
Viðtal
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Kvikmyndin No Other Land, sem hlaut Óskarsverðlaunin í ár sem besta heimildarmynd, verður sýnd í Bíó Paradís 30. og 31. mars og 2. apríl nk. en tónlist við hana samdi Julius Pollux Rothlaender sem búsettur hefur verið hér á landi í um tíu ár. No Other Land var gerð af palestínsk-ísraelskum hópi og segir á vef kvikmyndahússins að hún fjalli um yfirtöku ísraelskra hermanna á Masafer Yatta á Vesturbakkanum og bandalagið sem hafi myndast milli palestínska aðgerðasinnans Basels og ísraelska blaðamannsins Yuvals.
Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Berlinale í fyrra og hlaut þar verðlaun sem besta heimildarmynd. Hefur hún verið sýnd víða upp frá því og hlotið bæði lof og athygli. Myndin er eftir fjóra aðgerðasinna, þau Basel Adra, Hamdan Ballal, Yuval Abraham og Rachel Szor, og er þeirra fyrsta heimildarmynd.
Julius Pollux Rothlaender samdi tónlist við myndina, en hann er Þjóðverji sem hefur búið og starfað á Íslandi frá árinu 2015. Hann svaraði góðfúslega nokkrum spurningum blaðamanns Morgunblaðsins fyrr í þessum mánuði.
Ástandið verra en áður
Ég óska ykkur sem komuð að gerð myndarinnar til hamingju með Óskarsverðlaunin en veit að það skiptir þig meira máli að vekja athygli á skelfingarástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs, í Palestínu. Kynntir þú þér vel ástandið þar og söguna áður en þú byrjaðir að semja tónlist fyrir þessa mynd?
„Takk fyrir. Einmitt, já, í þessu verkefni finnst mér að það snúist varla um einhver verðlaun eða svoleiðis – það er mjög pólitískt,“ svarar Julius. Tilgangurinn með gerð myndarinnar hafi alltaf verið að segja söguna af Masafer Yatta og ástandinu þar. „En ástandið er óbreytt eða öllu heldur enn verra en nokkurn tíma áður,“ segir Julius. „Búandi langt í burtu og yfir ótrúlega miklum forréttindum get ég auðvitað aldrei tengt við ástandið á sama hátt og þau sem búa í Masafer Yatta. Ég reyndi að kynna mér ástandið vel og hef eiginlega alltaf fylgst með því en mér fannst mikilvægast að skilja söguna í gegnum myndina sjálfa og þau samtöl sem ég átti við Basel, Yuval, Rachel og Hamdan í gegnum ferlið. Í grunninum var hlutverk mitt mjög persónulegt, tónlistin sem ég gerði er ekki tónlist við fréttaflutning heldur við mjög erfiða og persónulega sögu. Þannig að það var mikilvægast fyrir mig að skilja söguna í gegnum það að kynnast Basel og Yuval enda snýst myndin mikið um sögu þeirra og aðallega um sögu Basels og fjölskyldunnar hans,“ segir Julius.
Vera megi að heimsókn hans til Palestínu og Ísraels, fyrir sjö eða átta árum, hafi hjálpað honum að nálgast umfjöllunarefnið á annan hátt. Bróðir hans hafi búið þar í hálft ár og saman hafi þeir heimsótt vini sem hann hafi eignast á Vesturbakkanum og í Tel Aviv. Þá hafi hann líka verið í No Borders-hreyfingunni og aðgerðahópnum í Reykjavík. „En á endanum fannst mér hlutverk mitt aðallega að hlusta á söguna sem myndirnar segja og það sem ég upplifði í gegnum samtölin við Basel, Yuval, Rachel og Hamdan,“ segir Julius.
Þetta hlýtur að hafa verið mjög lærdómsríkt verkefni fyrir þig en um leið átakanlegt?
„Algjörlega, það var mjög lærdómsríkt og átakanlegt ferli. Það er fyrsta kvikmyndin sem þau fjögur gerðu, og ég var einnig nýkominn inn í kvikmyndatónlist á árunum á undan. Ég kom inn í verkefnið í september 2023 og við kláruðum í lok desember sama ár þannig að vinnan fór að mestu fram þegar ástandið og stríðið var sem verst á Gasa og þar með einnig á Vesturbakkanum,“ svarar Julius. „Sem þýðir að þetta ferli var auðvitað hvað verst og erfiðast fyrir leikstjórana enda eru þau sjálf viðfangsefni myndarinnar. Það sem gerist í myndinni er þeirra líf og þau þurftu að klára myndina í miðju stríðsástands og á meðan ísraelskir landnemar gerðu árásir á þau í Masafer Yatta.“
Lífshættulegt
Myndin er framleidd af palestínskum og ísraelskum kvikmyndagerðarmönnum og fjallar um hernumið svæði, Masafer Yatta, á Vesturbakkanum og bandalag sem myndast á milli palestínska aðgerðasinnans Basels og ísraelska blaðamannsins Yuvals, svo ég vitni í texta á vef Bíós Paradísar. Af stiklunni að dæma hafa þeir lagt sig í lífshættu oftar en einu sinni til að ná upptökum á síma sína af ísraelskum hermönnum, ekki satt?
