Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Skömmu eftir að leik Íslands og Kósovó lauk í Murcia á sunnudaginn varð ljóst að karlalandsliðið í fótbolta myndi mæta Frökkum tvisvar í haust.
Frakkar lögðu Króata að velli í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar og þar með lá fyrir að þeir en ekki Króatar yrðu í riðli með Íslandi, Úkraínu og Aserbaídsjan í undankeppni HM 2026.
Eftir að hafa horft á íslenska landsliðið fá á sig fimm mörk í tveimur leikjum gegn Kósovó er það ekki beinlínis tilhlökkunarefni að sjá það glíma við Kylian Mbappé og hans félaga í september og október.
Arnar Gunnlaugsson á heldur betur krefjandi verkefni fyrir höndum við að móta gott lið fyrir undankeppnina í haust, þar sem vonast er eftir því að Ísland berjist við Úkraínu um annað sæti riðilsins og fari þar með í umspil um sæti á HM.
Hann hefur lítinn tíma til að prófa sig áfram. Arnar þarf að finna „sitt lið“ í vináttuleikjunum í Skotlandi og á Norður-Írlandi í júní og svo er komið að stóra verkefninu í september.
Landslið fær lítinn sem engan tíma til undirbúnings fyrir leiki. Að þjálfa landslið er allt annar veruleiki en að þjálfa félagslið og hitta leikmennina daglega. Því hefur Arnar fengið að kynnast.
Segja má að leikirnir við Kósovó hafi verið einu leikirnir sem Arnar fær til að vinna með leikmönnunum og átta sig á stöðunni. Í júní þarf allt að smella saman.
Nú reynir á fyrir alvöru, á bæði þjálfara og leikmenn. Arnar fær tvo leiki til að gera mannskapinn kláran fyrir haustið. Leikmennirnir fá tvo leiki til að sýna og sanna að þeir geti gert betur, miklu betur en gegn Kósovó.