Pistill
Ásdís Ásgeirsdóttir
asdis@mbl.is
Oft á lífsleiðinni kemur maður sér í vandræði og þarf þá að finna leiðir til að bjarga sér út úr þeim. Ég er ekki að tala um lífsbreytandi klandur, heldur frekar klandur hversdagsleikans. Þannig er mál með vexti að ég er stundum beðin að bregða mér í líki bílablaðamanns, prufukeyra bíla og skrifa svo um þá. Þetta hljómar eins og hin fínasta skemmtun, ekki síst þegar utanlandsferð er í boði og reynsluaksturinn á sér stað í Ölpunum eða við Miðjarðarhafið. Yfir þessu er einhver ævintýraljómi.
En ekki er allt sem sýnist. Stundum er gaman og stundum ekki í þessum ferðum; það er nú bara eins og í lífinu sjálfu. Það er líka hægt að lenda í rigningu og súld í Ölpunum og flugferðir eldsnemma á morgnana eru ákaflega þreytandi. Eitt sinn fór ég í bílaferð og þurfti að vakna þrjá daga í röð klukkan 4.30, taka nokkrar lestir og sex flugvélar og það á þremur dögum. Veðrið var afleitt allan tímann. Lítill glamúr var yfir þessu satt að segja, nema þá helst yfir bílnum sjálfum. Þegar heim er komið úr bílaferðum erlendis, og eftir reynsluakstur innanlands, þarf svo að skrifa um bílinn og þá er illt í efni. Það er eitt að fá að keyra flotta bíla og annað að þurfa að skrifa um þá, en undirrituð hefur aldrei verið þekkt fyrir að vita allt um bíla. En þá er bara að bretta upp ermar, rifja upp allt sem maður lærði um bílinn og gúgla svo restina. Mér líður oft eins og loddara þegar ég skrifa um bíla en segi svo við sjálfa mig að það sé venjulegt fólk sem keyrir bíla og af hverju ekki að fá venjulegt fólk til að skrifa um þá? Ég hef jú verið með bílpróf í yfir fjörutíu ár og einhverja reynslu hef ég öðlast. Svo er bara að „feika það þangað til ég meika það“; maður sjóast með tímanum.
Um daginn prufukeyrði ég forláta Porsche Macan sem ég keyrði upp í Hvalfjörð. Vinkona mín spurði mig hvort ég væri ekkert smeyk að keyra um á svona dýrum bíl ef hann skyldi nú skemmast. Nei, ég hélt nú ekki.
Sama dag lenti ég í því að gerð var atlaga að fína bílnum þegar hestur nokkur fann sig knúinn til að sýna honum mikla athygli, en þekkt er að hestar sleikja lakk af bílum og stórskemma. Ég lá á flautunni og hjartað barðist ótt og títt, enda sat ég undir stýri á sautján milljón króna bíl sem ég átti ekkert í. Og sá fyrir mér að skila honum löskuðum. Eftir öskur og læti, handapat og flaut hypjaði hrossið sig loks af veginum og ég gat andað léttar.
Um nóttina dreymdi mig að ég klessti Porschinn, þannig að nú er ég ekki aðeins í kvíðakasti yfir greinaskrifunum, heldur líka farin að fá martraðir. Ég ætti kannski að halda mig við minn eigin níu ára gamla bíl og láta aðra um glæsikerrurnar!