Guðmundur Ingi Kristinsson
Guðmundur Ingi Kristinsson
Guðmundur Ingi Kristinsson, nýr mennta- og barnamálaráðherra, fæddist í Reykjavík 14. júlí 1955. Hann er sonur þeirra Kristins Jónssonar og Andreu Guðmundsdóttur sem bæði eru látin. Eiginkona Guðmundar Inga er Hulda Margrét Baldursdóttir og eiga þau fjóra syni

<autotextwrap>

Guðmundur Ingi Kristinsson, nýr mennta- og barnamálaráðherra, fæddist í Reykjavík 14. júlí 1955. Hann er sonur þeirra Kristins Jónssonar og Andreu Guðmundsdóttur sem bæði eru látin. Eiginkona Guðmundar Inga er Hulda Margrét Baldursdóttir og eiga þau fjóra syni. Með fyrri konu sinni, Ingu Dóru Jónsdóttur, átti Guðmundur Ingi tvo syni en annar þeirra er látinn.

Guðmundur Ingi er með gagnfræðapróf frá trésmíðadeild Ármúlaskólans í Reykjavík. Seinna nam hann skrifstofustörf, vefsíðugerð og myndvinnslu í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum.

Hann var lögreglumaður í Grindavík og Keflavík á árunum 1974-1980 og starfaði eftir það í versluninni Brynju við Laugaveg í Reykjavík frá 1981-1993. Á árunum 2004-2012 sat Guðmundur Ingi í trúnaðarráði VR og var fulltrúi þess á ársfundum Alþýðusambands Íslands.

Hann var kjörinn á Alþingi fyrir Flokk fólksins í Suðvesturkjördæmi árið 2017 en var ári fyrr kjörinn varaformaður flokksins. Frá upphafi þingsetu sinnar hefur Guðmundur Ingi verið þingflokksformaður flokksins og setið í velferðarnefnd þingsins en hann tók við formennsku nefndarinnar fyrr á þessu ári. Þá hefur hann sinnt margvíslegum verkefnum á sviði norrænnar samvinnu.

Í umræðum á Alþingi hefur Guðmundur Ingi mjög látið velferðarmál til sín taka, svo og réttindi þeirra sem höllum fæti standa. Ræða hans frá eldhúsdegi þingsins í júní á síðasta ári er ef til vill dæmi um áherslur þingmannsins, sem nú er óvænt orðinn ráðherra:

„Heilbrigðiskerfið er á ystu nöf. Þú ert númer hvað á bið, eða ertu ekki kominn á biðlista yfirhöfuð þar sem þú náðir ekki að hringja inn á réttum tíma? Eitt barn á biðlista er einu barni of mikið. Börn eiga skýlausan rétt á nauðsynlegri þjónustu og það strax. Geðheilsa barna og ungmenna á alltaf að vera í forgangi. Börn eru í sárafátækt, eldri borgarar eru í sárafátækt, atvinnulausir og láglaunafólk er í sárafátækt. Er ekki kominn tími á sanngirni og réttlæti handa öllum, að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti óskoraðra mannréttinda? Það á að vera númer eitt á forgangslistanum að börnum sé tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“