Fundur Um 200 manns mættu til miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins um helgina. Staðan var greind og stefnan til næstu framtíðar mótuð.
Fundur Um 200 manns mættu til miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins um helgina. Staðan var greind og stefnan til næstu framtíðar mótuð. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Almenningur á að geta treyst því að ráðamenn fari með vald sitt af ábyrgð og í samræmi við hagsmuni þjóðar. Endurteknar fréttir af framferði forystufólks í 100 daga ríkisstjórn gefa hins vegar tilefni til að álykta að ekki sé rétt haldið á málum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Almenningur á að geta treyst því að ráðamenn fari með vald sitt af ábyrgð og í samræmi við hagsmuni þjóðar. Endurteknar fréttir af framferði forystufólks í 100 daga ríkisstjórn gefa hins vegar tilefni til að álykta að ekki sé rétt haldið á málum. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar á miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn var um helgina. Þar fór fólk í forystusveit flokksins yfir stjórnmálaviðhorfin og verkefni næstu framtíðar.

Sorgarferli fylgdi úrslitum

„Það er engin launung að úrslit síðustu kosninga voru okkur erfið. Mörg okkar upplifðu sorgarferli. Við megum hins vegar ekki láta það slá okkur út af laginu,“ sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni og boðar nýja sókn Framsóknarflokksins. Upplýst og fræðandi umræða verði þar í aðalhlutverki. Sjálfur segist formaðurinn hafa metnað og vilja til að hefja sókn svo Framsókn geti áfram verið leiðandi afl. Nú þurfi undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári að hefjast.

„Sá veruleiki að þingflokkurinn er fimm manna kallar á að við hlaupum hraðar – hvert og eitt – en líka á samheldni og liðsheild. Vinnan hefur farið vel af stað, þingmennirnir öflugir og kraftmiklir. Við lofum ykkur því að liggja hvergi á liði okkar,“ sagði Sigurður Ingi um verkefnin sem fram undan væru.

Um stöðuna í efnahagsmálum minnti formaður Framsóknarflokks á að nú væru í höfn kjarasamningar fyrir nær allan vinnumarkaðinn. Slíkt gefi einstakt tækifæri til að viðhalda stöðugleika og skapa aðstæður fyrir lækkun vaxta.

„Við höfum áhyggjur af því að ríkisstjórnin boðar auknar álögur á lykilatvinnugreinar, sérstaklega ferðaþjónustu og sjávarútveg. Óljósar fyrirætlanir um skattahækkanir og íþyngjandi reglugerðir geta haft neikvæð áhrif á byggðaþróun, fjárfestingu og stöðu ríkisfjármála. Vegferð ríkisstjórnarinnar í málefnum landbúnaðar – í boði sérhagsmuna Viðreisnar – vekur undrun þegar nær væri að horfa til þess að tryggja fæðuöryggi og eðlilegt rekstrarumhverfi bænda,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.

ESB-viðræður eru svik við kjósendur

Í stjórnmálaályktun sem miðstjórn Framsóknar samþykkti á fundi helgarinnar eru utanríkismál sérstaklega í brennidepli. Hafnað er þeirri vegferð núverandi ríkisstjórnar að hefja á ný aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sá leiðangur sé svik við íslensku þjóðina eftir yfirlýsingar flokkanna fyrir kosningar. Framsókn leggur áherslu á sjálfstæði þjóðarinnar og full yfirráð yfir auðlindum landsins. Einnig að Íslendingar séu virkir þátttakendur í alþjóðasamvinnu og vinni að áherslu á frið, jafnrétti og virðingu fyrir alþjóðalögum, meðal annars á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson