Birta Hannesdóttir
birta@mbl.is
Rekstrarfélag Kvikmyndaskóla Íslands er farið í gjaldþrotameðferð. Fundað var um framhald skólans í mennta- og barnamálaráðuneytinu og háskóla-, menningar- og nýsköpunarráðuneytinu í gær. Enn er beðið frekari upplýsinga um framtíð skólans.
Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, sagði í tölvupósti til starfsmanna að um áfall væri að ræða. Taldi hún, þar til á sunnudag, að aldrei kæmi til þess að skólinn yrði gjaldþrota.
Fyrstu námskeið Kvikmyndaskólans voru haldin árið 1992. Skólastarfið var fært á háskólastig árið 2008.
Stofnandi skólans var Böðvar Bjarki Pétursson kvikmyndagerðarmaður.
Síðustu mánuði hafa staðið yfir viðræður á milli skólans og háskóla-, menningar- og nýsköpunarráðuneytis sem og mennta- og barnamálaráðuneytis um yfirfærslu málefna skólans úr síðarnefnda ráðuneytinu yfir í það fyrrnefnda.
Fundað verður aftur um framtíð skólans í dag og staðan metin í kjölfarið.
„Kvikmyndaskóli Íslands starfar á fjórða hæfniþrepi framhaldsskólastigs og er því ekki á forræði menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins. Af þeim sökum getur ráðuneytið ekki stigið inn í þetta mál án aðkomu mennta- og barnamálaráðuneytisins. Ég tel þó mikilvægt að kappkostað verði að finna lausn fyrir nemendur við skólann,“ segir Logi Már Einarsson háskóla-, menningar- og nýsköpunarráðherra í skriflegu svari til Morgunblaðsins.
Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra sagðist ekki hafa tök á að tjá sig um málið þegar Morgunblaðið óskaði eftir viðtali.
Í tölvupóstinum sem Hlín sendi starfsfólki skólans í gær segir að allt kapp sé lagt á að halda starfsemi skólans gangandi. Er starfsfólk hvatt til þess að gefa forsvarsmönnum tíma til að greiða úr málum en forsvarsmenn lýsa á sama tíma skilningi á þeirri erfiðu stöðu sem starfsfólkið hefur verið sett í.