Kjartan Þorbjörnsson, Golli, gagnrýndi lögregluna á Suðurnesjum harðlega á árlegri sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands um helgina, en hann er formaður félagsins. Í samtali við Morgunblaðið bendir hann á að ekkert sé vitað um hvað gerist í…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Kjartan Þorbjörnsson, Golli, gagnrýndi lögregluna á Suðurnesjum harðlega á árlegri sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands um helgina, en hann er formaður félagsins. Í samtali við Morgunblaðið bendir hann á að ekkert sé vitað um hvað gerist í framtíðinni, „kannski fer Grindavík öll undir hraun, kannski gerist ekkert meira og Grindavík verður aftur að frábæru sjávarþorpi með fullt af lífi og glæsilegu körfuboltaliði. Við getum ekki sagt frá sögunni í myndum eftir á, við verðum að taka þær á meðan atburðirnir eru að gerast. Í fyrstu var ekkert vitað um hvað væri að gerast, í nóvember 2023, þá eru fjölmiðlamenn á staðnum og þeir rýma bara eins og allir aðrir,“ segir Kjartan.

Segir hann fjölmiðlafólk hafa fengið að fylgjast með framan af, en vatnaskil hafi orðið eftir að gossprunga opnaðist inni í bænum. „Þá varð til enn einn nýr veruleiki, en eftir það kemur upp eitthvert óþol gagnvart okkur. Þá er allt í einu sagt: „Nei, núna eruð þið búin að mynda nóg, nú myndið þið ekki meira.“ Það er það sem er svo hættulegt í lýðræðisríki, að það sé einhver einn karl sem getur ákveðið þetta og ég fullyrði að þetta sé einhver stærsti fréttaviðburður síðustu ára, bæjarfélagið er að flytja í burtu og við fáum ekki að mynda,“ segir ljósmyndarinn.

Bendir hann í framhaldinu á að við opnun fréttaljósmyndarasýningarinnar fyrir 2024 hafi engin mynd frá þessum stórviðburði í Grindavík borist til dómnefndar sýningarinnar.

„Við erum ekkert bara að hlaupa um og taka myndir til þess að ná að birta eitthvað á netinu einn, tveir og þrír, við erum að búa til heimildir fyrir framtíðina og ég er alveg viss um það að sagan muni segja okkur að það hafi verið embættisafglöp að leyfa okkur ekki að gera þetta og þarna vantar margar blaðsíður í sögu Grindavíkur og sögu Íslands.“

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson