Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Deleríum de Gran Canaria er yfirskrift vísu Hallmundar Guðmundssonar:
Svo tóri ég hér dag frá degi,
- dável ég lífsblómið vökva
Ef eitthvað bull annað hér segi,
þá allmikið ég er að skrökva.
Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni:
Hann var pabba orfi á,
oní jörðu rekinn sá.
Neðst á bátnum aftast er,
oft á göngu sárna fer.
Þá Erla Sigríður Sigurðardóttir:
Sveiflar orf með hæl í hönd
hæll í jörð tjald fjötrar.
Hæl á bát er stýrt að strönd,
stirður hællinn nötrar.
Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu gátunnar. Það þvælist ekki fyrir Helga Einarssyni:
Hæll er pabba orfi á.
Ætíð hæll er tjaldi hjá.
Átt við hælsæri er hér.
Hællinn neðst á bátnum er.
Lausnarorðið er hæll. Magnús Halldórsson þekkir formið vel:
Hæll að sönnu orfi á
oní jörð fer hællinn.
Hæl við kjölinn hygg ég þá,
við hælsæri þverr stællinn.
Guðrún Bjarnadóttir:
Á orfi er haldið í hæl,
en hæll í jörðina barinn.
Kjalarhæll stórfínn. Með stæl
staulast ég hælblöðrumarin.
Magnað er hversu margar útgáfur er hægt að prjóna til svars. Úlfar Guðmundsson reiðir svo fram sléttubönd, sem flytja má aftur á bak og áfram:
Við hæl ljár er festur fast.
Fer hæll jörð í niður.
Við hæl aftast sjálfur sast.
Sár hæll er öllum miður.
Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:
Straumvötn trylltan stíga dans, (sögn í nafnh.)
stór og spikfeit kona.
Bóndans eign og húsdýr hans,
höfð er undir rauðvín manns.
Magnús Halldórsson orti á vorjafndægri á fimmtudaginn var:
Undan vetur, óðum lætur,
aftur verða kvöldin hlý.
Blómaskrúð og bjartar nætur,
bráðum fer að styttast í.