„Já, eins og sést í myndinni er ástandið lífshættulegt fyrir þau sem mótmæla aðgerðum ísraelska hersins í Masafer Yatta, sem á líka við um leikstjórana fjóra, þau Basel, Yuval, Rachel og Hamdan. Það sem sést í myndinni er þeirra líf, Basel og Hamdan búa í Masafer Yatta og eru í sífelldri hættu. Aðgerðir ísraelska hersins og árásir af hálfu landnemanna hafa verið að aukast undanfarið, þannig að staðan er grafalvarleg ennþá,“ svarar Julius.
Hvernig kom það til að þér var boðið þetta verkefni, að vinna að þessari mynd?
„Ég kom inn í verkefnið í gegnum klipparann Anne Fabini. Hún er frábær manneskja og mjög reynd sem klippari en hún var að hjálpa leikstjórunum við að klippa myndina,“ svarar Julius. Fabini hafi mælt með honum þegar kom að því að finna kvikmyndatónskáld fyrir myndina.
Hvernig var þetta verkefni í samanburði við önnur sem þú hefur tekið að þér við tónsmíðar?
„Mér finnst erfitt að bera þetta verkefni saman við önnur tónlistarverkefni þar sem það er bæði svo pólitískt og persónulegt. Ég var þakklátur fyrir að fá að styðja þetta verkefni og sögu þeirra Basels, Yuvals, Rachelar og Hamdans. Í ljósi þessarar sögu og skelfilegs ástands sem myndin segir frá, þá virðist það varla snúast um list eða kvikmynd lengur en á sama tíma er listin svo mikilvæg í því að segja þessa sögu.“
Þessi heimildarmynd hefur fengið mikla athygli, lof og fjölda verðlauna, nú síðast Óskarsverðlaun. Heldurðu að hún muni hafa einhver áhrif á ástandið á þessu svæði, Masafer Yatta?
„Það að hún hafi áhrif á ástandið í Masafer Yatta og kalli fram jákvæðar breytingar var hin stóra von teymisins. Þau Basel, Yuval, Rachel og Hamdan höfðu áður unnið við að kynna ástandið í gegnum aktívisma og blaðamennsku. Og svo var heimildarmyndin – og það að fá sem flesta til að horfa á hana – stærsta von þeirra um að ná fram einhverjum breytingum og fá fólk um allan heim, sem er búið að horfa á myndina, til að þrýsta á ríkisstjórnir í sínum löndum og auka pressu á ríkisstjórnina í Ísrael um að breyta einhverju. En ekkert af þessu hefur gerst og það sem er verra: Ástandið í Masafer Yatta er enn verra þessa dagana. Bráðum verður enginn eftir þar, þau geta ekki beðið miklu lengur eftir því að eitthvað breytist,“ svarar Julius.
Hafa fengið morðhótanir
Hvernig hefur tekist að kynna myndina, hafið þið mætt mótspyrnu í einhverjum löndum og, ef svo er, í hvaða formi?
„Mótspyrnan kom aðallega hægra megin frá. Ísraelska ríkisstjórnin og þau sem eru hlynnt henni hafa gagnrýnt myndina og einnig einhverjir íhalds-stjórnmálamenn í Þýskalandi og annars staðar í heiminum. Bæði Basel og Yuval hafa fengið morðhótanir og árásir á heimili sín og fjölskyldur. Í tilfelli Basels hafa öll síðustu árin verið þannig, þar sem hann býr við stöðuga lífshættu sem aktívisti í Masafer Yatta. En svo hafa BDS-samtökin líka nýlega gagnrýnt myndina fyrir að normalísera ástandið. Viðbrögðin við myndinni eru alls konar en kannski er á tímum eins og þessum einmitt mjög mikilvægt að taka samtal um öll þessi viðbrögð.
Myndin hefur verið sýnd um allan heiminn og fullt af fólki alls staðar að hefur verið að lýsa yfir stuðningi og sagt hversu mikilvægt og erfitt þeim finnst að horfa á þessa mynd – en á sama tíma hefur ekkert breyst í Masafer Yatta og húsin þar eru rýmd á meðan við tölum, og fólk verður fyrir árásum.“
Þú bjóst á Íslandi í 10 ár og talar fína íslensku, hvers vegna bjóstu hér, hvað kom til að þú fluttir hingað?
„Ég bý ennþá á Íslandi – þó að ég skipti tímanum upp á milli þess að vera í Reykjavík og í Berlín eða annars staðar. Það var svolítið tilviljunarkennt að ég flutti til Íslands árið 2015. Mér fannst vera kominn tími til að breyta til og flytja frá Berlín og uppgötva hvernig væri að búa annars staðar. Það kom sjálfum mér á óvart hversu hratt tíminn leið en svo komu alltaf nýjar og nýjar ástæður fyrir því að vera lengur og lengur,“ segir Julius að endingu.