Bessastaðir Athygli vakti að ríkisstjórnin lét ekki mynda sig á tröppum Bessastaða, eins og hefð er fyrir þegar ráðherraskipti verða hjá ríkisstjórnum.
Bessastaðir Athygli vakti að ríkisstjórnin lét ekki mynda sig á tröppum Bessastaða, eins og hefð er fyrir þegar ráðherraskipti verða hjá ríkisstjórnum. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Ingi Kristinsson var skipaður mennta- og barnamálaráðherra í gær af Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á ríkisráðsfundi. Var hann skipaður á seinni ríkisráðsfundi gærdagsins, en á þeim fyrri veitti forseti Ásthildi Lóu Þórsdóttur lausn frá hinu sama ráðherraembætti

Guðmundur Ingi Kristinsson var skipaður mennta- og barnamálaráðherra í gær af Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á ríkisráðsfundi. Var hann skipaður á seinni ríkisráðsfundi gærdagsins, en á þeim fyrri veitti forseti Ásthildi Lóu Þórsdóttur lausn frá hinu sama ráðherraembætti.

Eins og kunnugt er sagði Ásthildur Lóa af sér sem mennta- og barnamálaráðherra í kjölfar þess að Rúv. sagði frá því að hún hefði átt barn með 16 ára táningspilti þegar hún var sjálf 22 ára.

Guðmundur Ingi sagði það leggjast vel í sig að taka við embættinu en hann hefði þó viljað gera það við betri aðstæður.

„Ég vil senda kærleikskveðju til hennar og fjölskyldu hennar. Því miður, þá er leitt að þetta skuli bera að svona en hún hefur verið með mörg góð málefni í gangi og ég mun taka við þeim og reyna að koma þeim áfram og líka öllum þeim góðu málefnum sem þessi ríkisstjórn er að berjast fyrir.“