Lifandi „Frásögnin er lipur og lifandi og áhorfandinn („áheyrandinn“ er kannski réttara orð) finnur allan tímann að Vilborg hefur efnið algerlega á valdi sínu,“ segir rýnir um framkomu Vilborgar á Sögulofti Landnámssetursins.
Lifandi „Frásögnin er lipur og lifandi og áhorfandinn („áheyrandinn“ er kannski réttara orð) finnur allan tímann að Vilborg hefur efnið algerlega á valdi sínu,“ segir rýnir um framkomu Vilborgar á Sögulofti Landnámssetursins. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þannig að Laxdæla er rétta valið, fyrir utan hvað hún liggur nálægt sérsviði Vilborgar.

Af sagnalist

Þorgeir

Tryggvason

Það er vafalaust byggt á hæpnum forsendum, mögulega grundvallarmisskilningi og óþarflega rómantískum hugmyndum um fortíðina, en það að setjast niður undir súð á gömlu húsi og láta endursegja sér Íslendingasögu gefur sterka tilfinningu fyrir því að komast að kjarna málsins. Hvernig sögurnar urðu til, hvernig þær fengu sitt form, hvernig þær varðveittust þangað til einhverjum hugkvæmdist, gafst ráðrúm og hafði efnis- og efnahagslegar forsendur fyrir að skrifa þær á skinn.

En það er bannað að efast um upplifanir sínar, og þetta er tilfinningin sem heimsókn á Söguloftið í Landnámssetrinu í Borgarnesi þessa dagana skilur eftir. Þar rekur Vilborg Davíðsdóttir fyrir gestum sínum hina stórbrotnu örlagasögu, Laxdælu.

Að mörgu leyti er þetta sú af hinum mikils háttar Íslendingasögum sem nýtur sín best í svona flutningi. Eða þarf í öllu falli minnsta umsköpun til að virka í beinni munnlegri frásögn. Atburðakeðjan hrein og klár. Og ekki of löng, sem gæti þvælst fyrir ef Njála væri undir. Drifkraftar hæfilega óræðir en alltaf mannlegir. Það er auðveldara að setja sig í spor og máta sig í föt Guðrúnar, Bolla og Kjartans en til dæmis Egils Skallagrímssonar. Það er líka eitthvert grundvallarraunsæi í Laxdæla sögu sem hjálpar sögumanninum, og fríar hann frá að ráðast í miklar sviðsetningar eða leikræna tilburði, sem Grettla kallar eiginlega á ef vel á að vera.

Þannig að Laxdæla er rétta valið, fyrir utan hvað hún liggur nálægt sérsviði Vilborgar, sem hefur skrifað vinsælar sögulegar skáldsögur um Auði djúpúðgu og hennar fólk, og rannsakað þennan heim í þaula. Hún stígur því á stokk með allan þann myndugleika sem þarf til að heilla gesti sína.

Og það gerir hún. Frásögnin er lipur og lifandi og áhorfandinn („áheyrandinn“ er kannski réttara orð) finnur allan tímann að Vilborg hefur efnið algerlega á valdi sínu, á sama tíma og hún er auðheyranlega ekki að fara með utanbókarlærðan texta. Allt er áreynslulaust, og afstaðan til efnisins í góðu jafnvægi milli þess að taka söguna „á orðinu“ ef svo mætti segja, og að hafa nútímalega afstöðu til þess sem gerist og hvers vegna það gerist. Hún velur líka af skarpskyggni hvenær það er viðeigandi að hafa yfir orðrétt lýsingar eða tilsvör úr varðveittum texta.

Það er líka áhugavert að finna hvað það er fullnægjandi að láta segja sér þessa sögu þrátt fyrir að vita nokkurn veginn hvað gerist og þekkja allar persónurnar þokkalega. Sennilega erum við, þó rígfullorðin séum, ekkert svo fjarskyld börnunum sem sífellt biðja um að fá lesnar fyrir sig sömu sögurnar, kvöld eftir kvöld.

Þetta vita stjórnendur Söguloftsins, þau Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir sem hafa þróað þarna einstakan stað á menningarakrinum, þar sem ein af dýpstu rótum hennar er vegsömuð og nærð.