Aðalsteinn Gunnarsson
Áfengisiðnaðurinn græðir svo gríðarlega mikið á vímuefnasölu krabbameinsvaldandi vöru að hann getur leyft sér undirboð til að auka söluna. Þessi tegund markaðssetningar snýst um að bjóða vörur sínar á undirverði til að ná til neytenda og gera þá háða. Áfengi er ávanabindandi og veldur áfengisröskun 7%-14% þeirra sem byrja að nota það. Ég fer ekki hérna ofan í allar afleiðingar áfengisnotkunar en þær hindra velferð og þróun hvar og hvernig sem það er notað.
Þokkaleg sátt hefur ríkt um áfengiseinkasölufyrirkomulagið hjá ÁTVR. Allar opinberar stofnanir á alþjóðavísu sem tengjast lýðheilsu mæla með takmörkuðu aðgengi, háu verði og að markaðssetning sé óleyfileg. Horft er til forvarna okkar á Íslandi sem góðrar aðferðar sem ætti að taka upp víðar í heiminum. Áfengisiðnaðurinn er óargadýr (predator) í samfélagi okkar, þó sérstaklega gangvart börnum og ungmennum sem eiga skilyrðislaust að vera laus við þrýsting um að byrja að nota vímuefni.
Heinemann-fyrirtækið er þekkt fyrir ágenga markaðssetningu og vílar ekkert fyrir sér að ná fram hámarksgróða fyrir hluthafa sína, ýtrustu sérhagsmuni sína. Það er ekkert eðlilegt að ýta undir áfengisnotkun með þessum hætti. Það er sérstaklega óeðlilegt að börn og ungmenni þurfi að ganga í gegnum Þrýstingsstræti, samanber Pusher S í Kristjaníu, með eða án forráðamanna, á leið sinni til og frá heimalandi sínu.
Það er okkar að standa hér á móti þessari markaðssetningu til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir 2030 og draga úr notkun áfengis á heimsvísu, líka hér á landi.
Höfundur er framkvæmdastjóri IOGT á Íslandi.