Ingibjörg Gísladóttir
Undarlegur stríðsæsingur hefur gripið kjörna leiðtoga vora – á landi sem hefur ekki einu sinni her. Styðja skal Úkraínumenn til sigurs gegn Rússum, í stríði sem hefur aldrei verið vinnanlegt, og úkraínsku þjóðinni blæðir. Á netinu má sjá fjölmörg myndbönd af ófúsum drengjum er leiða skal til slátrunar í sprengjuregni Rússa og af mæðrum þeirra að reyna að koma í veg fyrir að þeir séu teknir – feður þeirra kannski löngu fallnir.
Sigur á Rússum þýðir kjarnorkustyrjöld. „Yes, he would“ var haft eftir þjóðaröryggisfulltrúanum Fionu Hill í Politico 28. feb. 2022, sem svar við hvort Pútín myndi beita kjarnorkuvopnum ef hann teldi sig standa frammi fyrir því að tapa stríðinu, og Avril Haines, sem var forveri Tulsi Gabbart hjá leyniþjónustu BNA, tók í sama streng í öldungadeild BNA 10. maí 2022. Til allrar hamingju krefst appelsínugulur maður í BNA þess að fá að koma á friðarsamningum.
Sá maður segir að Úkraínustríðið sé Úkraínumönnum sjálfum að kenna, en hinn virti háskólaprófessor John Mearsheimer kenndi BNA um ástandið í grein í Foreign Affairs, málgagni stjórnmálaelítunnar, 2014 og hefur gert síðar. Hvernig þá, spyrja menn. Réðst ekki Pútín í skyndilegu geðvonskukasti inn í Úkraínu 24. feb. 2022? Nei, haldi menn það þá hafa þeir ekkert fylgst með.
Eftir að Sovétið liðaðist í sundur hóf Bill Clinton fljótlega útþenslu NATO og G.W. Bush hélt þeirri áætlun áfram en árið 2007 fannst Pútín nóg komið, eins og lesa má (í boði Wikileaks) í skeyti frá William J. Burns, þáverandi sendiherra BNA í Rússlandi, en skeytið frá 2008 bar yfirskriftina „Nyet means nyet“ og var um að Rússar höfnuðu alfarið inngöngu Georgíu og Úkraínu í NATO. Samt tilkynnti NATO síðar sama ár (Bucharest Memorandum) að til stæði að bæði löndin gengju í NATO og í framhaldinu réðust Rússar inn í Georgíu en Úkraína hætti við aðild.
Hoppum nú til valdaránsins í Kíev 2014 er forseta hliðhollum Rússum var bolað frá völdum. Á myndbandi frá sama ári má sjá öldungadeildarmanninn Chris Murphy stæra sig af því að Obama-stjórnin hefði hjálpað til við stjórnarskiptin og enn má finna hjá Guardian og BBC útprentun af samtali Victoriu Nuland við Geoffrey Pyatt þar sem hún bollalagði hver ætti að taka við stjórnartaumunum í Úkraínu eftir Euromaidan („Fuck the EU“-símtalið).
Næstu árin átti stjórn Úkraínu í stríði við íbúa austurhéraðanna sem þrátt fyrir Minsk I og II fengu ekki sjálfstjórn, enda viðurkenndi frú Merkel í viðtali við ZEIT nr. 51/22 að Minsk-„friðarsamningarnir“ hefðu bara átt að kaupa Úkraínu tíma til að styrkjast hernaðarlega.
Samkvæmt Helsinkisáttmálanum frá 1975 (enn í gildi hjá ÖSE) mega ríki í fyrsta lagi ekki skipta sér af innanríkismálum annarra ríkja, eins og BNA gerði, og í öðru lagi ekki mismuna íbúunum, eins og Úkraínumenn gera með því að banna með lögum frá 2019 notkun rússnesku í skólum og öðrum opinberum stofnunum.
Eftir formlega innlimun Krímskaga 2014, sem Katrín mikla lagði reyndar undir Rússland 1783, skellti stjórn Obama viðskiptahindrunum á Rússa og voru þeir jaðarsettir í hinum vestræna heimi og t.d. ekki boðið á 75 ára afmælishátíð D-dagsins 2019, þrátt fyrir að Sovétið hefði misst 27 milljónir manna í baráttunni gegn Hitler.
NATO hélt áfram að pressa á inngöngu Úkraínu og Georgíu, ítrekaði það í júlí 2021 og skrifaði undir gagnkvæman varnarsamning við Úkraínu 31. ágúst 2021 (US-Ukraine Strategic Defense Framework). Einnig setti NATO upp í Rúmeníu MK41Aegis-skotpalla, sem geta skotið Tomahawk-flaugum með kjarnaoddi 2.400 km leið, og skipulagði byggingu eins slíks í Póllandi. Úkraínskir hermenn fengu herþjálfun hjá NATO, jafnvel nýnasistarnir. Á síðasta ári mátti þó lesa á Ynetnews og fleiri miðlum að Þjóðverjar hefðu sent sjö úkraínska hermenn heim fyrir að vera með merki nasista.
Stríðið hófst í raun fyrir 24.2. Rússar höfðu raðað upp skriðdrekum við landamærin og ÖSE skilaði skýrslu 21.2. 2022 um 2.158 ný brot á vopnahléssamkomulaginu, þar af 1.073 sprengingar í Luhansk. Stríðið var þá í raun hafið. Raddir um að koma mætti í veg fyrir þetta skelfilega stríð heyrðust ekki eða voru kæfðar.
Skömmu fyrir innrásina (skv. grein í Wall Str. Journal) hitti Olaf Scholz Selenskí í München og lagði Scholz til að Úkraína lýsti yfir hlutleysi, þ.e. afþakkaði NATO-aðild, en Selenskí hafnaði því og sagði Pútín ekki treystandi – hið sama sagði hann á fundi með Trump nýverið, sem fékk Trump til að efast um að hann vildi nokkra friðarsamninga.
En hvað þarf til að semja, og hvað sættir Pútín sig við? Við vitum að hann vill ekki NATO-aðild Úkraínu, ekki að Rússum sé útrýmt þar og ekki Aegis-skotpalla nærri Rússlandi. Sem sagt öryggi og frið. Er það til of mikils mælst?
Höfundur er úr Skagafirði.