Þóra Rós hefur komið víða við á lífsleiðinni. Eftir skiptinemaár í Mexíkó flutti hún þangað til að nema listdans og bjó þar í alls fimm ár. Eftir heimkomuna varð hún sjálfstætt starfandi dansari og danskennari og fór síðan í jógakennaranám árið 2015. Í kjölfarið opnaði hún lítið jógastúdíó, 101yoga, og eignaðist fyrsta barn sitt á sama tíma. Hún flutti svo norður og lokaði því stúdíóinu í Reykjavík en hélt áfram að kenna jóga víða. Meðfram kennslu vann Þóra sem flugfreyja og áður en varði bættist annað barn við. Þóra ákvað þá að mennta sig enn frekar og bætti við sig diplómanámi í skapandi greinum á Bifröst. Þar kviknaði ný hugmynd; að búa til barnajóga fyrir sjónvarp. Í dag er Þóra með marga bolta á lofti í einu; hún sinnir forfallakennslu í Laugarnesskóla, kennir jóga meðal annars í Hreyfingu og fer á vinnustaði með jóga og heilsukynningar. Hún stefnir síðan aftur í flugfreyjuna í sumar.
Þóra lét loks drauminn um barnajógaþætti verða að veruleika og eru nú þættirnir Ævintýrajóga komnir í loftið á RÚV. Þeir eru sýndir á fimmtudögum klukkan 18:25 og eru aðgengilegir í sarpinum.
Reyndi á leikræna tjáningu
„Ég hafði verið að kenna bæði fullorðnum og börnum jóga og þá kviknaði sú hugmynd að búa til sjónvarpsþætti þar sem ég gæti kennt börnum jóga,“ segir hún.
Þriðja barnið kom í heiminn og Þóra hélt áfram að þróa hugmyndina í fæðingarorlofi og síðar þegar hún var aftur komin í vinnu.
„Mig langaði að ná til barnanna og datt þá í hug að í stað hefðbundinnar jógakennslu myndi ég kenna jóga í ævintýraheimi. Ég sendi svo inn hugmynd á hugmyndadaga hjá RÚV og kynnti hugmyndina; að gera stutta þætti þar sem ég kenndi börnum jóga inni í ævintýraheimi,“ segir Þóra.
„Þeim leist vel á þessa hugmynd og ég byrjaði að vinna þetta með starfsfólki RÚV. Ég vildi hafa það þannig að ég væri að tala beint til krakkana og svo var grafíkin sett inn eftir á. Það reyndi á mína leikrænu tjáningu að vera kannski spennt að sjá eitthvað sem var auðvitað alls ekki þar,“ segir hún og brosir.
Mikill kvíði hjá börnum
„Mig langaði líka að miðla einhverri visku eða speki í lok hvers þáttar; einhverju sem krakkarnir gætu tekið með sér út í daginn,“ segir Þóra og bætir við að með þáttunum fái hún börn til að hreyfa sig í stað þess að sitja kyrr í sófanum.
„Það er ótrúlegt hvað ég hef fengið góð viðbrögð frá foreldrum og börnum,“ segir Þóra, en þættirnir eru átta.
„Ég hafði áður gert krakkajóga á YouTube í covid og prófaði þetta aðeins á börnunum mínum,“ segir Þóra.
„Mér finnst ótrúlega mikilvægt að við séum meðvituð um andlega líðan barnanna okkar og ég held að við mættum vera duglegri að staldra aðeins við í stað þess að þjóta áfram. Börnin okkar eru í svo mörgu; skóla, íþróttum og tómstundum og við leyfum kannski ekki börnunum okkar að vera börn. Það er mikill kvíði hjá börnum og jóga er ein leið til að hægja á og huga að önduninni,“ segir hún, en Þóra er með instagram-síðuna 101yogareykjavik, þar sem hún deilir ýmsum fróðleik.
„Jóga er svo miklu meira en stöður og liðleiki og það er gott að byrja að kenna börnum snemma jóga og hafa það hluta af daglega lífinu. Foreldrar sem horfa á þáttinn geta líka gert jóga með börnunum,“ segir Þóra og nefnir að jóga ætti að vera jafnvel hluti af námi barna.
„Það væri geggjað að hafa jóga- eða hugleiðsluherbergi í grunnskólum þar sem krakkar gætu farið inn, líkt og þau gera í hvíldinni í leikskólum,“ segir hún og brosir.