Tungutak
Sigurbjörg Þrastardóttir
sitronur@hotmail.com
Nýverið kom fram í fréttum að örnefnanefnd hefði gert Reykjavíkurborg að endurnefna götuna Bjargargötu í Vatnsmýri, vegna hættu á ruglingi við götuna Bjarkargötu við Tjörnina. Ekki veit ég hvort eða hvernig borgin bregst við, kemur í ljós (hún hefur átta vikur), en fréttinni fylgdu þær upplýsingar að sjaldgæft væri að örnefnanefnd amaðist við nýjum heitum. Þetta væri því ákveðið undantekningartilvik; almennt ættu nöfn í sömu póstnúmerum eða á sömu svæðum þó ekki að vera of lík.
Til þess að gera skemmtilegan pistil má strax álykta að örnefnanefnd hafi verið skipuð öðru fólki þegar Löndunum í Fossvogi var úthlutað nöfnum. Þar liggja á svipuðum slóðum göturnar Árland og Áland, þar nærri er Ánaland, og á sama væng eru bæði Álfaland og Álftaland. Ég hef alltaf dáðst að póstburðarmönnum í þessu hverfi og bíð eftir að fá þangað boð í fermingarveislu því þá ætla ég af stað fyrir hádegi. Það má líka sjá fyrir sér að Vogaland og Logaland geti valdið ruglingi, til að mynda í síma, jafnvel Ósland og Ljósaland, en það þarf þá kannski að vera frekar léleg símalína.
Ein af helstu ástæðunum fyrir því að Bjargar- og Bjarkargata teljast ekki tækar er einmitt hættan á ruglingi í síma. Slíkt gildir til dæmis þegar hringt er eftir sjúkrabíl, en viðbragð í neyðartilvikum, rötun sjúkrabíla, slökkviliðs og lögreglu, kallar á að ekki sé teflt á tvær hættur með lík nöfn, til að mynda þar sem einungis framburður á erri skilur á milli, eins og í Bjargargötu (raddað r) og Bjarkargötu (óraddað r). Þetta er því ekkert gamanmál.
En mikið held ég að pítsusendlar og leigubílstjórar gætu skilað örnefnanefnd löngum atvikalista, ef efnið væri víkkað aðeins út. Í sömu frétt voru nefndar Vífilsgata og Fífilsgata, þar fer strax upp rautt flagg, ég veit af reynslu að Skaftahlíð og Stakkahlíð svipar saman í handskrift og í Arkarvogi bíður fólk fars úr Barkarvogi frá í gær. Mestu meistararnir eru þó þeir sem hætta sér í Seljahverfi að heimsækja einhvern sem býr í S-eitthvað, því þar koma til greina Stallasel og Stafnasel, eða var það Stapasel, nei, bíddu, Staðarsel, Steinasel, Stekkjarsel, Stokkasel, Stuðlasel, Stúfsel, Strýtusel, Strandasel, Stíflusel, Síðusel, Skriðusel? Æ, kannski við hittumst bara á Teams.
Ég afsaka glensið og bendi á að samsláttur í hugum fólks er auðvitað ekkert bundinn við heiti gatna. Mörgum gengur treglega að muna muninn á Gerðarsafni og Gerðubergi, þegar sækja á viðburði, og Ásmundarsalur og Ásmundarsafn eru undir svipaða sök seld. Einu sinni fór ég nálægt því að taka tíu tíma lest til Barcellona á Sikiley, þegar ég, á N-Ítalíu, fletti upp lestarmöguleikum til Barcelona á Spáni, það eru hreint ekki staðir í sama póstnúmeri, vesen samt … ég held að örnefnanefnd hafi margt til síns máls og bara verst að hún hefur ekki lögsögu yfir mánaðaheitunum júní og júlí.