Kirkja Guðshúsið gnæfir og í baksýn eru fjölbýlishúsin í Salahverfi.
Kirkja Guðshúsið gnæfir og í baksýn eru fjölbýlishúsin í Salahverfi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við viljum að lyftan verði komin í turninn áður en árið er úti,“ segir Daníel Ágúst Gautason, prestur við Lindakirkju í Kópavogi. Meðal safnaðarins þar stendur nú yfir söfnun á fé til kaupa og uppsetningar á turni kirkjunnar

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Við viljum að lyftan verði komin í turninn áður en árið er úti,“ segir Daníel Ágúst Gautason, prestur við Lindakirkju í Kópavogi. Meðal safnaðarins þar stendur nú yfir söfnun á fé til kaupa og uppsetningar á turni kirkjunnar. Guðshúsið var tekið í notkun árið 2008 og fékk lokavígslu á aðventu 2014. Turninn er þó enn ófrágenginn að innan og lyftustokkurinn stendur auður. Úr því er ríkur vilji til að bæta.

Þá er allt í myndinni

Turnar í borgum um allan heim eru táknmyndir. Kirkjur eru það líka: ljósmyndurum finnst stundum að myndir til dæmis af borgum og bæjum séu ekki með því sem þarf nema kirkjan sé þar líka. Ef slíkt er fengið, þá er allt í myndinni!

„Babelturninn sem segir frá í Biblíunni var tákn um hégómleika mannfólksins. Spíran hér við Lindakirkju er hins vegar bara fallegt mannvirki og af hæsta palli er horft yfir bæinn. Hér sést vel yfir efstu hverfi Kópavogs sem héðan er þjónað. Náttúran í öllum sínum fjölbreytileika; sköpunarverk drottins, blasir hér við,“ segir Daníel, sem nú er í tímabundinni þjónustu við kirkjuna. Í því hlutverki hefur hann, jafnhliða annarri þjónustu, tekið frágang á turninum sérstaklega að sér og er áfram um að koma málinu í höfn.

Upp í turninn, sem er um 25 metra hár, eru 108 stigaþrep upp á sjöttu og efstu hæð. Fótfráir eru um hálfa mínútu að skokka upp en aðrir geta þurft lengri tíma. Því er lyfta í húsið nauðsynleg. Tekin hafa verið upp myndbönd af fólki hlaupa upp stiga kirkjunnar og þau verið sýnd á youtube-rás hennar. Slíkt myndskeið, tekið úr heimsókn Guðrúnar Karls Helgudóttur biskups Íslands, fer í loftið í dag.

Upp og niður í kjallarann

„Lyftumálið gengur bæði upp og niður, ef svo má segja,“ tiltekur Daníel Ágúst. „Í kjallara kirkjunnar er stórt rými sem við ætlum undir barna- og æskulýðsstarf og þar sem einn þátttakenda í því þarf að nota hjólastól er þörfin fyrir lyftuna mikil. Svo er líka eldra fólk sem langar að komast í turninn en treystir sér ekki í stigann. Því viljum við sem fyrst fá lyftu, sem kostar 15 milljónir króna. Ríflega þriðjungur þess fjár sem þarf er kominn inn á reikninginn og vonandi verðum við fljót að safna þeirri upphæð, sem er frádráttarbær frá skatti enda er kirkjan á almannaheillaskrá.“

Lyftusjóður Lindakirkju

Banki: 537-14-7079

Kt.: 550302-2980

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson