Síðasta vika var ein af mörgum snúnum fyrir ríkisstjórnina sem nú hefur verið við völd í rúma þrjá mánuði.
Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, ein valkyrjanna, mætti til Bessastaða á ríkisráðsfund sagði hún daginn vera góðan.
Var hann það? Virkilega?
Þingmaður sem áður var talinn áhugalítill um að taka við ráðherraembætti hefur nú tekið við því sem losnaði.
Uppi eru réttmætar vangaveltur um með hvaða hætti forsætisráðherra höndlaði málið og ráðherrar hafa orðið tvísaga um tímalínu þess og það hvernig upplýsingar fóru á milli þeirra.
Í því samhengi er engin ástæða til að leggja minni trúnað á yfirlýsingu fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra en annarra sem reynt hafa að teikna tímalínuna upp.
Það er margt áhugavert sem ekki hefur fengist botn í á tveimur blaðamannafundum sem forsætisráðherra hefur boðað til síðan RÚV fjallaði um málið.
Valkyrjurnar þrjár áttu fund saman með ráðherranum, sem nú er orðinn fyrrverandi.
Forsætisráðherra lagði mikla áherslu á að þær hefðu rætt í sameiningu alla þá kosti sem uppi voru, niðurstaðan varð að ráðherra segði af sér. Niðurstaða sem ráðherrann fyrrverandi hefur sjálfur sagt að sér þyki ósanngjörn.
Hverjir voru hinir valkostirnir? Og akkúrat hvers vegna var ráðherranum ýtt í farveg afsagnar?
Ég ætla ekki að dvelja við efnisatriði þess persónulega máls sem rætt hefur verið á undanförnum dögum, en það er eitthvað við meðhöndlun valkyrjanna sem skilur mann eftir með óbragð í munni.
Ef forsætisráðherra taldi alvarleika málsins þannig vaxinn að það kallaði á tafarlausa afsögn ráðherra, hvers vegna var málið ekki skoðað? Það vantar ekki leiðir að því marki að glöggva sig á málavöxtu, aðrar en að eiga fund með þeim sem eftir honum óskaði.
Eina ákvörðunin sem virðist hafa verið tekin í málinu, utan þess að ýta á um afsögn ráðherrans, er að hafna fundi með þeim sem eftir honum óskaði.
Menn þekkja það úr stjórnmálum að yfirvegun og myndugleiki skipta sköpum þegar flókin mál rekur á fjörur þeirra sem með valdið fara.
Eins og er virðist reynsluleysi og skortur á myndugleika helst hafa einkennt valkyrjurnar í meðhöndlun sinni á málinu öllu.
Hvað því veldur er vandi um að spá, í öllu falli virðast konur ekki hafa verið konu bestar undanfarna daga.
Valkyrjur nútímans virðast velja fleirum en stöllur þeirra forðum sinn hinsta dag.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is