Gunnlaugur Sigurðsson
Henry Alexander Henrysson „siðfræðingur“ hefur gefið út leiðbeiningar um hvað ráðherra barnamála má ekki hafa aðhafst í ástum fyrir 35 árum eða svo. Það er ekki við hann að sakast að þessar leiðbeiningar hefðu átt að koma fyrr, eða áður en konu nokkurri datt í hug að gerast einmitt barnamálaráðherra eftir að hafa fyrir nefndum 35 árum átt í ástum við 16 ára gamlan pilt, sjálf á þrítugsaldri, og fætt honum son í þakklætisskyni, má segja. Siðfræðingurinn vissi því miður ekki um þessa myrku fortíð ráðherrans, myrku á mælikvarða þeirra siðfáguðu tíma í Íslandssögunni þegar konum var maklega drekkt fyrir minni siðferðisbresti en þennan. Haft er eftir siðfræðingnum að hann muni ekki eftir máli „þar sem minni vafi lék á um hvort ráðherra ætti að segja af sér eður ei, það hafi verið það eina í stöðunni. Barnamálaráðherra hafi verið búinn að missa allan trúverðugleika í embætti, best hefði verið að taka ekki við embættinu“.
Það var sannarlega óheppilegt að konan skyldi ekki hafa skriftað fyrir siðfræðingnum áður en hún mætti með annars sjaldgæft bros á vör á ríkisráðsfund á Bessastöðum að taka við þessu mikilvæga embætti. Siðfræðingurinn hefði getað útskýrt fyrir henni, þarna í skriftastólnum, að til þess að varðveita „trúverðugleika“ í embætti mætti maður ekki hafa átt ástarfund, 22 ára, með 16 ára gömlum pilti fyrir 35 árum. Trúverðugleiki í embætti barnamálaráðherra fengist einungis með því að hafa fylgt strangri siðfræðilegri forskrift í ástum sínum frá fæðingu, má skilja, og svo heppilega vill til að þótt illu heilli sé búið að afnema Stóradóm og skriftir hafi aflagst með afhöfðun Jóns Arasonar fyrir bráðum 500 árum, þá er risið upp siðferðilegt dómsvald, sem af lærdómi sínum í siðum getur dæmt allan trúverðugleika af konu sem átti áður nefndan ástarfund 22 ára gömul með 16 ára gömlum pilti fyrir 35 árum.
Það mátti ekki tæpara standa. Af siðferðilegri lausung okkar höfðum við einfaldlega samfagnað því yndislega lífi sem þessi atburðarás hafði getið af sér, því sjálf erum við ekki vön að vanþakka okkar eigið líf þótt það hafi kannski ekki kviknað með lýtalausum hætti að mati siðgæðisvarða þess tíma, sem að jafnaði voru sálufélagar Gróu gömlu á Leiti, svona áður en lærður siðfræðingur tók að sér þennan málaflokk í hjáverkum. Jafnvel vorum við farin að halda að einmitt slík lífsreynsla konu kynni að gera hana hæfari til að sinna málefnum einmitt barna í samnefndu ráðuneyti. En Guði sé þökk, liggur manni við að segja, að siðferðilega dómsvaldið í þessu máli er ekki lengur í höndum okkar almennra áhugamanna um rétt og rangt heldur skuli kominn fram siðfræðingur sem ekki dæmir út frá því sem honum einfaldlega finnst, líkt og við hin, heldur á grunni virðulegra fræða. Guð eða siðfræðingurinn forði okkur frá því að finnast, allt með öllu, jafnvel bara krúttleg þessi litla ástarsaga. Í siðfræði er ekki pláss fyrir slíkar hugrenningar og siðfræðingur er vitaskuld hafinn yfir slíkt.
Ég geri annars ráð fyrir að nú veiti siðfræðingurinn fólki leiðsögn í ástum þess, svo það með hegðun sinni og jafnvel hugsun gerist ekki, af siðfræðilegri fákunnáttu sinni, brotlegt við þann sárt saknaða Stóradóm sem siðfræðingurinn hefur nú blessunarlega vakið upp frá dauðum.
Höfundur er leikskólastjóri.