Elías Elíasson
Elías Elíasson
Gildi trúarinnar stuðla að samheldni sem þarf til að standast þau ófyrirsjáanlegu áföll sem tíminn færir fyrr eða síðar.

Elías Elíasson

Hvert sem litið er í heiminum finnur maður einhver ráðandi trúarbrögð sem skilgreina grunngildi samfélagsins og móta alla lagasetningu. Trúin tryggir einsleitni grunngildanna þannig að þeir siðir sem fólk fer eftir í samskiptum sínum og tryggja samheldni samfélagsins séu eins hvar sem einstaklingurinn haslar sér völl. Þessi grunngildi og siði þarf að temja börnum löngu áður en þau læra að beita eða taka rökum. Trúin er sterkasta aflið sem við höfum til að bera þessa góðu siði milli kynslóða. Hér hefur kristnin haft þetta hlutverk og ekki hægt að segja annað en að hin kristnu gildi hafi reynst þjóðinni vel.

Um trú og trúarþörf

Samkeppni ríkir milli einstaklinga og eiginhagsmunir ráða miklu um gerðir þeirra. Hins vegar hlýtur samfélag sem byggt er upp af einstaklingum sem láta samkeppnina við aðra alfarið ráða gerðum sínum að sundrast og líða undir lok þegar að kreppir eða ef það lendir í útistöðum við annað samfélag sem byggir á samstöðu. Þetta hefur gilt allt frá dögum frummannsins og gildir ekki síður í fjölmennum samfélögum nútímans.

Auðvelt er að sjá hvernig trúin skapar mótvægi við skynsemisdrifna sérhyggju með því að kalla til æðra vald sem knýr menn til að bera umhyggju ekki aðeins fyrir sínum nánustu heldur líka hinum sem nauðsynlegt kann að vera að leita til og hafa samstarf við þegar aðstæður breytast.

Talið er að skynsemi mannsins hafi þróast jafn mikið og raun ber vitni vegna þess að hæfnin til að greina hegðun veiðidýra, blekkja þau og leiða í tapstöðu hafi ráðið úrslitum um möguleika ættflokksins til að lifa af. Aukin skynsemi jók því líkur mannsins til að lifa af en eftir því sem hún óx varð trúin að styrkjast til að halda saman samfélaginu sem var önnur forsenda fyrir tilveru mannsins. Það fór þó ekki hjá því að menn gætu notað trúna til að safna að sér völdum og þess eru mörg dæmi í sögunni þar sem miðaldakirkja Evrópu er ef til vill eitt skýrasta dæmið. Sú kirkjustofnun sprakk þó og mynduðust margir söfnuðir með afar mismunandi tilbeiðslusiði og hugmyndir um mörk mannlegs og guðlegs valds en hin samfélagslegu gildi trúarinnar héldust í grunninn lítið breytt

Samningurinn árið 1000

„Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn,“ sagði Þorgeir Ljósvetningagoði á Alþingi árið 1000 og taldi ráð að allir hefðu ein lög og einn sið. Kvað hann síðan upp þau lög að menn skyldu taka upp kristni en áfram mætti blóta á laun, bera út börn og eta hrossakjöt. Trúfrelsi var þannig ekki alfarið afnumið en þessi lög ollu þó afar þýðingarmiklum breytingum á þjóðfélaginu, því með þeim var hefndarskyldan og blóðhefndin í raun af lögð, dómsvald ættar þess sem orðið hafði fyrir misgjörð afnumið og það fært alfarið í hendur yfirvalds þess tíma, goðanna. Þá höfðu þessi lög það í för með sér að kristin gildi urðu grundvöllur uppfræðslu barna á unga aldri. Fyrirgefningin, aðalsmerki kristni, kom í stað hefndarinnar.

Staðan nú

Það má með nokkrum rétti segja að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi með úrskurði sínum gert samning við kirkjuna um að hún skyldi þaðan í frá bera hina góðu siði milli kynslóða. Það blandast víst fáum hugur um það í dag að sá samningur hafi verið okkur til gæfu og valdið því að hér bera menn meiri virðingu fyrir lífi og velferð annarra en víða annars staðar.

En þjóðin hefur ekki staðið við þennan samning. Undir merkjum trúfrelsis og með þeim rökum að ekki mætti fylla börn af hindurvitnum hefur starf kirkjunnar í grunnskólum verið bannað og kristnifræðsla af numin. Kristni liggur hér sem annars staðar á jörðinni undir stöðugum gagnáróðri, enda er hún einn skæðasti keppinautur annarra trúarbragða, hvort sem um ræðir trú á æðri máttaröfl eða pólitíska trú sem byggir á skynsemishyggju eins og kommúnisminn og ýmis afbrigði sósíalisma.

Þó svo að ýmis önnur ytri skilyrði séu sterkir áhrifavaldar má öruggt telja að þetta samningsrof hafi m.a. átt þátt í að valda auknu ofbeldi meðal skólabarna sem færist þaðan eins og alda upp aldursstigann. Þarna er þörf á aðgerðum.

Lokaorð

Samkeppni er alltaf til staðar í mannlegum samfélögum og með tímanum vaxa lífskjörin helst þar sem einstaklingurinn hefur frelsi til að ráðstafa eigin tíma og finna framtaki sínu farveg. Gildi trúarinnar stuðla á móti að samheldni sem þarf til að standast þau ófyrirsjáanlegu áföll sem tíminn færir fyrr eða síðar.

Hrunstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lét fram fara þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að efnisatriðum nýrrar stjórnarskrár, þar á meðal tillögu um að fella burt ákvæði um þjóðkirkjuna. Sú tillaga var felld enda skammsýn. Áfram hefur þó trosnað sambandið milli ríkis og kirkju og æ minna fer fyrir kirkjunni sem afli í þjóðfélaginu.

Snúa þarf af þeirri braut og gera kirkjunni aftur kleift að temja börnum hin þjóðlegu kristnu gildi sem eru sá þjóðararfur sem heldur samfélaginu saman, því það frelsi og framtak einstaklingsins sem sjálfstæðisfólk trúir á nýtur sín best í samheldnu samfélagi.

Höfundur er verkfræðingur.

Höf.: Elías Elíasson