Vinnumarkaður Mörgu er að sinna.
Vinnumarkaður Mörgu er að sinna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Mikilvægt er að tillögur um hagræðingu í ríkisrekstri séu ræddar af ábyrgð og í samhengi við stefnumörkun í ríkisfjármálum þar sem bæði er horft á tekjur og útgjöld. Þetta segir í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um þær formlegu tillögur…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikilvægt er að tillögur um hagræðingu í ríkisrekstri séu ræddar af ábyrgð og í samhengi við stefnumörkun í ríkisfjármálum þar sem bæði er horft á tekjur og útgjöld. Þetta segir í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um þær formlegu tillögur til sparnaðar sem fram eru komnar eftir að leitað var til almennings um hugmyndir sem bárust í þúsundavís.

ASÍ segir að sumar þær tillögur sem starfshópurinn hefur kynnt séu hápólitískar, hafi áður verið settar fram af hálfu hagsmunaaðila og vandséð að þær þjóni boðuðum tilgangi. Þá sé sumt af því sem fram hafi komið lítt útfært, illa rökstutt og forsendur um mat á sparnaði óljósar. Sérstaklega víkur ASÍ þarna að vinnumarkaðsmálum og hugmyndum um breytingar á réttindum opinberra starfsmanna sem sagðar eru komnar frá samtökum atvinnurekenda.

„Miðstjórn mótmælir því harðlega að slíkar tillögur, sem ganga gegn hagsmunum og samningsrétti launafólks og eru í berhögg við ráðandi vinnumarkaðslíkan, séu settar fram í nafni hagræðingar í ríkisrekstri. Þá geldur miðstjórn varhug við tillögum um að leggja niður fyrirvaralaust lögbundnar stjórnir og ráð í stofnunum sem fara með mikilvæg réttindi og eftirlit með hagsmunum launafólks svo sem Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið auk tillagna um einkavæðingu opinbers eftirlits,“ segir ASÍ. Minnir þar á að eftirlit með öryggi og aðbúnaði vinnandi fólks hafi sannað sig vel. Þau vinnubrögð að setja fram tillögur sem varða almannahag miklu, án allra greininga og hagsmunamats, séu ekki góð.

„Þá er gagnrýnivert að í tillögunum er engin tilraun gerð til að draga fram byggðasjónarmið og mismunandi áhrif þeirra á hinar dreifðu byggðir,“ segir ASÍ.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson