Arnar Birkir Hálfdánsson var drjúgur í gærkvöldi þegar Amo vann Vinslov, 37:34, á útivelli í umspili um sæti í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik á næsta tímabili. Amo endaði í þriðja neðsta sæti deildarinnar og er í umspili við Vinslov sem lék í B-deildinni á síðustu leiktíð. Þrjá sigra þarf til að tryggja áframhaldandi veru í deildinni. Arnar Birkir skoraði sex mörk í liði Amo í gær en næsti leikur liðanna fer fram á sunnudaginn.
Nýja-Sjáland varð í fyrrinótt fimmta þjóðin til að tryggja sér sæti á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu 2026 með því að sigra Nýju-Kaledóníu, 3:0, í úrslitaleik Eyjaálfu. Áður hafði Japan krækt í HM-sæti og gestgjafaþjóðirnar þrjár, Bandaríkin, Mexíkó og Kanada, sluppu við undankeppnina. Chris Wood, fyrirliði Nýja-Sjálands og einn markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, fór meiddur af velli í stöðunni 0:0 en það kom ekki að sök.
Sænska handknattleiksgoðsögnin Kim Andersson verður aðstoðarþjálfari hjá liði sínu Ystad eftir að hann hættir sem leikmaður að yfirstandandi tímabili loknu. Þetta staðfesti félagið í gær en Andersson, sem verður 43 ára á árinu, hefur leikið með Ystad um árabil. Andersson lék fjöldann allan af landsleikjum fyrir Svíþjóð og var leikmaður hjá þýska stórliðinu Kiel frá 2005 til 2012.
Efsta deild þýska handboltans mun notast við marklínutækni á næsta tímabili. Þetta staðfesti Frank Bohmann formaður deildarinnar í samtali við þýska miðilinn DPA. Hingað til hefur aðeins verið notast við marklínutækni á leikjum úrslitahelgar bikarkeppninnar en nýja tæknin kemur til með að aðstoða dómara enn frekar við ákvarðanir sínar en nú þegar er myndbandsdómgæsla notuð. Hingað til hefur myndbandsdómgæslan ekki alveg getað sagt til um hvort boltinn fari yfir línuna í vafaatriðum. Þýskir miðlar greina frá því að nýja tæknin muni kosta deildina um 500 þúsund evra eða 72 milljónir íslenskra króna.
Franski knattspyrnumaðurinn Jean-Philippe Mateta, sóknarmaður Crystal Palace, hefur fengið grænt ljós frá læknum til að snúa aftur á völlinn í kjölfar þess að hafa meiðst illa eftir hræðilega tæklingu Liams Roberts markvarðar Millwall í bikarleik liðanna. Mateta fékk djúpan skurð við vinstra eyrað og þurfti að sauma 25 spor. Roberts fékk rautt spjald eftir aðkomu VAR-dómara og var svo úrskurðaður í sex leikja bann fyrir brotið grófa. Sky Sports greinir frá því að Mateta þurfi að spila með sérstaka grímu á meðan sárið við eyrað grær.