuttu stoppi um daginn og nýtti tímann til að heimsækja fjölskylduna í Hrútafirði en gaf sér tíma til að hitta blaðamann á kaffihúsi í Reykjavík rétt áður en lagt var af stað fljúgandi yfir hálfan hnöttinn.

Vissi ekkert um Asíu

„Ég er úr sveit en það verður að segjast að ég hafði aldrei gaman af bústörfum. En mamma og pabbi keyptu bæinn við hliðina og breyttu í farfuglaheimili og mér fannst mun skemmtilegra að vera í kringum ferðamenn en að fara í fjárhúsin. Það er sennilega þess vegna að ég endaði í hótelbransanum,“ segir Kristín, en eftir menntaskóla fór hún fyrst til Frakklands að læra frönsku og síðar til Noregs í nám í hótelstjórnun. Þaðan lá leiðin til Bretlands í meistaranám.

„Þegar ég var búin með námið sá ég að það gæti nýst í ýmislegt annað en að reka hótel þannig að ég fékk vinnu hjá ráðgjafarfyrirtæki í London sem verðmetur og gerir fýsileikakannanir fyrir hótel sem átti að byggja víða. Það var mjög skemmtilegt og ég ferðaðist mikið um Evrópu vegna vinnunnar,“ segir Kristín sem fékk einn góðan veðurdag símtal frá evrópsku höfuðstöðvum Radisson-hótelkeðjunnar í Brussel þar sem henni var boðin vinna. Kristín þáði starfið og vann við að hjálpa hótelkeðjunni að stækka. Þar kynntist hún eiginmanni sínum sem vann þá sem lögfræðingur hjá Radisson.

„Starf mitt fólst aðallega í því að eltast við fjárfesta í hótelgeiranum og fá þá til að vinna með Radisson, en eftir tvö ár þar hringdi í mig hausaveiðari frá París og ég fór að vinna hjá erki-frönsku fyrirtæki þar sem ég var eini útlendingurinn, en þeir réðu mig því þeir vildu fara í útrás um Evrópu eins og svo margir aðrir á þessum tíma. En svo kom fjármálakrísan 2007 og hótelfjárfestingar lögðust tímabundið af. Ég var þá sett í innanlandsverkefni, sem var brött brekka því þótt ég gæti látið fólk halda að ég talaði sæmilega frönsku þá var ég eiginlega óskrifandi og kunni lítið á þetta batterí í Frakklandi. Ég fór svo í kvöldskóla að læra franska skipulagsfræði og fasteignalögfræði, sem var oft mjög erfitt,“ segir Kristín, en þess má geta að sambýlismaður Kristínar er franskur en á þessum tíma bjó hann áfram í Brussel en Kristín í París.

„Við vorum í fjarbúð í fimm ár en urðum svolítið þreytt á því. Í lok ársins 2012 kom tækifæri fyrir hann að flytja með sínu fyrirtæki til Singapúr og ég fylgdi bara með, en ég var þá ólétt. Mér fannst nú ekki skemmtilegt þarna fyrst; mér fannst allt of heitt og hundleiddist því ég var ekkert að vinna. En þó að ég vissi ekkert um Asíu tókst mér að fá vinnu aftur hjá Radisson og seinna hjá franskri hótelkeðju. Þar til covid skall á ferðaðist ég mikið um Suðaustur-Asíu, aðallega Malasíu, til að skoða strendur þar sem mætti byggja ný hótel og semja við fjárfesta,“ segir hún.

„Svo kom covid og þá misstu ég og margir í minni stöðu vinnuna enda dó bransinn í Asíu, og er enn að ná sér sumstaðar. Síðustu misseri hef ég unnið sjálfstætt sem ráðgjafi, bæði fyrir fyrirtæki í ferðabransanum og lífsstílsbransanum. Oft eru þetta evrópsk fyrirtæki sem vilja inn á Asíumarkað. Singapúr er miðstöð fyrir fyrirtæki sem vilja vaxa á þeim markaði og ég hjálpa fyrirtækjum að tengjast samstarfsaðilum í Suðaustur-Asíu. Ég vinn heiman frá mér en fer víða á fundi og ráðstefnur, en ég stjórna mikið mínum vinnutíma sjálf,“ segir Kristín og bætir við að þau fjölskyldan hafi nýtt tímann vel til að ferðast til annarra Asíulanda; Japans, Taílands, Laos, Malasíu og Balí, svo eitthvað sé nefnt. Einnig koma þau oft til Íslands á sumrin þar sem einkadóttirin fær að leika í sveitinni hjá afa og ömmu og fara í Ölver með íslenskum stelpum. Á heimilinu er mest töluð franska en Kristín hefur alltaf talað íslensku við dóttur sína sem má segja að sé mjög alþjóðlegt barn; af íslensku og frönsku bergi brotin en alin hingað til upp í Singapúr!

Nota mikið rassskellingar

„Þetta hefur verið skemmtilegur tími í Singapúr,“ segir Kristín sem segir að í Singapúr sé mikill hrærigrautur þjóða. Rúmur helmingur er Singapúrar en tæpur helmingur útlendingar. Stéttaskiptingin er mikil því þarna er mikið af ofurríku fólki, að sögn Kristínar, og hinn frægi Gini-stuðull sem mælir ójöfnuð er hvergi jafn hár.

