Stjórnarsamstarf Hanna Katrín segir að það hafi ekki verið mistök að fara í ríkisstjórn með Flokki fólksins.
Stjórnarsamstarf Hanna Katrín segir að það hafi ekki verið mistök að fara í ríkisstjórn með Flokki fólksins. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Tveir ríkisráðsfundir voru haldnir í röð í gær þar sem Halla Tómasdóttir forseti Íslands veitti Ásthildi Lóu Þórsdóttur lausn sem mennta- og barnamálaráðherra og Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn í ríkisstjórnina í stað hennar

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Tveir ríkisráðsfundir voru haldnir í röð í gær þar sem Halla Tómasdóttir forseti Íslands veitti Ásthildi Lóu Þórsdóttur lausn sem mennta- og barnamálaráðherra og Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn í ríkisstjórnina í stað hennar.

Blaðamaður Morgunblaðsins var á vettvangi og náði að ræða stuttlega við ráðherra.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kvaðst aðspurð spennt fyrir frekara samstarfi við Guðmund Inga. Sagði hún að ekki væri gert ráð fyrir stefnubreytingu innan málaflokksins heldur að unnið yrði frá „sterkum stjórnarsáttmála“.

Hefur þetta mál haft áhrif á stjórnarsamstarfið?

„Þetta hefur auðvitað áhrif á okkur. Þetta er manneskja sem við unnum vel með og auðvitað tekur það á að kveðja góðan kollega. En það er góð tilfinning inni í ríkisstjórninni.“

Á fundinum afhenti Halla Tómasdóttir ráðherrum ríkisstjórnarinnar kærleiksspil til stuðnings minningarsjóði Bryndísar Klöru Birgisdóttur en hún lést í kjölfar stunguárásar á menningarnótt í miðbæ Reykjavíkur á síðasta ári.

„Við fengum öll riddara kærleikans frá forsetanum og ég held að þið hefðuð líka gott af því,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og vísaði til blaðamanna sem stóðu á tröppum Bessastaða.

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra sagði það hafa verið dapurlegt að kveðja Ásthildi Lóu, „en við erum að fá mjög traustan og yndislegan mann í staðinn sem mun halda áfram því góða verki sem Ásthildur Lóa var búin að hrinda af stað“.

Hún sagði ákvörðunina um Guðmund Inga Kristinsson sem nýjan ráðherra hafa legið ljósa fyrir.

Hefur Guðmundur einhverja reynslu af menntamálum?

„Guðmundur hefur mikla reynslu af öllum málum. Hann hefur verið á Alþingi Íslendinga síðan 2017.“

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði ríkisstjórnina samheldnari en nokkurn tímann áður. Hún er ekki sammála því að mikið hafi gengið á að undanförnu.

Nú hefur mikið gengið á, sérstaklega í tengslum við Flokk fólksins, síðan ríkisstjórnin byrjaði. Heldurðu að það hafi verið mistök að fara í stjórn með þeim?

„Sannarlega ekki, sannarlega ekki. Ég er bara ekki sammála þér endilega að það hafi mikið gengið á. Það hefur ekki truflað ríkisstjórnarsamstarfið og sannarlega ekki það verkefni sem við vinnum að. Þannig að við erum bara áfram sterk.“

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson