Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Staða jökla segir mikið um náttúrufar hvers tíma,“ segir Andri Gunnarsson, formaður Jöklarannsóknafélags Íslands. „Undanfarin ár höfum við séð lítillega draga úr þeirri miklu hlýnun í veðri sem hófst laust fyrir aldamót. Raunar þarf hitastig á Íslandi ekki að breytast mikið, kannski að kólna 1-2 gráður að meðaltali, svo jöklarnir eigi möguleika á því að fara aftur að bæta við sig svo einhverju nemi. Á sama tímabili höfum við séð brautir lægða sem færa okkur úrkomu og raka færast fjær landinu. Hér hafa norðaustanáttir verið meira áberandi en áður svo svalara hefur orðið í veðri.“
Þróun jökla sett í gervigreind
Andri er verkefnastjóri hjá Landsvirkjun og sinnir þar rannsóknum á sviði vatnsafls. Hann var á meðal þeirra sem þátt tóku í dagskrá sl. föstudag, 21. mars, á alþjóðadegi jökla. Til fræðslu og umræðu var efnt þá í tilefni af því að Sameinuðu þjóðirnar helga árið 2025 jöklum á hverfandi hveli, svo mikilvægir sem eru þeir vatnsbúskap veraldar með öllum þeim afleiddu áhrifum sem slíku fylgja.
Hjá Landsvirkjun er í gangi stórt þróunarverkefni sem gengur út á að nýta gervigreind til að keyra líkön fyrir jökla og þróun þeirra til framtíðar fyrir margar sviðsmyndir. Með slíku er hægt að sjá hvernig jöklarnir gætu, ýmsum forsendum samkvæmt, þróast á næstu árum og áratugum. Slíkar vísbendingar og þekking á reginöflunum skipta miklu fyrir orkuvinnslu. Raunar eru svona rannsóknir með tækni gervigreindar komnar af stað í fleiri verkefnum hjá Landsvirkjun, m.a. í samstarfi við evrópsku geimvísindastofnunina í París.
„Hér á Íslandi fór merkjanlega að hlýna í veðri fyrir um þrjátíu árum og sú þróun hélst alveg fram til 2010. Ég segi stundum að á þessum tíma hafi allt verið í gangi; jöklarnir gáfu hratt eftir vegna hlýnunar og eins vegna þess að úrkoma á jöklum var fremur regn en snjór. Því töpuðu jöklarnir massa sínum, enda er það eðli þeirra að leita eftir jafnvægi við loftslag. Nú virðist þetta eitthvað hafa breyst síðasta áratug. Greiningar okkar sýna að frá 2011 hefur snjóað 6-8% meira á jöklum landsins en var 2000-2010,“ segir Andri
Vetrarafkoma nærri meðallagi
Ýmislegt bendir til þess að eftir líðandi vetur muni vetrarafkoma jökla landsins koma út nærri meðallagi; það er gefi ekki eftir í snjósöfnun eins og stundum áður. Allt mun þetta þó ráðast af framvindu allra næstu vikna, enda er snjósöfnunin oft drjúg á útmánuðum. Þótt jörð sé oft orðin auð á láglendi á þessum tíma árs getur verið fimbulvetur með snjókomu og hríðarveðri á jöklum í 1.000-1.500 metra hæð. Þar dregur þá í fannir og frera og jöklarnir byggja sig upp.
Hvernig þessu er annars farið mun betur skýrast eftir mánuð eða svo en þá fer Andri með fleiri vísindamönnum, til dæmis frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofunni, í að mæla vetrarafkomu jökla. Sjónum verður beint að Vatnajökli, Hofsjökli og Langjökli, en upplýsingar þaðan eru alltaf þýðingarmiklar, enda eru þetta stærstu jöklar landsins. Undir haust verða svo venju samkvæmt gerðar sambærilegar mælingar til að sjá hver staðan eftir sumarið er. Að auki munu vísindamenn svo í vor gera ýmsar rannsóknir, til dæmis með snjókjarnasýnatöku, á ýmsum af minni jöklum landsins.
70 smájöklar eru horfnir
Um árið 2000 voru 300 jöklar á Íslandi en síðan þá, á aðeins aldarfjórðungi, hafa 70 smájöklar horfið. Stærð þessara jökla var stundum á bilinu 0,01-3 ferkílómetrar og 25 slíka mátti finna til dæmis á Tröllaskaga og Flateyjarskaga. Um 20 jöklar í fjöllum á Austurlandi eru farnir og átta í Kerlingarfjöllum. Svona má halda áfram. Fastir mælipunktar eru á alls 120 stöðum á jöklum landsins og eðlilega þá flestir á hinum víðfeðma Vatnajökli. Af honum til norðurs gengur Brúarjökull og framvindan þar er oft mjög áhugaverð, segir Andri.
„Úr Brúarjökli má lesa margt sem gefur upplýsingar um hina stóru framvindu. Ferðir mínar þangað á síðustu árum eru orðnar mjög margar og alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu. Jökullinn gefur eftir og þarna sér maður hvar ný jökulsker og urðarranar koma upp úr ísnum. Nýtt landslag verður til á jöklinum, en norður af honum er Hálslón. Um 90% af vatnsmagni þess er leysing frá Brúarjökli. Vegna rafmagnsvinnslu í Fljótsdalsstöð þarf að vakta Brúarjökul vel. Með sama hætti er til dæmis Hofsjökull undir stöðugu eftirliti, en vatn sem frá honum fellur til suðurs myndar Þjórsá með öllum virkjunum og miðlunum þar. Í norðanverðum jöklinum eru svo upptök Blöndu.“
Veðurstofa Íslands fylgist grannt með flatarmálsbreytingum á jöklum landsins og eru útlínur þeirra uppfærðar á tveggja ára fresti samkvæmt loftmyndum. Flatarmál jöklanna var árið 2023 samtals um 10.100 ferkílómetrar en var um aldamótin 1900 í kringum 12.500 ferkílómetrar. Tæplega helmingur flatarmálsminnkunar hefur átt sér stað eftir 2000. Á síðustu árum hefur undanhaldið verið 40 ferkílómetrar á ári, eins og Hrafnhildur Hannesdóttir, fagstjóri jöklarannsókna á Veðurstofu Íslands, upplýsti hér í Morgunblaðinu síðasta haust. Þetta eru allt upplýsingar sem Andri þekkir vel, þótt rannsóknir hans miðist öðru fremur við að mæla afkomu jökla með tilliti til orkuvinnslu.
Halda stöðunni betur
„Íslenskir jöklar eru vel vaktaðir og við sjáum fljótt hver þróun þeirra er og hvert þeir stefna. Oft kemur ekki í ljós hverjir drifkraftar breytileikans eru fyrr en hægt er að horfa á framvinduna yfir lengri tíma. Segja má að eftir fyrsta áratug þessarar aldar sé massatap íslenskra jökla ekki eins ört og það var frá 1995. Jöklarnir ná að halda stöðu sinni betur hvað varðar ársafkomu og hve miklum massa þeir tapa. Slíkt veit á gott.“
Hver er hann?
Andri Gunnarsson er fæddur árið 1983, verkfræðingur að mennt og með sérhæfingu á sviði jökla og vatnsafls.
Hann er verkefnastjóri á deild þróunar vatnsafls hjá Landsvirkjun og formaður Jöklarannsóknafélags Íslands.