Margrét Anna Lapas
Umgjörð ökunáms er ekki sanngjörn. Árgangar eiga að upplifa og vinna að verkefnum eins og að ná bílprófi á sama tíma. Árgangar byrja á sama tíma í skóla burtséð frá afmælisdegi, taka sömu próf þar, eru rukkaðir um aðgangseyri eftir fæðingarári, keppa í flokkum t.d. í sundi eftir fæðingarári og svo mætti lengi telja. Framan af er t.d. mikill munur á líkamlegum þroska en það virðist engu máli skipta.
Þegar hins vegar kemur að ökunámi eru ungmenni dregin í dilka. Þetta er hrópandi misrétti. Ég er ein af þeim sem hafa alla sína tíð mátt þola mismunun út frá fæðingardegi sem er 22. desember. Það að ungmenni þurfi að bíða til afmælisdagsins sjálfs en ekki 1. janúar (allur árgangurinn saman) þangað til þau mega byrja í æfingaakstri, og annað ár þangað til þau mega þreyta sjálft bóklega og verklega prófið, er alls ekki sanngjarnt. Staðan er sú að ég má ekki hefja ökunám fyrr en allt að 11 mánuðum á eftir vinkonum mínum sem ég hef þó þurft að standa jafnfætis í öllu öðru opinberu námi og gjaldtöku.
Yfirvöld verða að skoða þetta mál með jafnræðisgleraugum. Á 16. ári eru skólafélagar mínir alls ekki allir þroskaðri og betur til þess fallnir en ég að hefja ökunám. Við sem erum fædd sama ár erum jafn þroskuð til að takast á við ökunám og aðrar áskoranir eins og vinnu, nám og félagslíf. Margir myndu segja að það væri ekki mikið sem munar og á endanum á það ekki eftir að skipta máli. Ég er mjög ósammála því vegna þess að ég á ekki eftir að mega keyra í skólann þegar ég byrja í menntaskóla. Það er ekki heldur hálft ár sem ég þarf að þrauka í hörmulega strætókerfinu okkar eins og vinkonur mínar þurfa einungis að gera. Ég þarf að dúsa í strætó helminginn af menntaskólaárunum bara vegna þess að ég fæddist ekki í janúar heldur í desember.
Það byrja allir að hlakka til á sama tíma og að láta ungmenni bíða eftir þessum tímamótum er augljóslega ósanngjarnt. Þess vegna legg ég til að í stað þess að ungmenni sem eiga afmæli í lok ársins verði að bíða alla 12 mánuðina þangað til þau mega gera það sama og þau sem fæðast í janúar, þá öðlist allur árgangurinn sama tækifæri í upphafi árs. Það minnkar biðina umtalsvert, jafnræðis er gætt og allir ljúka réttindum á árinu ef þeir kjósa það og hafa náð tilskildum prófum og færni. Með þessu móti gæta yfirvöld jafnræðis í þessum málaflokki. Þetta er ekki flókið mál en eins og er, þá eru reglurnar afar ósanngjarnar.
Höfundur er nemandi í 10. bekk.