Eftirlit Aukinn viðbúnaður var hjá lögreglunni í fyrrinótt í miðbænum.
Eftirlit Aukinn viðbúnaður var hjá lögreglunni í fyrrinótt í miðbænum. — Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson
Hópslagsmál brutust út að kvöldi laugardags og stunguárás gerð á Ingólfstorgi með þeim afleiðingum að tveir voru fluttir á sjúkrahús. Báðir tveir hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi en mildi þykir að ekki hafi farið verr, að mati lögreglu

Hópslagsmál brutust út að kvöldi laugardags og stunguárás gerð á Ingólfstorgi með þeim afleiðingum að tveir voru fluttir á sjúkrahús.

Báðir tveir hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi en mildi þykir að ekki hafi farið verr, að mati lögreglu. Annar þeirra var stunginn í þrígang en hinn barinn í höfuðið með kylfu. Upphaflega voru tíu handteknir í tengslum við stunguárásina og þrír í tengslum við hópslagsmál sem áttu sér stað í kjölfarið. Öllum hafði verið sleppt úr haldi í gær.

Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, kvaðst ekki geta veitt upplýsingar um hvort tengsl væru á milli hópanna tveggja en sagði að það væri eitt af því sem lögreglan hefði til skoðunar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með aukinn viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur í fyrrinótt vegna árásanna. Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri sagði í samtali við mbl.is í gær að nóttin hefði verið tiltölulega róleg og engin alvarleg atvik hefðu átt sér stað. Óskar lögreglan eftir myndefni þeirra sem áttu leið um Ingólfstorg í Reykjavík á föstudagskvöldið.

„Tilkynning um líkamsárásina barst lögreglu kl. 22.57, en þá var nokkuð af fólki á ferli á svæðinu. Því er ekki ósennilegt að myndefni af atburðarásinni, eða hluta hennar, sé að finna í símum einhverra,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Eru hinir sömu beðnir að senda upplýsingar á abending@lrh.is og gefa þar upp nafn sitt og símanúmer. Lögregla hafi þá samband við viðkomandi.

Lögreglan segir að málið sé umfangsmikið en rannsókn miði þó vel.