Rússar beita útsmognum aðferðum til að ýta undir sundrungu og tortryggni hjá andstæðingum sínum

Rússar beita margvíslegum aðferðum í hernaði sínum á hendur Úkraínu. Ein þeirra er að dreifa misvísandi upplýsingum og lygum til að grafa undan andstæðingi sínum.

Í frétt sem birtist hjá fréttaveitu AFP í gær segir frá því að á gervifréttasíðu hafi því ranglega verið haldið fram að Volodimír Selenskí forseti Úkraínu greiði vestrænum blaðamönnum fyrir að varpa rýrð á Donald Trump forseta Bandaríkjanna. Þessi frétt hafi verið ein af mörgum og dreift í gegnum gáttir með rússneskar tengingar sem líki eftir vestrænum fréttamiðlum.

Í fréttinni kemur fram að það sé ekki tilviljun að þessum brögðum sé beitt nú þegar reynt sé að stöðva stríðið, sem staðið hefur frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir þremur árum. Rússar vilji koma óorði á Úkraínumenn og veikja traust almennings á hefðbundnum fjölmiðlum.

Á áðurnefndri frétt um Selenskí var sagt að hann notaði bandaríska skattpeninga til að borga blaðamönnunum fyrir að baktala Trump. Með fréttinni birtist mynd af bréfi sem sagt var að sent hefði verið frá skrifstofu Selenskís til úkraínska þingsins þar sem þess var kraftist að gerð yrði „áætlun“ til að búa til „neikvæða ímynd“ af Trump.

Hjá stofnuninni Newsguard er unnið að því að greina falsfréttir. Samkvæmt henni er vefsíðan þar sem fréttin um Selenskí kom fram af rússneskum rótum og tengd manni að nafni John Mark Dougan, landflótta Bandaríkjamanni sem orðinn er áróðurssnati Kremlar.

Greinin var svo birt nokkrum dögum síðar á annarri síðu, USATimes.news, sem virðist rekin með stuðningi Rússa.

Rússar gagnrýna vestræna fjölmiðla hart, en líkja þó eftir þeim til þess að auka líkurnar á því að fólk leggi trúnað á falsfréttirnar.

Vefsíður sem dreifa slíkum áróðri hafa verið með heilar sveitir manna á sínum snærum.

Finnsk-eistneski rithöfundurinn Sofie Oksanen rekur í bókinni Í sama strauminn – Stríð Pútíns gegn konum að árið 2023 gerði úkraínska netöryggislögreglan áhlaup á svokallaða bottamiðstöð þar sem dreift hafði verið rangupplýsingum um innrás Rússa. Talið var að starfsmenn miðstöðvarinnar hefðu verið hundrað. Þar fundust 150 þúsund símkort. Árið áður hafði úkraínska lögreglan upprætt 13 slíkar miðstöðvar og náð rúmlega 100 þúsund símkortum sem notuð höfðu verið til að stofna hálfa aðra milljón reikninga á samfélagsmiðlum.

Falsfréttasmiðjur Rússa eru ekki nýjar af nálinni. Ein aðferðin er að sá fræjum sundrungar hjá hreyfingum sem gagnrýna Rússa eða eru Kremlverjum ekki að skapi. Önnur er að ýta undir tortryggni hjá þeim sem fyrir eru með efasemdir um ágæti stjórnvalda. Í bók Oksnanen kemur fram að áður en kórónuveirufaraldurinn braust út lögðu rússnesk yfirvöld áherslu á að efla efasemdarhópa um bólusetningar í Bandaríkjunum og því haldið fram að það hafi átt þátt í að koma af stað mislingafaraldri.

Þeir reyna líka að sverta vestræna ráðamenn sem hafa gagnrýnt þá. Gott dæmi er Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands. Hún var kanslaraefni Græningja í kosningunum 2021 og vildi beita Rússa auknum þrýstingi í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu. Á netinu var því haldið fram að hún hefði verið vændiskona og dreift fölsuðum nektarmyndum af henni. Hæfni hennar var dregin í efa með ýmsum hætti. Fylgi hennar hrundi. Ekki er hægt að fullyrða að þessar falsfréttir hafi valdið því, en það var ætlunin með þeim.

Nú þurfa tröllaveiturnar ekki lengur heri manna til að skrifa falsfréttirnar. Nú er gervigreindin komin til skjalanna og með henni færist í vöxt að reynt sé að láta líta út fyrir að fréttir hafi birst á miðlum á borð við dagblaðið Wall Street Journal og tímaritið The Economist. Með gervigreindinni er hægt að líkja eftir orðfæri slíkra miðla og ná fram áþekkum tóni í fréttum eða búa til myndskeið þannig að erfiðara verði að greina fölsunina. Markmiðið er að fá sem flesta til að trúa bullinu og ýta undir tortryggni.

Falsfréttirnar dúkka síðan upp á félagsmiðlum undir merkjum þekktra fjölmiðla og er otað að notendum, sem líklegt er að séu ginnkeyptir fyrir þeim. Í slíku fári er erfitt að henda reiður á upplýsingum og átta sig á hvað er marktækt. Ein leið er að leita beint og milliliðalaust til fjölmiðla sem gera sér far um að forðast falsfréttirnar og stunda áreiðanlegan fréttaflutning.