40 ára Andri er uppalinn í Grafarvogi en býr með konu sinni í Fossvogi. Hann er tæknistjóri hjá NPA miðstöðinni. „NPA stendur fyrir notendastýrð persónuleg aðstoð. NPA er þjónusta sem gerir okkur, fötluðu fólki, kleift að taka stjórn á eigin lífi og aðstoð. Við stýrum því hvernig aðstoðin er skipulögð og svo framvegis.“
Andri hefur alltaf tekið mikinn þátt í hagsmunabaráttu fatlaðs fólks. Hann hefur verið í ungmennastarfi bæði í Sjálfsbjörg – Landssambandi hreyfihamlaðra og ÖBÍ. Hann var varaformaður Sjálfsbjargar LSH 2008-2014 og kom einnig að stofnun NPA miðstöðvarinnar 2010.
„Ég byrjaði að vinna þar haustið 2018 sem NPA-ráðgjafi. Ég ákvað að skella mér í kerfisstjóranám haustið 2022 og snemma árið 2023 tók ég við sem tæknistjóri hjá NPA miðstöðinni og sé núna um allt tæknilegs eðlis hjá miðstöðinni ásamt innleiðingu á nýjum kerfum og svo framvegis. Tölvur og tækni hafa alltaf verið mér nærri og það er ótrúlega gaman að aðstoða fólk í gegnum tæknina.“
Andri hefur mjög gaman af því að ferðast. „Við hjónin ásamt mömmu og pabba ætlum til Filippseyja í maí og vera með fjölskyldu konunnar minnar en hún er frá Filippseyjum. Ég fór þangað síðast 2022, ótrúlega skemmtilegt land með góðu fólki. Einnig ætlum við að fara í smá Evrópureisu í ágúst með einum af mínum bestu vinum. Við förum til Þýskalands, Austurríkis og Ítalíu og ég hlakka mikið til að komast á Alpasvæðið aftur.“
Fjölskylda Kona Andra er Eralyn Buenafrancisca, f. 1989, verkefnastjóri í HÍ. Foreldrar Andra eru Valgeir Gíslason, f. 1957, viðskiptafræðingur og sjálfstætt starfandi, og Pálína Sveinsdóttir, f. 1955, vann í Landsbankanum, búsett í Grafarvogi. Systir Andra er Dagný, f. 1990, tölvunarfræðingur og starfar hjá Símanum, búsett á Hellu ásamt maka og tveimur börnum.