Andrea Sigurðardóttir
andrea@mbl.is
Sá hluti trjáa í Öskjuhlíð sem út af stóð til þess að unnt yrði að opna austur-vestur-flugbraut Reykjavíkurflugvallar hefur verið felldur.
Gangi allt eftir verður flugbrautin opnuð á miðnætti í kvöld.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er trjáfellingu lokið og á laugardag voru teknar drónamyndir af svæðinu. Heimildir blaðsins herma að Isavia Innanlandsflugvellir, dótturfélag Isavia, fari yfir myndefnið í dag. Þannig verður gengið úr skugga um að öll þau tré sem sköguðu upp í svokallaðan VSS-aðflugsflöt eða áttu 50 cm eða minna í að ná upp í flötinn hafi verið felld.
Staðfesti myndefnið að aðflugsflöturinn teljist nú hindranalaus kemur það í hlut Samgöngustofu að aflétta tilskipun um lokun austur/vestur-flugbrautarinnar. Í kjölfarið mun Isavia ANS senda tilkynningu til flugmanna um opnun brautarinnar sem tekur þá gildi á miðnætti þess dags sem hún er send.
Samkvæmt heimildum blaðsins standa vonir til þess að tilskipun um lokun verði aflétt í dag og flugbrautin verði þá formlega opnuð nú á miðnætti.
Ekki látið liggja
Þórhildur Elín Elínardóttir samskiptastjóri Samgöngustofu vildi ekki fullyrða neitt um að stofnunin gæti afgreitt málið samdægurs, það færi til dæmis eftir því hvenær dags upplýsingarnar bærust. Ekki stæði þó á Samgöngustofu að vinna málið eins hratt og kostur væri.
„Þetta verður ekki látið liggja, þetta er forgangsmál hjá okkur.“
Flugbrautinni var lokað 8. febrúar síðastliðinn. Jón Gunnar Jónsson forstjóri Samgöngustofu sagði ákvörðunina hafa verið tekna á grundvelli nýs áhættumats Isavia Innanlandsflugvalla sem sýndi að trjágróður ógnaði flugöryggi.