„Singapúr er mjög dýrt land og ákveðnir hlutir, ekki allir þó, miklu dýrari en á Íslandi. Húsnæði hér er mjög dýrt og við leigjum, og bílar eru alger lúxus, en til þess að eiga bíl þarftu að kaupa sérstakt leyfi sem kostar jafn mikið og bíllinn. Við eigum ekki bíl enda er almenningssamgöngukerfið hér mjög gott og vel hægt að komast af án bíls. Ýmsar matvörur, eins og mjólkurvörur, eru líka ansi dýrar,“ segir hún.

„Landið er á stærð við Langjökul en hér búa sex milljónir manna. Hér er sama hitastigið allt árið, um þrjátíu gráður, og þrúgandi raki. Hér er stundum svo heitt að krakkar geta ekki verið úti að leika yfir hádaginn, nema í sundlauginni og þá þarf að passa að brenna ekki. Dóttir mín er til dæmis alltaf í síðerma sundbol,“ segir Kristín.

„Ég get orðið pirruð á hitanum og maður er ekki mikið úti, nema eldsnemma á morgnana eða eftir fjögur, fimm á daginn. Þótt það hljómi ótrúlega þá er svona hiti og sól lýjandi til lengdar,“ segir Kristín.

„Samanborið við mörg nágrannalönd ríkir mikil velmegun í Singapúr og landið hefur umbreyst úr skeri þöktu pálmatrjám og moskítóflugum í eina helstu fjármálamiðstöð heims á minna en 80 árum. Frá sjónarhóli þegna í vestrænum lýðræðisríkjum gilda þar ekki sömu mannréttindi og við erum vön. Sami stjórnmálaflokkurinn hefur verið við völd síðan landið var rekið úr ríkjasambandi við Malasíu og fékk sjálfstæði árið 1965. Þar ríkir lýðræði sem sumir kalla ófullkomið lýðræði,“ segir Kristín og nefnir að refsingar séu harðar, eins og í mörgum löndunum þar í kring.

„Hér er dauðarefsing við lýði og svo nota þeir rassskellingar við hinu og þessu. Í covid voru strangar reglur en svo rann upp fyrir okkur að það var ekki sama hver braut af sér, Jón eða séra Jón. Eitt sinn voru fimm útlendingar reknir úr landi þegar þeir brutu sóttvarnarreglur með því að drekka bjór úti á götu, en Singapúrar fengu öðruvísi meðferð við svipuðum brotum. Undir það síðasta voru reglurnar komnar út í algjöra vitleysu,“ segir Kristín, en þau voru innilokuð í landinu í 20 mánuði.

„Við hefðum getað farið en ekki þá fengið að koma aftur inn í landið.“

Hér snýst allt um mat

Dóttir Kristínar, Salóme, er fædd og uppalin í Singapúr en hún er nú tólf ára og eru þau farin að hugsa sér til hreyfings. Salóme er í franska skólanum í Singapúr, en nú er kominn tími til að hún komist í öðruvísi umhverfi.

„Salóme þarf að kynnast einhverju öðru en þessu ofurverndaða umhverfi. Hún hefur alist upp við svo miklar reglur sem þarf að fylgja til hins ýtrasta, sama hversu heimskulegar þær eru. Hún þarf að verða meira „street smart“ og læra kannski smá borgaralega óhlýðni. Singapúrskt menntakerfi er oft á toppi PISA-könnunarinnar fyrir frábæran árangur í stærðfræði en það er kannski minni áhersla á greinar sem krefjast sköpunargáfu og krítískrar hugsunar. Annars endar þú með þjóð sem veður uppi og fer að spyrja spurninga og jafnvel heimta aukin mannréttindi og prentfrelsi og það er sennilega ekki í takt við núverandi stjórnskipulag,“ segir hún.

„En án skapandi hugsunar verður auðvitað engin nýsköpun, sem stjórnvöld átta sig á, og því er verið að reyna að finna jafnvægi, en það er ekki auðvelt.“

Hvað gera Singapúrar í frítíma sínum?

„Singapúrar fara í verslunarmiðstöðvar og borða,“ segir Kristín og brosir.

„Hér snýst allt um mat og það er gífurlegt úrval af götumat og mathöllum,“ segir hún.

„Annars er fólk í alls konar íþróttum, til dæmis hjólreiðum, en fjölskyldulífið hjá mörgum snýst um að krökkunum gangi vel í skólanum og margir krakkar eru í aukatímum allar helgar. Hér er próf sem krakkarnir taka um tólf ára aldur og sú einkunn sem þau fá þar ákvarðar að miklu leyti framtíð þeirra. Árið fyrir prófið er fjölskyldulífið undirlagt af undirbúningi, en Salóme er í frönskum skóla og þarf því ekki að taka þetta próf sem betur fer,“ segir hún, en þess má geta að þrátt fyrir að Salóme sé fædd og uppalin í Singapúr getur hún ekki fengið singapúrskt ríkisfang.

„Hún getur í raun ekki fest hér rætur, en þegar hún fæddist þurfti ég að skrifa undir plagg og lofa að ég myndi ekki sækja um ríkisborgarrétt fyrir hana, “ segir hún, en eins og fyrr segir er líklegt að dvölin í Singapúr sé senn á enda.

„Við erum á leið til Frakklands þar sem verða væntanlega næg tækifæri fyrir Salóme til að læra mótmæli og borgaralega óhlýðni. Ég veit ekki hvenær ég get dregið þau til að flytja til Íslands því sambýlismaður minn og dóttir þola ekki kulda,“ segir Kristín og brosir.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir