Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Norðurlöndin eru okkar nánustu samstarfsaðilar í Evrópu og mikilvægt er að Ísland sé virkur þátttakandi í norrænu varnarsamstarfi.

Bryndís Haraldsdóttir

Ég heimsótti Litáen á dögunum í tilefni af 35 ára sjálfstæðisafmæli landsins. Þakklæti litáísku þjóðarinnar í garð Íslendinga fyrir að hafa viðurkennt sjálfstæði hennar, fyrstir þjóða, er enn mikið og snerti mig djúpt. Alþingi, á litla Íslandi, spilaði stórt hlutverk í sögu landsins. Ég mun seint gleyma þeirri stund er við sátum í gamla þingsalnum í Vilníus og hlustuðum á þau sem börðust fyrir sjálfstæði Litáen þakka Íslendingum fyrir, frá sínum innstu hjartarótum. Þessi stund minnti mig á mikilvægi þess að standa ávallt með þeim sem berjast fyrir frelsi og ekki síst hversu stórt hlutverk lítið land eins og Ísland getur leikið í stórum og mikilvægum málum.

Á fundum sem ég átti með þingforsetum Eystrasaltsríkjanna, Póllands, Finnlands og Úkraínu snerust umræður óhjákvæmilega um þá ógn sem Evrópa stendur frammi fyrir í dag. Það var enginn efi í málflutningi þeirra: Evrópa verður að standa saman og geta varið sig sjálf. Við verðum að halda áfram að styðja Úkraínumenn í baráttu sinni – og viðurkenna að öryggi í álfunni er sameiginleg ábyrgð okkar. Við megum ekki missa sjónar á staðreyndum.

Í þessum umræðum kom skýrt fram að óvinurinn er ekki Trump – heldur Pútín. Ég gagnrýni orðræðu Trumps um vini okkar á Grænlandi en lít ekki á Bandaríkin sem ógn. Þvert á móti. Við verðum að viðhalda sterkum tengslum við Bandaríkin á sama tíma og við störfum áfram náið með bandamönnum okkar í Evrópu. Norðurlandaríkin eru nánustu samstarfsaðilar okkar í Evrópu og mikilvægt er að Ísland sé virkur þátttakandi í norrænu varnarsamstarfi. Innganga Svía og Finna í NATO sýnir, svo ekki verður um villst, mikilvægi þess varnarbandalags. Ljóst er að Svíar og Finnar líta ekki á Evrópusamsambandið sem varnarbandalag.

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Nauðsynlegt er að tryggja varnir Íslands á sama tíma og við stöndum saman, að við stöndum með fullveldi og frelsi þjóða. Nú er ekki rétti tíminn til að sundra þjóðinni með umræðu um inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Hræðsluáróður á viðsjárverðum tímum má ekki verða nýjasti áróður Evrópusambandssinna.

Látum hræðsluáróður ekki leiða okkur til Brussel – ákvörðun sem gæti haft ófyrirséðar afleiðingar. Það sem skiptir mestu máli núna er að standa saman – ekki sundruð.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Bryndís Haraldsdóttir